Sagan segir að kjósendur refsa flokkum sem taka þátt í ríkisstjórn sem nýtur jafn lítils trausts og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mælist nú með. Og reglan er ekki sú að þeir flokkar sem slíta ríkisstjórnum og efna til kosninga tapi fylgi. Reglan er sú að þeim flokkum sem horfast ekki í augu við vandann og halda á lífi vonlítilli ríkisstjórn með lítið traust er refsað grimmt í næstu kosningum.
Lítum á söguna, sjáum hvað hún segir.
Stuðningur við ríkisstjórn Davíðs Oddssonar var iðulega um og yfir 50% en fór neðst niður í 38% stuttu áður en Davíð hætti sem forsætisráðherra og Halldór Ásgrímssonar tók við. Stuðningur við ríkisstjórn Halldórs var minnstur 48%. Halldór hætti samt og Geir H. Haarde tók við. Neðst fór mæling á trausti á ríkisstjórn hans í 46% í aðdraganda kosninganna 2007.
Þetta hljómar eins saga úr öðrum heimi, að ríkisstjórnir sem voru að deyja úr innanmeinum nytu samt svona mikils trausts meðal almennings. Ríkisstjórn Davíðs og Halldórs byrjaði að deyja stuttu fyrir kosningarnar 2003 eftir ákvörðun þeirra tveggja um að skrá Ísland á lista viljugra þjóða, þjóða sem studdu innrás Bandaríkjahers inn í Írak. Sú ákvörðun át upp pólitíska inneign formannanna, einkum Davíðs, og var upphafið að útleið þeirra beggja úr pólitík. En stórkarlaleg kosningaloforð Framsóknar í kosningunum 2003 um 90% lán til húsnæðiskaupa bjargaði ríkisstjórninni frá falli. Þetta loforð mun líklega kosta almenning um 500 milljarða króna þegar upp er staðið. Það ásamt einkavæðingu íbúðalána yfir til nýeinkavæddra banka árið 2004 er höfuðástæðan fyrir tifandi tímasprengju innan Íbúðalánasjóðs, nú ÍL-sjóðs.
En þrátt fyrir minnkandi traust og marga forsætisráðherra framkvæmdi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar margt á þessu kjörtímabili, frá 2003-07. Þarna voru eignaskattar aflagðir, fjármagns- og fyrirtækjaskattar lækkaðir og í raun stigin stærri skref í að móta íslenskt samfélag að hugmyndum nýfrjálshyggjunnar en á fyrri kjörtímabilum.
Í kosningunum 2007 tapaði Framsókn 6 prósentum af 17,7% fylginu frá 2003. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig 2,9 prósentum og fékk 36,6% atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn hafði tapað 7 prósentum 2003 og náði því ekki að endurheimta tapið síðan þá. Flokkarnir héldu eins manns meirihluta, en forysta Sjálfstæðisflokksins mat það svo að það væri of tæpt og myndaði ríkisstjórn með Samfylkingu.
Engin ríkisstjórn hefur byrjað með viðlíka velvild frá almenningi frá því að Gallup hóf mælingar á trausti á ríkisstjórnum. Í fyrstu könnun var traustið 83%. En það féll hratt og var komið niður í 51% í september 2008. Þá kom Hrunið og í nóvember mældist traust á stjórninni 32%, einni prósentu undir traustinu á ríkisstjórn Katrínar nú.
Traustið reis aðeins í desember, mældist 36% en hrundi svo niður í 26% í janúar og í febrúar gafst ríkisstjórnin upp. Mynduð var minnihlutastjórn Samfylkingar og Vg með stuðningi Framsóknar og boðað til kosninga. Í þeim bætti Samfylkingin 3 prósentum við fylgi sitt en Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 12,9 prósentum. Eftir kosningar hélt ríkisstjórn Samfylkingar og Vg áfram, nú sem meirihlutastjórn með 34 þingmenn.
Í fyrstu mælingu var traust almennings á þessa ríkisstjórn 65%. En það féll hratt og var komið undir 50% um sumarið 2009 , sló niður í 30% í október 2009 en jafnaði sig síðan nokkuð.
Eftir mitt kjörtímabil var traustið komið á slóðir Katrínar, 33%. Þá voru báðar atkvæðagreiðslurnar um Icesave að baki, ríkisstjórnin tapaði þeim báðum. Þarna var ríkisstjórnin lifandi dauð, náði litlu sem engu fram. Og vonlítil ríkisstjórn át upp stuðning kjósenda við ríkisstjórnarflokkanna. Ríkisstjórnin naut ekki lengur meirihlutastuðnings í þinginu við nokkurt mál sem einhverju skiptu. Augljóst er ríkisstjórnin hefði átt að gefast upp og boða til kosninga. En forystufólkið freistaði þess að bæta ástandið fyrst. En vegna lítils fylgis, trausts og stuðnings versnaði ástandið bara.
