Flugvöllurinn í Vatnsmýrinni „nákvæmlega sama eðlis og landtaka Ísraels á palestínsku landi“

Örn Sigurðsson, arkitekt sem situr í framkvæmdastjórn Samtaka um betri byggð, sparar ekki stóru orðin í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Örn líkir flugvellinum í Vatnsmýrinni við landtöku Ísraels á palestínsku landi og segir völlinn líklega einn helsta orsakavald viðvarðandi landflótta á Íslandi. Hann segir ennfremur að afleiðing þess að hafa flugvöll í miðri borg sé að Reykjavík sé „einhver dreifðasta og óskilvirkasta höfuðborg á jörðinni“.

Örn segir að andstyggilega pistill eftir Guðna Ágústsson, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, hafi valdið því að hann sá sig knúinn til að stinga niður penna. „Að mati undirritaðs eru jafnandstyggileg viðhorf og koma fram í þessari grein ekki svaraverð nema einungis vegna þess að Guðni þessi er ekki bara skemmtikraftur, heldur fyrrverandi þingmaður, ráðherra og einn innsti koppur í búri þjóðernissinnaðs íhalds-, landsbyggðar- og valdaflokks til ára og áratuga. Guðna og klappliði hans skal því bent á eftirfarandi,“ segir Örn og heldur áfram:

„Reykjavíkurbær fékk yfirráð yfir Vatnsmýri 1. janúar 1932 til að mæta brýnni landþörf ört vaxandi höfuðborgar. Hernámslið Breta byggði herflugvöll í Vatnsmýri 1941 í skugga síðari heimsstyrjaldar. Í stað þess að rífa hann í stríðslok afhenti ráðuneyti Ólafs Thors Flugfélagi Akureyrar völlinn til leigufrírra afnota 1946. Þessi fjandsamlega yfirtaka ríkisins á langbesta mannvistarog byggingarlandi Reykvíkinga í Vatnsmýri 1946 á sér engin fordæmi í vestrænum lýðræðisríkjum. Hún er nákvæmlega sama eðlis og landtaka Ísraels á palestínsku landi og innlimun Rússa á landi Úkraínu á Krímskaga og í Donbas.“

Örn kvartar svo undan því að að Reykvíkingar kjósi aftur og aftur til Alþingis og borgarstjórnar fólk sem gerir ekkert í því að leiðrétta þetta ástand. Svo lýsir hann afleiðingum þess að hafa flugvöll í miðri borg: „Vegna hervirkisins í Vatnsmýri sl. 80 ár er byggð á höfuðborgarsvæðinu (HBS) a.m.k. fjórfalt víðáttumeiri en ella og allir vegir, stígar, lagnir, veitur, erindi íbúa og tímasóun þeirra og tafir a.m.k. tvöfalt lengri og meiri en ella. Íslenska höfuðborgin, eina borg landsins, er einhver dreifðasta og óskilvirkasta höfuðborg á jörðinni. Bílaeign er óvíða meiri og mengun og losun CO2 gríðarleg enda Íslendingar taldir með verstu umhverfissóðum heims. Áhrifanna gætir svo um munar á þjóðarhag,“ segir Örn og bætir við að lokum:

„Lélegt borgarskipulag vegna hervirkisins í Vatnsmýri er líklega einn helsti orsakavaldur viðvarandi landflótta a.m.k. 600 Íslendinga á ári, áratugum saman (flestir ungir og vel menntaðir). Sterkar vísbendingar eru um að landsbyggðarflótti á SV-hornið á lýðveldistímanum sé líklega tvöfalt meiri en ella hefði orðið án hervirkisins í Vatnsmýri. Enginn vafi er hins vegar á því að kostnaður allra er of mikill, lýðheilsa verri, borgarbragur lakari, almenn lífsgæði minni, glötuð tækifæri fleiri o.s.frv. vegna hervirkisins í Vatnsmýri.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí