Sósíalistar vinstrisinnaðasti flokkurinn síðan mælingar hófust – Vg á hraðleið til hægri

Í kosningarannsóknum Ólafs Þ. Harðarsonar og félaga eru kjósendur meðal annars beðnir að staðsetja stjórnmálaflokka á skalanum frá vinstri til hægri, frá 0 og upp í tíu. Á þessum skala hefur Sjálfstæðisflokkurinn ætíð mælst sá flokkur sem kjósendur upplifa lengst til hægri, hefur verið með 8,3 að jafnaði síðan mælt var fyrst 1987. Og lítið sveiflast til í áranna rás.

1987 settu kjósendur Alþýðubandalagið á 1,6 á þessum skala. Alþýðubandalagið færðist síðan til hægri þar til Vinstri hreyfingin – grænt framboð tók við. Þá var flokkurinn við 2,3 markið og hélst þar með litlum frávikum þar til 2017 að kjósendur fóru að færa Vg til hægri. Eftir kosningarnar 2021 var Vg komið í 3,5. Vg hefur því fært þessa hreyfingu, Alþýðubandalagið/Vg, tvöfalt nær miðjunni en Alþýðubandalagið var 1987.

2021 var í fyrsta sinn spurt um Sósíalistaflokkinn og settu kjósendur hann á 1,3, nokkru nær vinstri en Alþýðubandalagið hafði verið 1987. Því miður ná mælingar ekki aftar, en þar sem sjá má nokkra hægri sókn Alþýðubandalagsins frá 1987 til 1999 má ætla að hún hafi byrjað fyrir 1987, enda má segja að á nýfrjálshyggjutímabilinu, sem hófst um 1980, hafi það fyrst og fremst verið vinstrið og miðjan sem hreyfðust til hægri. Ef fólk vill giska má segja sem svo að Sósíalistaflokkurinn sé á svipuðum slóðum á þessum mælikvarða í hugum kjósenda í dag og vinstrið í Alþýðubandalaginu, arftaka róttækra sósíalista á Íslandi, var fyrir nýfrjálshyggju.

Hægri sókn vinstri flokka nær reyndar nokkuð aftur fyrir nýfrjálshyggjuárin, en til að ná utan um þá færslu er öðrum mælitækjum beitt. Í kosningarannsóknum Ólafs H. og félaga er aðeins spurt um upplifun kjósenda. Og þegar allt pólitíska spektrúmið færist til hægri þá færist upplifun kjósenda með. Það sést t.d. á því að Sjálfstæðisflokkurinn haggast ekki í þessum mælingum og er alltaf á sama stað, þótt færa megi rök fyrir því að stefna flokksins í dag sé mun lengra til hægri en var á árunum fyrir nýfrjálshyggju. En til að að grípa þá þróun þaerf önnur mælitæki.

Franski hagfræðingurinn Thomas Piketty hefur reynt að skýra þróun vinstri flokka í Evrópu til hægri, hvernig forysta flokkanna er ætíð lengra til hægri en kjósendurnir og hvernig þessir flokkar hafa yfirgefið alþýðufylki sitt til að teygja sig til hinna betur megandi inn á miðjunni. Þá þróun rekur Piketty allt aftur til sjöunda áratugarins, að hluta til þess sjötta. Og þegar burðarflokkar í vinstrinu færast til hægri þá upplifir hluti félagsmanna sem flokkurinn sé að svíkja sig og málstaðinn og stofnar nýja flokka til vinstri. Og þá má deila hver klufu flokkanna, forystan sem færði þá svo langt til hægri að vinstri sinnuðu félagsfólki varð ólíft innan þeirra – eða vinstri sinnuðu félagarnir sem létu ekki bjóða sér hægri sveifluna og stofnuðu nýja flokka, þar sem þeir áttu frekar heima.

