„Nýjustu sviðsmyndir sem kynntar hafa verið aðilum sáttmálans sýna að gera má ráð fyrir að kostnaður við verkefni hans verði um 300 milljarðar í stað 160 milljarða. Frávikið er 140 milljarðar króna, hvorki meira né minna,“ skrifar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í aðsendri grein í Mogga dagsins og virðist þar slá af borgarlúnu og samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem hann skrifaði undir ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Sigurði inga Jóhannssyni innviðaráðherra og bæjarstjórum höfuðborgarsvæðisins sem allir voru á Sjálfstæðisflokksfólk nema Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
„Frá sjónarhóli ríkisins hefur verkefnið því vaxið úr því að snúast um að útvega að núvirði 80 milljarða með flýti- og umferðargjöldum, eða sérstökum framlögum, yfir í að gera þarf ráð fyrir öðrum 140 milljörðum því til viðbótar vegna vanáætlunar. Þá eru ótaldir þeir 40 milljarðar sem óskað er eftir frá ríkinu í rekstur almenningssamgangna. Samanlagt er því um að ræða 260 milljarða,“ skrifar Bjarni.
Og þótt Keldnalandið hafi líka hækkað í verði, hafnar Bjarni að það sé nóg. Auk Borgarlínu eru inn í samgöngusáttmálanum allskyns mislæg gatnamót og nýir vegir innan höfuðborgarsvæðisins, t.d. nýr Arnarnesvegur sem boðinn hefur verið út. Samkvæmt Bjarna hafa áætlanir um fyrsta áfanga Borgarlínu hækkað út 67 milljörðum krónas í 126 milljarða króna. Þetta er 88% hækkun en almennt verðlag hefur hækkað um 27% frá undirritun sáttmálans. Hækkunin er því 48% umfram verðlag.
„Ég líkt og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins hef lengi alið þá von í brjósti að hægt sé að ráðast í stórfellda uppbyggingu samgangna á svæðinu. Samgöngusáttmálanum var ætlað að rjúfa þá kyrrstöðu sem ríkt hefur. En það er engum gerður greiði með því að leggja fram háleit markmið um uppbyggingu ef fjárhagslegar forsendur standast ekki. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að sáttmálinn sé endurskoðaður. Augljóst er að upphafleg áform munu ekki ganga eftir og ræða þarf um málið út frá þeirri staðreynd. Við þurfum að forgangsraða verkefnum í samræmi við nýjan veruleika,“ skrifar Bjarni.