Að hver langreyður losi á ári koltvísýring sem jafnist á við umferð 30 sparneytinna bíla má lesa í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag, fimmtudag. Umfjöllunin styðst við skýrslu Guðjóns Atla Auðunssonar, efnafræðings, sem birtist á heimasíðu hans.
Nafni efnafræðingsins, Guðjón Már Sigurðsson, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, segir að ýmislegt hafi verið sett fram á alþjóðavettvangi um tengsl hvala og gróðurhúsalofttegunda, en þá heldur hitt, að hvalir bindi allt í allt meiri koltvísýring en þeir losa.
Guðjón Már vísaði blaðamanni til dæmis á grein sem birtist í tímaritinu Cell í desember á síðasta ári, ólíkt þeirri skýrslu sem Morgunblaðið styðst við, sem ekki hefur notið ritrýni til birtingar í alþjóðlegu vísindariti. Greinin í Cell ber titilinn „Whales in the carbon cycle: can recovery remove carbon dioxide?“. Niðurstaða þeirrar rannsóknar er að þó svo að vistkerfi hvala séu flókin og ekki einfalt að reikna þau áhrif sem þeir hafa á losun og bindingu gróðurhúsalofttegunda af nákvæmni, þá bendi þó allt til að þeir valdi meiri bindingu en losun, og að endurheimt hvalastofna muni allt í allt auka bindingu koltvísýrings – þó að hnattræn áhrif þeirrar bindingar verði „tiltölulega lítil“.
Hafrannsóknarstofnun fylgist með saur og þvagi langreyða
Guðjón Már segist taka niðurstöðum allra rannsókna á sviðinu með fyrirvara: „Maður dregur það dálítið í efa,“ sagði hann, „eða það er byggt á mjög takmörkuðum gögnum, og dregið yfir alla hvali í heiminum sem er kannski ekki rétt. Nýjustu greinar eru aðeins að draga úr því, má segja, og leggja áherslu á að það þurfi að rannsaka þetta á hverjum stað fyrir sig, með hverja tegund fyrir sig og svo framvegis.
Guðjón Már segir Hafrannsóknarstofnun ekki hafa mótaða afstöðu í málinu enn sem komið er. „Nei við bara fylgjumst með. Þetta er í þróun. Og við höfum tekið sýni í Hvalfirði af bæði saur og þvagi úr langreyðum, svona með það að markmiði að láta efnagreina það og sjá hvaða næringarefni þau eru að losa frá sér. Svo fylgist maður bara með umræðunni og slíkt.“