Lægst fór traustið í 28,4% í mars 2012. Það jafnaði sig síðan nokkuð, mældust 34% í aðdraganda kosninganna 2013. Þar missti Samfylkingin 16,9 prósentur af fylgi sínu og setti Íslandsmet í fylgistapi. Vg missti 10,8 prósentur. Samanlagt fylgi flokkanna varð 23,8%, flokka sem höfðu fengið 51,5% atkvæða fjórum árum fyrr.
Þessi ríkisstjórn er ágætt kennslubókardæmi um pólitíska inneign. Ríkisstjórn sem tapar tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum ætti náttúrlega að segja af sér. Og ríkisstjórn sem megnar ekki að fara eftir þeirri þriðju, þjóðaratkvæðagreiðslunni um nýja stjórnarskrá, ætti auðvitað líka að segja af sér. Og ríkisstjórn sem missir traust almennings ætti auðvitað líka að segja af sér.
Ef slík ríkisstjórn viðurkennir ekki stöðuna en hangir áfram af ótta við dóm kjósenda fær hún þann dóm margfaldan í hnakkann.
Framsóknarflokkurinn varð óvæntur sigurvegari kosninganna 2013, eins og stundum gerist. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki Bjarna Benediktssonar. Þessir tveir höfðu leitt stjórnarandstöðuna gegn óvinsælli ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar og höfðu flokkarnir færst nær hvor öðrum. Allar áherslur Framsóknar voru nú til hægri.
Traust á þessari ríkisstjórn var 62,4% í fyrstu mælingu. En féll síðan hratt niður og fór lægst niður í 30,9% um vorið 2015 þegar ríkisstjórnin afturkallaði aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Traustið batnaði og fór ekki neðar en 35,9% eftir birtingu Panamaskjalanna.
Sigurður Ingi Jóhannsson varð forsætisráðherra þegar Sigmundur Davíð neyddist til að segja af sér. Traust á ríkisstjórn hans fór lægst í 35,9% stuttu fyrir kosningar um haustið 2016. Þá tapaði Framsóknarflokkurinn 12,9 prósentum af fylgi sínu en Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig 2,3 prósentum. Samanlagt fylgi flokkanna var 40,5%, meira en nam traustinu til ríkisstjórnarinnar.
Eftir stjórnarmyndunarviðræður sem tóku mánuði myndaði Bjarni Benediksson ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð. Þetta var aldrei vinsæl ríkisstjórn, byrjaði með aðeins 43,6% traust. Og missti traustið hratt frá sér. Fór undir núverandi traust ríkisstjórnar Katrínar um sumarið þegar uppreist æru-málið sprakk í andlitið á ríkisstjórninni. Og stjórnin sprakk á þessu máli. Flokkarnir mættu til kosninga með 30,9% traust á ríkisstjórn þeirra. Og töpuðu allir í kosningunum, samanlagt 13,6 prósentum. Björt framtíð fékk aðeins 1,2% atkvæða og féll af þingi.
Þá er komið að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem hún myndaði með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Hún byrjaði í ágætum meðbyr, mældist með 71,4% í fyrstu könnun. Aðeins ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar byrjaði betur. Þjóðin virðist hafa ógnartrú á svona samsteypu yfir miðjuna.
En þjóðin missir þessa trú hratt. Í síðustu mælingu fyrir cóvid var traustið komið í 46,5%. Í cóvid reis traustið á stjórnvöldum, hér sem annars staðar. Það fór ekki neðar en í 52,7% í aðdraganda kosninganna 2021.
En traustið brast þegar upplýst var hverjir fengu að kaupa hluti ríkisins í Íslandsbanka í lokuðu útboði. Það dunkaði úr 60,9% í 44,3% á tveimur mánuðum. Og hefur síðan sígið jafnt og þétt. Mældist aðeins 33% í júlí hjá Gallup.
Mun traustið jafna sig aftur? Sagan segir að það geti gerst, en aðeins um fáeinar prósentur. Það eru engin dæmi um að ríkisstjórn sem hefur misst traust almennings nái að endurheimta það aftur. Ríkisstjórn sem misst hefur traust almennings getur lafað, dregist áfram lifandi dauð. En þá segir sagan að kjósendur refsi stjórnarflokkunum af hörku í næstu kosningum.
Þegar ríkisstjórnir horfast í augu við vandann og gefast upp gagnvart tapaðri stöðu er það hippsumhapps hvort flokkar tapi fylgi. Samfylkingin tapaði ekki fylgi 2009 og Sjálfstæðisflokkurinn ekki 2016. En það er nánast lögmál að flokkar sem horfast ekki í augu við vandann og halda vonlítilli ríkisstjórn á lífi tapa fylgi.