Þrýstingur að utan skóp samstöðu um grindhvalaveiðarnar meðal Færeyinga

Fyrir nokkrum áratugum virtist sem grindhvaladráp Færeyinga stefndi í sömu átt og aðrar hvalveiðar hjá öðrum þjóðum, að þeim myndi ljúka í eitt skipti fyrir öll.

Þegar vaxandi þrýstingur var settur á Færeyinga um að hætta veiðunum, ekki síst af hálfu Sea Shephard, sameinaðist þjóðin um að varðveita eigin menningu.  Veiðarnar eru nú ekki stundaðar í ábataskyni heldur er um að ræða samstöðutákn og félagsathöfn til heiðurs fyrri tímum.

Ungir Færeyingar sem höfðu verið skeptískir á veiðarnar kúventu í fyrri afstöðu. Þeir fóru að styðja veiðarnar og taka margir ungir Færeyingar nú þátt í veiðunum. Samstaða er orðin almenn meðal Færeyinga í málinu, ólíkt viðhorfi til hvalveiða hér á landi, þar sem íslenska þjóðin skiptist í tvær fylkingar og loga nánast eldar á milli.

Færeyingar sem blaðamaður Samstöðvarinnar ræddi við í Þórshöfn og víðar í Færeyjum um helgina segja að lítill sem enginn þrýstingur hafi verið innan færeysku ferðaþjónustunnar að hætta grindhvaladápum. Þótt ferðaþjónusta hafi verið vaxandi atvinnugrein og margir útlendingar líti á veiðarnar sem villimennsku, óttist þeir ekki að erlendir ferðamenn hætti við heimsókn til Færeyja vegna veiðanna. Þeir segja líka að ítök ferðaþjónustunnar í færeyskum stjórnmálum séu óveruleg. Enda sé ekki saman að jafna hagsmunum Færeyinga í þeim efnum og hér á landi þar sem ferðaþjónusta hefur á nokkrum árum orðið hryggjarstykkið í hagkerfi Íslendinga. Með þeim kostum og göllum sem því fylgja.

Þegar grindhvalaveiðar fara fram leggja hundruð Færeyinga lið, því smölun hvalanna og slátrun á landi kallar á mikinn mannafla. Kjötinu er skipt meðal þeirra sem taka þátt. Þeir skipta eigin feng milli vina og fjölskyldumeðalima. Þetta sagði Árni Winther Jákupsson leiðsögumaður sem fór með ferðamenn og blaðamann Samstöðvarinnar út í Sandey síðastliðinn sunnudag.

Færeyingar hafa í tímans rás átt líf sitt undir nytjum á því sem þeir veiða í sjónum. Sauðfjárbúskapur hefur einnig verið mikilvægur líkt og nafn eyjanna er til marks um en í síðustu tíð hefur fiskeldið orðið þeirra helsta gullegg. Færeyingar fá nú hæsta verð allra þjóða fyrir eldislaxinn sem er til marks um gæðin að þeirra sögn.

Um 50.000 manns koma árlega í heimsókn til Færeyja með flugi. Annar eins fjöldi kemur með skemmtiferðaskipum. Breytingar eru ekki eins hraðar og stjórnlausar í Færeyjum og á Íslandi, að sögn færeyskra viðmælenda Samstöðvarinnar sem segjast fylgjast vel með fréttaflutningi frændþjóðar þeirra í norðri.

Icelandair hefur áætlunarflug milli Keflavíkur og Voga í Færeyjum í maí næstkomandi.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí