Miðstjórn Alþýðusambands Íslands telur samráð Eimskips og Samskipa eins og því er lýst í málsgögnum Samkeppniseftirlitsins til marks um sjúklegt hugarfar spillingar og græðgi. Algjört virðingarleysi stjórnenda þessara fyrirtækja fyrir samkeppnislögum og hagsmunum almennings er enn ein staðfesting þess að íslenskt viðskipta- og fjármálalíf glímir við djúpstæðan siðferðisvanda sem stöðugt grefur undan trausti í samfélaginu.
Miðstjórn fordæmir framgöngu stjórnenda skipafélaganna tveggja sem fól í sér stórfellt verðsamráð og var í raun samsæri gegn almenningi í landinu. Engum blöðum er um að fletta að þessi ólögmæta og siðlausa framkoma hækkaði innflutningskostnað íslenskra fyrirtækja sem venju samkvæmt veltu auknum kostnaði út í verðlag.
Þannig var það almenningur í landinu sem greiddi kostnaðinn við samráð þessara fyrirtækja. Það er að sönnu nöturlegt að það verður sami almenningur sem greiða mun sektina sem lögð var á Samskip, 4,2 milljarða króna, þar sem fyrirtækið mun nú þurfa að bæta sér upp „tapið” og venju samkvæmt verður það ekki gert með lægri arðsemiskröfum, lækkun ofurlauna eða uppsögnum þeirra sem skipulögðu samsærið og ollu tjóninu.
Miðstjórn telur sýnt að siðvæðing mun ekki að óbreyttu eiga sér stað í ranni íslenskra stórfyrirtækja eða í fjármálalífinu. Stjórnvöldum ber skylda til að bregðast við framkomnum upplýsingum og þeirri afstöðu til almennings og samfélags sem þær lýsa. Þörf er á lagabreytingum til að verja fólkið í landinu gegn siðleysingjum og þeim samfélagslegu spellvirkjum sem þeir vinna og tryggja að þeir og þeir sem raunverulega stýra og bera ábyrgð á gjörðum þeirra sæti persónulegri ábyrgð að lögum.
Miðstjórn bendir einnig á að siðleysi samráðs og græðgi setur svartan blett á íslenskt viðskiptalíf og þar með á fyrirtæki sem aldrei hafa beitt svo ósvífnum vinnubrögðum. Samfélagslegi skaðinn er ekki síst fólginn í því trausti sem glatast og þeim grunsemdum sem vakna þegar upplýst er um athæfi sem þetta. Sú spurning er áleitin hvernig forystufólk í íslensku viðskipta- og atvinnulífi bregst við þessum nýjasta áfellisdómi. Tæpast verður því trúað að það hyggist leiða hjá sér þetta síðasta högg sem trúverðugleiki þess hefur orðið fyrir.
Frétt af vef Alþýðusambandsins.