Þórdís Elva Þorvaldsdóttir segir í pistli sem hún birtir á Facebook að kynfræðsla barna bjargi lífum. Hún hefur nokkra reynslu af þessum málum en stuttmynd hennar Fáðu já var sýnd öllum 15 árum börnum árið 2013. Hún segir að eftir að myndin var sýnd hafi börnum fjölgað talsvert sem komu í Barnahús, séhæft úrræði fyrir börn sem hafa verið beitt ofbeldi.
Hér fyrir neðan má lesa pistil hennar í heild sinni.
Ég heiti Þórdís Elva og ég hef gert margvíslegt kynfræðsluefni fyrir börn og unglinga á vegum menntayfirvalda síðustu ár. Þar á meðal er verðlaunaða stuttmyndin Fáðu já. Hún var frumsýnd um allt land í hverju einasta bæjarfélagi fyrir hvern einasta 15 ára ungling sem mætti í skólann 30. janúar 2013. Eftir sýningu myndarinnar fjölgaði börnum sem komu í Barnahús, sérhæfða úrræðið fyrir börn sem hafa verið beitt ofbeldi, og sögðu frá því að Fáðu já hefði opnað augu þeirra fyrir því að einhver hefði, eða væri að, níðast á þeim kynferðislega. Ég hitti starfsmann Barnahúss nokkrum mánuðum seinna sem horfði djúpt í augun á mér og sagði mér frá krökkum sem voru allt í einu með það á hreinu að þær mættu draga mörk, og hefðu loksins rofið þögnina um fólk sem braut á þeim. „Nú hefur mjög berskjaldaður hópur barna fengið vitneskju um að samþykki er grundvöllur allrar nándar, hvort sem hún er tilfinningaleg eða líkamleg, og þau eru farin að segja frá ofbeldinu sem sum þeirra hafa jafnvel verið beitt alla ævi,“ sagði starfsmaðurinn mér, snortin. Hún þóttist viss um að myndin hefði komið í veg fyrir kynferðisofbeldi gegn fjölda barna – og jafnvel bjargað lífi einhverra þeirra.
Kynfræðsla kennir börnum nefnilega hver mannréttindi þeirra eru. Barnaníðingum stafar réttilega mikil ógn af kynfræðslu, því það er miklu erfiðara að misnota barn sem þekkir rétt sinn. Barn sem þekkir rétt sinn er ólíklegra til að trúa lygunum sem ofbeldisfólk matreiðir ofan í það, og er líklegra til að segja frá.
Eftir sýningu Fáðu já á landsvísu var lögð könnun fyrir alla fimmtán ára unglinga landsins. 95% af þeim höfðu séð myndina. Þar af sögðu 70% að þau skildu betur kynferðislegt samþykki og treystu sér betur til að draga mörk í framtíðinni. 70% sagði einnig að þau skildu betur muninn á kynlífi og klámi, en í klámi eru lífsnauðsynlegu mörkin milli kynlífs og ofbeldis gjarnan þurrkuð út. 70% barnanna skildu nú betur að klám væri ekki kynfræðsla, né gæfi það rétta mynd af þeirri virðingu og samkennd sem nauðsynleg er að hafa í öllum nánum samskiptum.
Vitandi þetta, og þekkjandi ótal hliðstæður frá öllum heimshornum þar sem kynfræðsla dregur úr kynferðisofbeldi, fallast mér hendur yfir þeirri fáfræði sem endurspeglast í því að fullorðið fólk taki sig saman og mótmæli kynfræðslu (sem þau kalla reyndar „klámfræðslu“ í meðfylgjandi skjáskoti) undir því yfirskini að það „verndi börn“. Stærsta ógnin við velferð barna á þessu sviði er ekki þekking, heldur fáfræði sem viðheldur þögn – en eins og níðingar þekkja vel þrífst ofbeldi best í þögninni.
Verum tortyggin gagnvart þeim sem vilja að börn þekki ekki réttindi sín. Fólk sem vill ekki að aðrir kunni að draga mörk er oft sama fólkið og hagnýtir sér markaleysi annarra. Fólk með óuppgerða áfallasögu, sem triggerast við umræðu um kynlíf og ofbeldi og vill þagga niður í henni, verðskuldar stuðning til að vinna úr tilfinningum sínum og ná bata – EN sálarmein fullorðinna mega samt aldrei vega þyngra en réttur barna til upplýsinga. Ekki síst upplýsinga sem gætu einmitt komið í veg fyrir að þau sjálf hljóti samskonar sálarmein. Við verðum að rjúfa þennan vítahring. Börn eiga skilið að við setjum réttindi þeirra og hagsmuni ofar okkar eigin persónulegu tilfinningum.
Krakkarnir sem voru 15 ára þegar Fáðu já var frumsýnd eru núna 25 ára fólk. Flest þeirra hafa örugglega átt í nánum samskiptum við aðra á eigin forsendum síðasta áratug. Meirihluti þeirra skildi betur mörk og átti auðveldara með að ræða þau, ásamt því að hafa betri hugmynd um að ofbeldisklám er ekki kynlíf. Það verður aldrei hægt að mæla hversu mörgum þeirra var forðað frá því að brjóta á öðrum, en þótt það hafi bara verið einn einstaklingur var það erfiðisins virði.
Við lifum á tímum upplýsingaóreiðu, og þess vegna er mikilvægt að við leyfum ekki fámennum hópi að dreifa ósannindum. Þau hafa reyndar rétt fyrir sér varðandi eitt: Börn verðskulda vernd. Besta verndin er fólgin í þekkingu, því eins og Fredrick Douglass sagði réttilega: Það er auðveldara að byggja upp sterkt barn en að tjasla saman niðurbrotnum fullorðnum einstakling.
Áfram þekking, áfram sterk börn og áfram þjóð sem veit að það er ofar öllu að fá einlægt samþykki. Saman eru okkur allir vegir færir.