Formaður áfrýjunarnefndar samkeppnismála er Björn Jóhannesson hæstaréttarlögmaður. Áður en hann fór í lögmennsku var hann lengi starfsmaður Útvegsmannafélags Vestfjarða og Vinnuveitendafélags Vestfjarða. Formaður nefndarinnar sem stoppaði rannsókn Samkeppnisstofnunar á eignartengslum í sjávarútvegi er fyrrum starfsmaður útgerðarinnar.
Með úrskurði sínum felldi nefndin úr gildi dagsektir sem Samkeppniseftirlitið hafði sett á Brim, en Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Brims og forstjóri, hafði hafnað að veita eftirlitinu upplýsingar um eignartengsl. Áfrýjunarnefndin úrskurðaði einnig að Samkeppniseftirlitinu væri óheimilt að sinna rannsókn á eignartengslum milli útgerðarfyrirtækja að beiðni matvælaráðuneytisins, en Guðmundur hélt því fram að eftirlitinu væri það óheimilt þar sem það væri sjálfstæð stofnun.
Eftir þennan úrskurð, sem segja má að samþykki allar kröfur og rök Guðmundar í Brim, hefur Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sagt að rannsóknin muni halda áfram en nú ótengt matvælaráðuneytinu.
Myndin er samsett, af Birni formanni með Guðmund forstjóra í bakgrunni.