Google reynir að gera Kanter saksóknara ótrúverðugan í stóra samkeppnismálinu

Málsvörn Kents Walker yfirlögfræðings Google og félaga hans byggist fyrst og fremst á því, að leitarvél þeirra sé sú besta sem völ er á. Ennfremur leitast lögfræðingateymi Google við að gera Jonathan Seth Kanter, saksóknara í málinu, ótrúverðugan og jafnvel óhæfan til að sækja málið fyrir hönd dómsmálaráðuneytis. Þessi vinnubrögð þekkjum við vel frá Hrunmálunum. Google heldur því m.a. fram að keppinautar fyrirtækisins hafi greitt Kanter fyrir „einkennilegar“ kenningar um auðhringa og hann hafi eingöngu ráðið til sín skoðanabræður sína. Í þeim hópi er Stanford-hagfræðingurinn og gervigreindarsérfræðingurinn Susan Athey, sem starfaði áður hjá Microsoft og var útnefnd aðalhagfræðingur samkeppnisdeildar saksóknara í fyrra. Í málsvörninni er vitnað í gögn sem sýna að Kanter og Athey hafi haft samband við saksóknara árið 2020 til að flytja neikvæða kynningu um Google jafnframt því að hafa boðist til að flytja kynninguna á „persónulegan hátt“ og ekki fyrir neinn sérstakan viðskiptavin.

En um hvað snýst málið og hvað er það í reynd sem yfirvöld telja ólöglegt við starfshætti Google?

Robert Reich útskýrir fyrra atriðið vel. Reigh var atvinnumálaráðherra í ríkisstjórn Clintons Bandaríkjaforseta við lok 20. aldar og lýsir því hvernig hann kynntist aðalgúrú frjálshyggjumanna í samkeppnismálum, Robert Bork, þegar hann sat tíma í samkeppnisrétti í Yale-háskólanum ásamt þeim Hillary Rodham og Bill Clinton í byrjun áttunda áratugarins. Bork var einn af Chicago-drengjunum hans Miltons Friedmans og hann trúði því statt og stöðugt að markaðurinn rétti sig af sjálfur. Það var sama hvað þau spurðu hann um, alltaf hafði hann svör á reiðum höndum: 

„Hvað með pólitískt vald risafyrirtækja? spurðu þau.
Svar hans: „Hvernig býst þú við að dómstólar mæli pólitískt vald?
En vald stórfyrirtækja til að lækka laun?
„Starfsmönnum er frjálst að finna betri störf.“
En vald þeirra til að undirbjóða hugsanlega keppinauta með lægra verði?
„Lágt verð er gott fyrir neytendur.“
En aflið sem felst í stærð þeirra?
„Stærðarhagkvæmni þýðir minni kostnað fyrir neytendur,“ svaraði Burk.

Burk gaf síðar út bókina The Antitrust Paradox, sem varð ein af undirstöðu ritum ríkisstjórnar Reagans í hagfræði en hugmyndafræði hans og Margrétar Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, ýtti undir samþjöppun eignarhalds á markaði. 

Markaðssamþjöppun leiðir til minni nýsköpunar, kjaraskerðingar og hærra vöruverðs og eykur þannig pólitískt vald einokunarfyrirtækja. Markaðssamþjöppun er jafnframt einn helsti drifkraftur verðbólgunnar í dag. Samstöðin hefur flutt fréttir af áhrifum þess á íslenskt efnahagslíf undanfarið. Kanter saksóknari byggir málflutning sinn á einokun fyrirtækisins en eins og áður hefur komið fram hefur Google u.þ.b. 95% markaðshlutdeild.

Viðskiptamódel Google byggir á að notandinn greiði ekki beint fyrir notkunina sjálfa heldur safnar Google upplýsingum um notendur og selur fyrirtækjum. Málið er því snúið en lykillinn að sókn yfirvalda er að google-leitarvélin sé sjálfgefin, sem leiði til minni gæða, skerts einkalífs notenda og hærra vöruverðs, sjá hér eina glæru saksóknara frá réttarhöldunum um viðskiptamódel Google. 

