Lyfjafyrirtækin reyna að fella ráðagerðir um lækkun lyfjakostnaðar

Lyfjafyrirtækin í Bandaríkjunum berjast nú fyrir því að losna undan loftlags- og heilbrigðislögunum sem ríkisstjórn Joe Biden setti í fyrra, en í þeim er gert ráð fyrir að aukin heilbrigðisþjónusta og ódýrari verði að hluta til fjármögnuð með því að Medicare, bandaríska heilbrigðistryggingastofnunin, knýi fram umtalsverðan afslátt á tíu lyfjum.

Fyrirmyndin af ákvæðum laganna er sótt til Evrópu. Landsspítalinn kaupir t.d. inn lyf í félagi við lyfjainnkaupastofnanir Danmerkur og Noregs og sækir þannig afslátt í krafti stærðar innkaupasambandsins. En Bandaríkjamenn horfa ekki síst til NHS, bresku heilbrigðisþjónustunnar. NHS notar stærð og umfang sitt til að knýja fram afslátt frá lyfjafyrirtækjunum. NHS telur sjálft að það hafi sparað með þessu um 1,2 milljarð punda á þriggja ára tímabili eða tæplega 202 milljarða íslenskra króna. Þetta eru háar tölur en Bretland er líka fjölmennt land. Til að setja þá upphæð í íslenskt samhengi þá jafngildir þetta sparnaði upp á um 385 m.kr. árlega.

Í loftlags- og heilbrigðislögum Biden frá í fyrra var markið sett hærra. Lögin gera ráð fyrir framlögum upp á 720 milljarða dollara yfir tíu ára tímabil og að fjármagna meira en þriðjunginn með samningum Medicare við lyfjafyrirtækin um verðlækkun á lyfjum. Árlega ætlar Bandaríkjastjórn því að sækja um 3.320 milljarða íslenskra króna í verðlækkun á lyfjum. En Bandaríkjamenn eru enn fleiri en Bretar, á íslenskan mælikvarða jafngildir þetta 3.885 m.kr. árlega. Þetta er því um tíu sinnum metnaðarfyllra verkefni en útboð NHS. Hafa verður þó í huga að lyfjaverð er lægra í Bretlandi en í Bandaríkjunum. Því er hægt að sækja meiri afslátt í Bandaríkjunum.

Biden-stjórnin ætlar að ná þessu með samningum um aðeins tíu lyf. Upphaflega átti að sækja á lyfjafyrirtækin um fleiri lyf en frumvarpið þynntist út í þinginu, aðeins tíu lyf náðu í gegn. Fyrirkomulagið verður þannig að lyfjafyrirtækjunum verður boðið að ganga til samninga í haust. Þau fá aðeins mánuð til að svara og leggja fram tilboð. Ef þau sinna því ekki eiga þau von á sektum og að Medicare dragi úr kaupum á öllum lyfjum frá viðkomandi fyrirtæki. Medicare kaupir lyf fyrir um 50 þúsund milljarða árlega, svo þetta er raunveruleg hótun.

Lyfjafyrirtækin berjast nú um á hæl og hnakka til að komast undan þessum lögum. Merck hefur þegar höfðað mál í von um að fella lögin og önnur fyrirtæki hafa fyllt á eftir.
Loftlags- og heilbrigðislögin eiga meðal annars að tryggja um 13 milljón manns heilsutryggingu sem hafa hana ekki í dag. Stefnt er að því að hlutur sjúklinga innan Medicare í lyfjakostnaði fari ekki yfir 2 þúsund dollara eftir 2025 eða tæplega 20 þús. kr. á mánuði. Kostnaður sjúklinga vegna insúlíns má ekki fara upp fyrir 35 dollara mánaðarlega eða 4.610 kr.

Lögin munu því bæta stöðu margra sjúklinga. En til þess þarf að finna fjármagnið hjá lyfjafyrirtækjunum. Myndin er af mótmælenda í Bandaríkjunum sem bendir á afleiðingar þess þegar sjúkratryggingarfélögin neita að greiða fyrir sjúkrakostnað.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí