Gríðarlegur kostnaður við hervæðingu Evrópu

Ef borinn eru saman útgjöld evrópsku Natoríkjanna frá 2014 til 2023, sést vel að álfan er að hervæðast hratt. Löndin í austurhlutanum hafa sum meira en tvöfaldað framlög til hermála, en aukningin hefur verið líka verið mikil í vestrinu. Lúxemborg sem er með innan við þúsund manna her hefur til dæmis nærri tvöfaldað hernaðarútgjöldin. Samanlagt nema aukin hernaðarútgjöld evrópsku Nató-ríkjanna á þessum árum um 9.300 milljörðum króna. Það er fé sem áður var notað til annars en rennur nú til hernaðaruppbyggingar.

Þetta veldur miklum breytingar í þeim löndum sem lengst ganga. Árið 2014 fóru 0,88% af landsframleiðslu Litháen til hermála. Í ár er reiknað með að framlögin verði um 2,54% af landsframleiðslu, samkvæmt skýrslu Nató. Ef við flytjum þetta yfir á íslenskan mælikvarða þá jafngildir þetta að framlög til hermála hafi verið 37,5 milljarður króna að núvirði 2014 en stefni í 108 milljarða króna á þessu ári. Jafngildir því að Íslendingar myndu taka 70,5 milljarða króna úr öðrum verkefnum og setja í hernaðaruppbyggingu.

Og þetta er staðan í mörgum ríkjum í Austur-Evrópu. Hernaðaruppbygging er orðin meginverkefni ríkisins. Fé er flutt frá öðrum grunnkerfum samfélagsins og sett í hernað. Og það þarf ekki að taka það fram að ríkin í austrinu mega síst við þessu, eru mörg hver illa farin vegna vanrækslu grunnkerfanna á nýfrjálshyggjuárunum sem léku þessi lönd miklu verr en þau í Vestur-Evrópu. Stríðið í Úkraínu og viðbrögð Nató-ríkjanna við því, er því að hafa djúpstæð áhrif á samfélagslega uppbyggingu í Evrópu.

Finnar hafa aukið herútgjöld sín, sem voru mikil fyrir, úr 1,45% af landsframleiðslu í 2,45%. Á íslenskan mælikvarða jafngildir þetta nýjum 42,5 milljörðum til hermála ár hvert. Holland fór úr 1,15% í 1,70% sem jafngildir aukningu um 23 milljarða króna. Og hernaðarútgjöldin í Danmörku fór úr 1,15% af landsframleiðslu í 1,65% sem jafngildir rúmum 21 milljarði króna á íslenskan mælikvarða.

Þýskaland hefur aukið herútgjöld sín mest í krónum talið, um 2.150 milljarða íslenskra króna á ári. Það er eins og hálf landsframleiðslan á Íslandi.

Kröfur Nató eru að hvert aðildarríki verji að lágmarki 2% af landsframleiðslu í herútgjöld. Þetta eru gríðarlegir fjármunir og gera hernað að einu af meginstefi ríkjanna. Í löndum þar sem skattar eru um 34% af landsframleiðslu, eins og raunin er í OECD-ríkjunum að meðaltali, er þetta krafa um að 5,9% af tekjum ríkisins fari í hernað.

Á íslenskan mælikvarða er þetta krafa um hér sé eytt um 85 milljörðum króna árlega í hernað. Þetta eru 7,3% af tekjum ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum og 6,7% af útgjöldum samkvæmt fjárlögum. Verðbólga og þensla hefur hækkað tekjur ríkissjóðs frá fjárlögum, svo þessi hlutföll eru í reynd nokkuð lægri.

Krafan um 2% af landsframleiðslu í hernað jafngildir því að Nató vilji að Evrópu-löndin verji um 56 þúsund milljörðum í hernað. Það er meira en 13 föld landsframleiðsla Íslands. En þessi krafa er í reynd um meiri eyðslu, þar sem mörg lönd eyða nú þegar meiru en 2% landsframleiðslunnar í hernað. Þetta á við um Pólland, Grikkland, Eistland, Litháen, Finnland, Rúmenía, Ungverjaland, Lettland, Bretland og Slóvakía. Ef við höldum eyðslu þeirra en hækkum önnur lönd upp í 2% af landsframleiðslu þá er krafan í reynd um að 61 þúsund milljarðar fari í hernað í álfunni, um 12 þúsund milljörðum meira en varið verður í ár. Og um 22 þúsund milljörðum meira en Nató-ríkin vörðu til hernaðar 2014, árið sem rússneski herinn hernam Krím.

Eftir að Finnland og Svíþjóð gengu í Nató eru þrjú stærri lönd í okkar heimshluta sem eru ekki í þessu hernaðarbandalagi. Á Írlandi eru framlög til hermála samkvæmt Alþjóðabankanum 0,26% af landsframleiðslu. Það eru um 11 milljarðar króna upp á íslenskan mælikvarða, langt undir 85 milljarða króna kröfu Nató. Í Sviss er þetta hlutfall 0,71% samkvæmt Alþjóðabankanum og innan við 0,8% í Austurríki.

Þrátt fyrir að þessi lönd séu utan Nató og taki ekki þátt í hernaðaruppbyggingu álfunnar af sama ákafa og Nató-löndin er enginn sem heldur því fram að búast megi við innrás Rússa í þessi lönd, að Rússar muni skera á raflínur eða ljósleiðara eða valda neinum sérstökum usla innan þeirra.

Myndin er af þýskum hermönnum, en Þjóðverjar hafa tvöfaldað útgjöld sín til hermála og stefna á að eyða enn meiru.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí