Stórt skref stigið í átt að orkuframleiðslu með kjarnasamruna

Bandarískum vísindamönnum hefur tekist að framleiða orku í gegnum kjarnasamruna í annað skiptið í sögunni.

Fyrra afrekið átti sér stað í desember á síðasta ári, en þar náðu vísindamenn að nota kjarnasamruna til að skapa orku, en þá er átt við meiri orku en fór í samrunaferlið sjálft. Sú tilraun vakti heimsathygli, en eitt allra helsta vandamál sem heimurinn stendur frammi fyrir í dag er það að finna annan orkugjafa en jarðefnaeldsneyti. Vísindamenn hafa margir hverjir lengi horft til kjarnasamruna í þeim tilgangi.

Samkvæmt tilkynningu rannsóknarhópsins frá Lawrence Livermore National Laboratory í Kaliforníu í Bandaríkjunum, þá tókst þeim ekki einungis að endurtaka tilrauninina frá því í desember með sömu niðurstöðum – þeim tókst að skapa enn meiri orku en í fyrri tilrauninni.

Paul Rhien, talsmaður rannsóknastofunnar, sagði í tilkynningu að þrátt fyrir að enn eigi eftir að greina öll gögn rannsóknarinnar til hlítar, þá geti hópurinn þó staðfest nú þegar að tilraun þeirra skapaði meiri orku en sú fyrri. Hann vildi ekki ræða tilraunina meira enn sem komið er, en bætti við að niðurstöður hennar munu koma til með að vera ræddar á ráðstefnum og í vísindaritum fræðimanna á þessu sviði á komandi mánuðum – eins og venjan er með allar vísindarannsóknir.

Hvers vegna er orkuframleiðsla í gegnum kjarnasamruna mikilvæg?

Í leitinni að ódýrum, öruggum og hreinum orkugjafa, sem mengar ekki á við jarðefnaeldsneyti, er kjarnorkuframleiðsla auðvitað einn af valkostunum. Sá valkostur hefur þó almennt ekki verið sérstaklega vel séður meðal almennings, en kemur þar helst til þau slys sem orðið hafa í hinum ýmsu kjarnorkuverum heims – Tsjernobyl og Fukushima eru þar augljóslega langfrægustu dæmin.

Slík kjarnorkuframleiðsla byggir þó á kjarnakljúfun – þ.e. sköpun orku í gegnum klofning atóma. Við slíkan klofning leysist gríðarlega orka úr læðingi, sem kjarnorkuver beisla svo. Vandamálið við slíka orkuframleiðslu er ekki einungis öryggismál, heldur einnig sá kjarnorkuúrgangur sem til verður við framleiðsluna, en þar er um að ræða gríðarlega geislavirkan úrgang sem heldur áfram að vera slíkur í jafnvel tugþúsundir ára. Lönd heims hafa gripið til ýmissa ráða til þess að losna við þann úrgang, en skynsamasta lausnin sem komist hefur verið niður á er að geyma hann í gríðarlega djúpum námum sem grafnar eru inní fjöll á afskekktum svæðum.

Kjarnasamruni er hinsvegar allt annarskonar ferli: í staðinn fyrir að atóm séu klofin þá eru þau látin renna saman. Þessi leið til að skapa orku hefur löngum verið draumur vísindamanna þegar kemur að hreinni orkuframleiðslu, en slíkt ferli kemst bæði hjá ofangreindum hættum við kjarnorkuframleiðslu, ásamt því að kjarnasamruni krefst einungis vetnis frekar en úraníums. En ólíkt úraníumi þá krefst vetni ekki neinnar dýrrar og flókinnar vinnslu. Sjórinn einfaldlega inniheldur allt það vetni sem slík framleiðsla myndi þurfa.

Töluvert er síðan að vísindamenn náðu tökum á kjarnasamruna, en það er ferlið sem á sér stað í vetnissprengjum, og fyrsta sprengja þeirrar tegundar var sprengd 1.nóvember 1952.

Kjarnasamruni er því ekkert sem er þannig séð nýtt afrek fyrir vísindunum, en tilraunin í desember í fyrra var hinsvegar sú fyrsta sem tókst að skapa meiri orku en notað var í ferlið. Og eins og fyrr segir, þá tókst bandarískum vísindamönnum nú að endurtaka tilraunina með enn betri árangri en áður.

Vísindamenn sem tjáð sig hafa við helstu fjölmiðla um rannsóknina eru allir á sama máli um að enn sé langt í land með að orkuframleiðslu í gegnum kjarnasamruna komi til með að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi, og verða aðalorkugjafi heims.

En á sama tíma neitar enginn þeirra því að hér er samt sem áður risastórt stökk tekið í þá átt.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí