Bandaríski leikarinn Adam Driver tók þátt í kynningu nýrrar kvikmyndar á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á fimmtudag. Kynningarstarf stjörnunnar væri ekki í frásögur færandi á þessum miðli ef ekki væri fyrir yfirstandandi verkfall bandarískra kvikmyndaleikara sem meinar þeim þátttöku í slíkum viðburðum. Adam Driver er hins vegar ekki verkfallsbrjótur heldur þvert á móti, eins og hann útskýrði þegar blaðamaður spurði hann um verkföllin: „Ég er mjög ánægður að vera hér til að styðja þessa mynd, en ég er líka mjög hreykinn af því að vera hér og taka þátt í kynningu myndar sem er ekki framleidd undir hatti AMPTP.“
AMPTP eru þau samtök kvikmyndaframleiðenda sem leikarasamtökin eiga nú í vinnudeilu við. Meðlimir í stéttarfélagi kvikmyndaleikara, SAG-AFTRA, hafa fengið undanþágur frá verkfallinu til þátttöku í kvikmyndum annarra framleiðenda, svo lengi sem samningar eru í takt við kröfur stéttarfélagsins. „Hvers vegna geta lítil dreifingarfyrirtæki á við þessi mætt ítrustu kröfum stéttarfélagsins,“ spurði Driver á blaðamannafundinum, „en stórfyrirtæki á við Netflix og Amazon ekki?“
Höfundar og leikarar Hollywood í verkfalli
Tvö risavaxin verkföll hafa hindrað og tafið flesta framleiðslu í bandarískum kvikmyndaiðnaði frá því í sumar. Fyrst fóru handritshöfundar í verkfall, raunar þegar síðastliðið vor: þann 2. maí hófst verkfall sambands handritshöfunda, Writers Guild of America (WGA). 14. júlí gripu bandarískir kvikmyndaleikarar til sömu ráða, þegar leikarafélagið Screen Actors Guild and American Federation of Television and Radio Artists (SAG-AFTRA) hóf verkfall. Nú í upphafi september standa báðar vinnudeilurnar óleystar: Bandalag kvikmynda- og sjónvarpsframleiðenda (Alliance of Motion Picture and Television Producers eða AMPTP) er viðsemjandi beggja aðila og hefur fallist á kröfur hvorugs þeirra.
Kröfur bæði leikaranna og höfundanna snúast einkum um greiðslur fyrir efni sem miðlað er á streymisveitum: bæði höfundar og leikarar segja að þeir beri skarðan hlut frá borði þegar kemur að veltu streymisveita, samanborið við það hlutdeild þeirra í tekjum af framleiddu efni fyrir áratug síðan, áður en streymisveitur náði þeim sessi sem þær hafa í dag, þegar hefðbundnir samningar um sýningar í kvikmyndahúsum og sjónvarpi höfðu meira vægi.
Deilur um skorður við gervigreind
Fleiri kröfur sem deilt er um snúast einnig um afleiðingar tækniþróunar: höfundar vilja tryggja að gervigreind verði aðeins beitt sem hjálpartæki við gerð handrita en komi ekki í stað höfundanna sjálfra. Þá setja þeir fram kröfur um að ekki verði fallið frá fyrri viðmiðum um fjölda höfunda á bakvið leiknar sjónvarpsþáttaraðir: við gerð handrita fyrir þætti á við Seinfeld eða Friends tóku iðulega allt að tólf höfundar þátt, í svokölluðu höfundaherbergi. Þegar streymisveitur framleiða þætti hafa þær viljað fækka höfundunum allt niður í þrjá.
Leikarar vilja líka að settar verði skorður við beitingu gervigreindar í þeirra stað, en meginkröfur þeirra snúast þó frekar um heilbrigðistryggingar, endurgreiðslur á útlögðum kostnaði og önnur hefðbundin mál í kjarasamningum, auk, fyrst og síðast, launa: ekki aðeins hafa tekjur þeirra rýrnað í kjölfarið á aukinni hlutdeild streymisveita í dreifingu efnis heldur hefur verðbólga einnig haft sitt að segja um rýrnandi kjör þeirra.
Stjörnukerfið sem tækni gegn stéttarfélögum
Framan af verkföllunum heyrðust hæðnisraddir, einkum um leikarana, þar væru á ferð milljónamæringar sem vildu fá fleiri milljónir. En báðar fagstéttir eru fjölmennar: í sambandi handritshöfunda eru 20 þúsund meðlimir, í leikarafélaginu 171 þúsund. Af þeim tæplega 200 þúsund manns, samanlagt, eru ekki margir sem tilheyra tekjuhæsta laginu.
Raunar er til löng, viðamikil og afdrifarík saga þess hvernig topplögum beggja faggreina hefur verið beitt af framleiðendum gegn samtakamætti stéttarfélaga þeirra: því hefur verið haldið fram að meðal ásetnings framleiðandans Louis B. Mayer með því að setja á laggirnar bandarísku kvikmynda-akademíuna, svonefndu, og verðlaun hennar, Óskarsverðlaunin, hafi verið að ýta undir samkeppni á milli starfsfólks í faginu til að halda aftur af sameiginlegri kröfugerð þess og stofnun stéttarfélaga.
En það er önnur saga frá liðinni öld. Nú, tæplega hundrað árum síðar, eru höfundar og leikarar Hollywood í verkfalli. Framleiðendur neita að fallast á kröfur þeirra. Hvað þýðir það? Meðlimir í WGA, sem eru flestir höfunda í bandaríska kvikmyndaiðnaðinum, mega ekki „skrifa, endurskrifa, kynna eða ræða framtíðarverkefni við fyrirtækin sem eru í AMPTP“ – það eru 350 framleiðslufyrirtæki, að meðtöldum stærstu kvikmyndaverum landsins. Að sama skapi mega leikarar, í sínu verkfalli, ekki leika í verkum sem þessi fyrirtæki framleiða, né heldur taka þátt í kynningarviðburðum vegna þeirra. Þegar verkfallið var boðað gengu leikrar kvikmyndarinnar Oppenheimer til dæmis út af miðri frumsýningu myndarinnar í London.
Hjúkrunarfræðingar með launafólki Hollywood
Verkfallsaðgerðir höfundanna hafa nú staðið í yfir 100 daga. Fólk í mörkum öðrum fagstéttum í geiranum verður af vinnu á meðan og hefur efnt til fjölda samstöðuviðburða, þar með talið lausráðið og sjálfstætt starfandi fólk, sem sumt leitar nú í samstöðusjóði til að sjá sér farborða.
Síðastliðinn þriðjudag slógust hundruð hjúkrunarfræðinga úr stærsta stéttarfélagi fagsins í för með höfundum og leikurum í samstöðumótmælum, í krafti sameiginlegrar andstöðu við yfirvofandi hættu af innleiðingu gervigreindar: „Flip the Script on AI“ var yfirskrift mótmælasamkomunnar fyrir utan aðsetur Sunset Bronson Studios. Meðlimir stéttarfélagsins National Nurses United segja að sjúkrahús víða um landið bregðist um þessar mundir við skorti á starfsfólki með því að innleiða sjálfvirkni og gervigreindarlausnir, sem rýri um þessar mundir verulega gæði veittrar þjónustu við sjúklinga.