Þannig kom það fram í réttarhöldunum að upp úr aldamótunum 2000 hafi Apple íhugað að hafa valskjá fyrir leitarvélar þannig að notendur yrðu beðnir um að velja hvaða leitarvél þeir kysu að nota. Svar Google var skýrt. Engin sjálfgefin leitarvél – engin tekjuhlutdeild. Með öðrum orðum var ljóst að Google væri aðeins tilbúið að greiða Apple ef Google yrði sjálfgefið. Samkvæmt málsókninni sviptu þessir samningar leitarvélar eins og DuckDuckGo eða Bing (dótturfyrirtæki Microsoft) aðgengi að markaðnum, að neytendum, að auglýsendum, að gögnum, og hækkuðu þannig verðið fyrir neytendur. Erfitt er að gera sér nákvæma grein fyrir hvað þessir samningar skiluðu t.d. Apple, en Goldman Sachs hefur áætlað að árið 2018 hafi Apple fengið um 9 milljarða Bandaríkjadala í sinn hlut frá Google og Le Monde segir greiðslurnar geta numið allt að 20 milljörðum Bandaríkjadala árið 2022. Það sama gildir um Samsung, þótt tölur liggi ekki fyrir, en þar á bæ vildu menn hækka greiðsluhlutfallið frá Google úr 25% af tekjum fyrirtækisins í 30%.

Málið er flókið og snýst fyrst og fremst um tæknitúlkun og blæbrigði laga. Þannig verða yfirvöld að skilgreina viðeigandi markað með svokölluðu SSNIP-prófi (Small but significant and non-transitory increase in price) eða á hinu ástkæra og ylhýra: smávægileg en greinileg og varanleg verðhækkun, sem réttlætir afskipti hins opinbera. SSNIP-prófið hefur verið notað til að skilgreina markað og mæla markaðsstyrk í Bandaríkjunum allt frá árinu 1982. Evrópusambandið notaði prófið í fyrsta skipti 1992 en það hefur verið viðurkennd aðferð þar síðan 1997. Hér má taka dæmi af fiskmarkaðnum, ef stjórnvöld vildu skoða hvort viðskipti með þorsk væru eðlileg ættu þau að athuga hvort ímyndaður einokunaraðili á þorskmarkaði gæti hækkað verð á þorski án þess að tapa peningum vegna þess að neytendur myndu kaupa annan fisk í staðinn. Ef verðhækkun á þorski borgaði sig fyrir hinn ímyndaða einokunaraðila væri markaður fyrir þorsk einokunarmarkaður en ef neytendur keyptu t.d. ýsu eða ufsa í staðinn væri hann það ekki.

Vandamálið við SSNIP prófið í þessu tilviki er að það virkar í raun ekki fyrir ókeypis vörur eins og Google-leit en samkvæmt viðskiptamódeli Google er leitin tvíhliða markaður sem fjallar um bæði notendur og auglýsendur, og þó að Google-leit sé ókeypis fyrir notendur greiða auglýsendur stórfé fyrir að vera fremstir í leitarniðurstöðunni. Þetta þýðir að beita verður SSNIP prófinu að auglýsendum og spyrja hvort Google geti hækkað verð á auglýsingum sínum og þar með aukið hagnaðinn en það er akkúrat það sem  bandarísk stjórnvöld halda fram að Google geri.

Þriðjudaginn 12. september sl. hófust réttarhöldin gegn Google vegna brota á samkeppnislögum og fyrir óréttmæta viðskiptahætti. Samstöðin flutti fréttir af þessu: Google á sakamannabekk vegna einokunartilburða. Jóhannes Hraunfjörð Karlsson, hagfræðingur og sagnfræðingur, fylgist með málinu fyrir Samstöðina.

Myndin er af Kent Walker yfirlögfræðings Google t.v. og Jonathan Seth Kanter saksóknara t.h.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí