„Spádómurinn er að Samfylkinginn eigi eftir að vinna næstu kosningar og xD glutri endanlega niður einstakri stöðu sinni á Norðurlöndunum og verði svona sænskur hægriflokkur fyrir stórkapítalið og aðalinn.“ Þetta skrifar Brynjólfur Sveinn Ívarsson, sem ætla má að sé frjálshyggjumaður þar sem hann birtir skrif sín innan Facebook-hópsins Frjálshyggjufélagið.
Brynjólfur fer hörðum orðum um núverandi stefnu og stjórnendur Sjálfstæðisflokksins, segir flokkinn algjörlega búinn að missa alla tengingu við almenning sem muni þýða afhroð í næstu kosningum. Það vekur athygli að þó frjálshyggjumenn hafi almennt kosið Sjálfstæðisflokkinn hingað til, þá virðast flestir sammála Brynjólfi og nær enginn kemur flokknum til varnar.
Hér fyrir neðan má lesa pistil Brynjólfs í heild sinni.
Það er enginn í brúnni.
Það er svo takmarkaður hópur sem hefur einhver áhrif í þjóðfélaginu að það er vart hægt að tala um að við búum í lýðræðisríki. Þegar hagsmunir efri laganna (bæði fjárhagslega og menningarlega) fara ekki saman við hagsmuni almennings þá ber elítan alltaf sigur úr bítum. Lýðræðishallinn blasir við á öllum sviðum hvort sem það er fiskveiðistjórnunarkerfið, útlendingamál, húsnæðisvandinn, opinber framsækinn áróður og svo mætti lengi telja.
Eftir hverjar kosningar er einhverri ríkisstjórn klastrað saman og bersýnilegt er að hagsmunir þeirra sem byggja þetta land vega afar lítið. Það er einfaldlega verið að skipta góssinu og æðstu embætti þessa lands eru skiptimynt í pólitískum hrossakaupum. Traust í garð stofnanna fer dvínandi en það kemur kannski ekki að sök þar sem þær eru einfaldlega ekki traustsins verðar. Það eru þrjár ríkisstjórnir sem límdar eru saman með þriðjungaskiptum.
Minn gamli flokkur er orðinn nátttröll sem virðist ekki botna í meginþorra þjóðarinnar. Atvinnummennirnir þarna á bæ bera á borð vélstrokkað tilberasmjör og það eitt virðist vaka fyrir hverjum og einum þeirra að „líta vel út“. Þegar svo er komið fyrir flokknum að það getur ekki aflað stuðnings fimmt hvers manns þá er ekki laust við að maður spyrji sig hvað er í gangi. Áhorfendurnir eru hættir að horfa á leikritið en leikararnir halda sýningunni gangandi að því er virðist einungis til þess að stela leikmununum.
Allir nánir vinir mínir sem hafa löngum kosið flokkinn eru nú heimilislausir og myndu frekar bóna Cadillac með tungunni en að ljá honum atkvæði sitt. Þá hefur verið nefnt að það væri kannski best að kjósa bara Tomma þar sem hann sé siðferðisstólpi miðað við hitt sem er í boði. Maður hefði kannski vonast að það hefði hvarflað að íhaldinu að menn myndu kannski verða íhaldsmenn ef þeir hefðu eitthvað til þess að halda í.
Aðkallandi samfélagsleg vandamál sitja á hakanum á meðan umræðan snýst um hvað karlar og konur séu. Það hentar elítunni bara alveg ágætlega. Að sama skapi eru fjölmiðlar í öndunarvélinni. Ráðandi öfl verja síðan stöðu sína með því að stjórna flæði upplýsinga. Upplýsingar sem eiga hikaust erindi við kjósendur rata bara til þeirra þegar ráðandi öfl hafa hagsmuni af því. Þið verðið bara að taka mig á orðinu að ykkur órar vart fyrir því hvað er í gangi í þessu landi. Aðhaldið er nákvæmlega núll. Báknið er síðan orðið svo stórt að ég er ekki viss um að nokkur einasti maður hafi haldgóða yfirsýn yfir hvað gerist í þessu landi.
Ég fæ ekki betur séð að þetta fyrirbæri sem á að kallast lýðræði hér á landi sé einfaldlega dautt. Það virðist ekki gegna neinu hlutverki nema ljá rányrkju efri laganna lögmæti. Með samstilltu átaki væri hinsvegar hægt að koma flokknum undir 15% og þegar hann slær á þráðinn til hans fer maður bara að mæra Ingu Sæland. Ég veit samt ekki hvort það séu nægilega sterk skilaboð.
Spádómurinn er að Samfylkinginn eigi eftir að vinna næstu kosningar og xD glutri endanlega niður einstakri stöðu sinni á Norðurlöndunum og verði svona sænskur hægriflokkur fyrir stórkapítalið og aðalinn.