Annað sem vert er að hafa í huga er að vinstri-hægri ásinn hefur að nokkru breytt um merkingu vegna áhrifa frá bandarískum stjórnmálum. Vinstri-hægri ásinn er sögulega séð ás stéttabaráttu. Þau sem eru til vinstri vilja auka völd almennings og launafólks í samfélaginu, að samfélagið sé mótað eftir kröfum almennings, vonum og væntingum. Vinstrisinnað fólk trúir að almenningur sé aflvaki góðra verka innan samfélagsins, að bæta megi samfélagið með því að bæta kjör almennings. Þau sem eru til hægri trúa að auka þurfi völd og áhrif hinna auðugu, að það séu hin ríku sem drífi atvinnulífið áfram og til þess þurfi þau svigrúm. Ef þeim lukkast vel verður meira aflögu fyrir alla. Þetta er frelsið sem hægrið talar um, frelsi hinna ríku til athafna, á meðan frelsi vinstrimanna er frelsi fjöldans frá örbirgð og valdaleysi, kúgun innan kerfis hinna ríku. Sem kallast kapítalismi, þjóðskipulag lagað að þörfum auðvaldsins.

En með dauða stéttastjórnmála í Bandaríkjunum, þar sem Demókrataflokkurinn getur ekki lengur talist stétta-flokkur, hafa hugmyndir um vinstri og hægri breyst. Vinstrið er þá með kvenréttindum, baráttu hinsegin og kynsegin fólks, með réttindum innflytjenda og annari mannréttindabaráttu. Hægrið er þá gegn kvenréttindum, hinsegin-réttindum, innflytjendum o.s.frv. Kalla mætti þetta ás íhalds-frjálslyndis, en í hugum margra hefur hann tekið yfir stéttaásinn frá vinstri til hægri.

Líklega er eldri skali, sá sem byggir á stéttabaráttu, sterkari í hugum íslenskra kjósenda. En það er án efa kynslóðabundið. Stéttahugmyndirnar eru sterkari meðal miðaldra og eldri á meðan bandaríski íhalds/frjálslyndis-skalinn er sterkari meðal yngri.

Það er engin leið að átta sig á hvaða áhrif þetta hefur á hvar kjósendur staðsetja flokkanna í kosningarannsóknum Ólafs H. og félaga. Ef við tökum dæmi af Pírötum þar sem er sterk nýfrjálshyggjuhefð þegar kemur að efnahagsmálum og stéttabaráttu, en líka sterk mannréttindahefð að amerískri fyrirmynd, þá er vel mögulegt að einn kjósandi setji Pírata langt til hægri en annar langt til vinstri.

Það er vert að hafa þetta í huga þegar ferðalag Alþýðuflokksins/Samfylkingarinnar eftir þessum ás er skoðað. Alþýðuflokkurinn hafði mælst í 5,0 og þar yfir en með sameiningu hans við Kvennalistann, Þjóðvaka og hluta Alþýðubandalagsins færðist Samfylkingin til vinstri, var um 3,7 við stofnun. Flokkurinn færðist síðan hratt til hægri, var kominn í 4,9 eftir kosningarnar 2007. Við hrunið færðist Samfylkingin aftur til vinstri, var um 4,1 þegar fylgið hrundi 2013 og 2016, færðist enn meira til vinstri 2017 en svo aðeins til hægri 2021. Enginn flokkur hefur rokkað eins upp og niður þennan skala eins og Samfylkingin. Það er aðeins Vg að undanförnu sem bíður upp á viðlíka sveiflur.

Að því sögðu þá var skali flokkanna eftir kosningarnar 2021 þessi, samkvæmt kosningarannsókninni. Því nær tíu sem flokkarnir eru, því hægrisinnaðri meta kjósendur þá. Því nær núllinu sem þeir eru, því vinstrisinnaðri.

8,3 – Sjálfstæðisflokkur
6,4 – Miðflokkur
6,0 – Viðreisn
5,9 – Framsóknarflokkur
4,1 – Flokkur fólksins
3,8 – Samfylkingin
3,6 – Píratar
3,5 – Vg
1,3 – Sósíalistaflokkurinn

Þarna sést að Sósíalistaflokkurinn er álíka langt til vinstri við Vg og Vg er vinstra megin við Framsóknarflokkinn. En svo verður að hafa í huga að þetta er mæling stuttu eftir kosningarnar 2021. Kannski hefur Vg færst enn lengra til hægri, kannski hefur staða Samfylkingarinnar breyst eftir að Kristrún Frostadóttir var kjörinn formaður o.s.frv.

Ólafur Þ. Harðarson kemur að Rauða borðinu í kvöld og ræðir um vinstri-hægrið í íslenskum stjórnmálum.

Myndirnar eru frá fundum Sósíalista og Vg.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí