Framkvæmdastjórar Eimskips og Samskipa hittust á Mokka og lögðu á ráðin gegn Íslandspósti

Framkvæmdastjórar innanlandssviða Eimskips og Samskipa hittust á kaffihúsinu Mokka við Skólavörðustíg þann 4. júlí 2008 og lögðu þar á ráðin um að beita sér í sameiningu gegn flutningaþjónustu eina samkeppnisaðilans sem virðist hafa raskað ró þeirra: Íslandspósts. Þetta kemur fram í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um hlut Samskipa í ólögmætu samráði félaganna, einkum á árunum 2008–2013.

Forstjórar í golfferðum

Eftir „Nýtt upphaf“-fundinn sem fram fór við Suðurlandsbraut 6. júní 2008, þar sem æðstu stjórnendur Samskipa og Eimskips lögðu á ráðin um að skipta á milli sín markaðnum frekar en keppast um viðskiptavini, lágu leiðir stjórnenda fyrirtækjanna saman víða, samkvæmt samantekt Samkeppnisráðs sem birt var um síðustu mánaðamót. Á tímabilinu 2009 til september 2013 „áttu stjórnendur og lykilstarfsmenn fyrirtækjanna í a.m.k. 160 tilvikum í samskiptum, með fundum, símtölum, á golfmótum, í ferðalögum, í matarboðum eða öðrum hætti“ og eru þá tölvupóstar fyrirtækjanna ekki taldir með.

Þegar hefur verið fjallað á öðrum vettvangi um tólf manna golfhóp sem bæði forstjóri Eimskip, Gylfi Sigfússon, og forstjóri Samskipa, Ásbjörn Gíslason, tilheyrðu. Félagsskapurinn er í skýrslu Samkeppnisráðs sagður hafa verið á vegum N1, sem „skipulagði hvert golfsumar m.a. í samráði við meðlimi hópsins. Á árunum 2010–2013 hélt hópurinn a.m.k. fimmtán golfmót. Hann gerði þó fleira en að spila golf saman. Eftir atvikum var gert ráð fyrir, kemur fram í skýrslunni, „að hópurinn myndi einnig snæða og spjalla saman“. Þá var „farið í veiðiferðir og leikin skák“ og hluti hópsins fór „í tvær skemmtiferðir til útlanda.“ Í ágúst 2012 fóru forstjórar félaganna saman í veiði í Selá, með golfhópnum, og dvöldu frá fimmudegi til sunnudags. Þrátt fyrir að framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Eimskipa hefði varað stjórnendur fyrirtækisins eindregið við slíku samneyti, í ljósi samkeppnislaga, og haldið um það sérstakt námskeið innanhúss, sem allir lykilstarfsmenn og stjórnendur fyrirtækisins voru boðaðir á, hélt kunningsskapurinn ekki aðeins sínu striki, heldur skildu þátttakendur í golfklúbbnum eftir sig slóð um hann í tölvupóstsamskiptum. Ónefndur meðlimur golfhópsins skrifar þannig í tölvupósti til allra tólf meðlima hans árið 2012: „Eitt af því sem hefur verið ákveðið … að halda áfram okkar félagsskap, þ.e. að hittast og spila golf nokkrum sinnum á ári. Njóta þess að kynnast hvor öðrum án þess að viðskipti væru að trufla þau samskipti, þó þau skipuðu alltaf stóran sess í okkar félagsskap.“

Millistjórnendur á kaffihúsi

En samskipti stjórnendanna voru alls ekki bundin við þennan, þannig séð hefðbundna vettvang kunningsskapar og samsæra í viðskiptalífinu, golfvelli og veiðiár. Tæpum mánuði eftir „Nýtt upphaf“-fundinn afdrifaríka sumarið 2008 hittust tveir millistjórnendur fyrirtækjanna á kaffihúsinu Mokka við Skólavörðustíg, til ráðagerða. Það voru þeir Jörundur Jörundsson, framkvæmdastjóri landflutninga innan Samskipa, og Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs Eimskips, sem tylltu sér á kaffihúsið þann 4. júlí 2008, milli klukkan þrjú og fjögur síðdegis.

Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um ákvörðun í máli Samskipa er haft eftir fulltrúum Eimskip, sem áður játaði brotin fyrir sitt leyti, að tvennt hafi verið rætt á fundinum. Í fyrsta lagi möguleikinn á því að félögin gerðu með sér „tvíhliða samkomulag á landflutningamarkaði“, til að „samnýta betur“ landflutningakerfi fyrirtækjanna, eins og það er orðað á öðrum stað. Í öðru lagi hafi framkvæmdastjórarnir hins vegar rætt „mögulega hagsmunagæslu“ gagnvart Íslandspósti, „sem Eimskip taldi vera að misnota aðstöðu sína með því að nýta tekjur í skjóli einkaréttar til samkeppni á almennum markaði.“ Þá hafi fundurinn falið í sér „undirbúning fyrir viðræður við Samtök verslunar og þjónustu þar sem ræða átti um viðbrögð við ætlaðri ólögmætri háttsemi Íslandspósts.“

Vildu beita SVÞ gegn Íslandspósti

Það væri þá í samræmi við fundargerð framkvæmdastjórnar Eimskips frá því nokkrum dögum fyrir Mokka-fundinn, en þann 1. júlí 2008 var bókað að fyrrnefndur framkvæmdastjóri innanlandssviðs, Guðmundur Nikulásson, teldi rétt að „fara fram á að það verði gerð óháð úttekt á rekstri Íslandspósts sem er í beinni samkeppni við rekstraraðila í flutningum á landsbyggðinni. Spurning að skoða að fá SVÞ til að beita sér að gerð verði úttekt á rekstri Íslandspósts.“

Tæpum tveimur vikum eftir Mokka-fundinn sendi Jörundur, kollegi Guðmundar innan Samskipa og sessunautur hans á Mokka, tölvupóst til SVÞ, fyrir hönd þeirra beggja. Hann skrifar að þeir framkvæmdastjórar innanlandssviða Eimskips og Samskipa hafi „áhuga á að fá að ræða við þig um ákveðið mál er okkur finnst eðlilegt að fara í gegnum SVÞ.“

Í ágúst 2008 héldu loks framkvæmdastjórarnir tveir saman á fund SVÞ til þess að vinna gegn samkeppni frá Íslandspósti. Þetta kemur fram í fundargerð Eimskips frá 13. ágúst, þar sem er bókað að Guðmundur Nikulásson hefði farið á fund SVÞ ásamt fulltrúa Samskipa „varðandi vinnubrögð Íslandspósts“ sem virðist „sækja markvisst inn á flutningamarkaðinn …“

Samráð til að hindra keppinaut ólögmætt

„Vegna framangreinds“ segir í efnisgrein nr. 2213 í 4. bindi ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins, „ber að taka fram að keppinautum er óheimilt að hafa með sér samráð sem miðar að því að hindra eða draga úr starfsemi keppinautar þeirra á markaði“. Í 12. bindi ákvörðunarinnar, efnisgrein nr. 12116, er þetta loks áréttað, að teknu tilliti til athugasemda Samskipa: „Ekki er unnt að fallast á að viðræður Samskipa og Eimksips um Íslandspóst hafi verið lögmætar. Keppinautum er óheimilt að hafa með sér samráð sem miðar að því að hindra eða draga úr starfsemi keppinauta þeirra á markaði,“ og þá hafi enga þýðingu „í þessu samhengi að viðkomandi fyrirtæki, sem keppinautarnir vilja beita sér gegn, sé opinbert fyrirtæki.“

Um alvarleg brot Samskipa á samkeppnislögum

Með ákvörðun sem tilkynnt var um þann 31. ágúst 2023 lauk Samkeppniseftirlitið rannsókn á brotum Samskipa á samkeppnislögum. Niðurstaða eftirlitsins er að Samskip hafi „með alvarlegum hætti brotið gegn banni 10. gr. samkeppnislaga og 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, með ólögmætu samráði við Eimskip“. Samanlagðar stjórnvaldsektir sem lagðar eru á Samskip vegna brotanna nema 4,2 milljörðum króna.

Áður hafði Samkeppniseftirlitið lokið rannsókn á hlut Eimskips með sátt sumarið 2021, en ólíkt stjórnendum Samskipa játuðu stjórnendur Eimskips brot félagsins. Á Eimskip var lögð 1,5 milljarðs króna sekt vegna samráðsins.

Í nýbirtri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins vegna brota Samskipa segir að samráðið í heild sinni hafi verið til þess fallið að gera fyrirtækjunum kleift „að draga með afdrifaríkum hætti úr samkeppni og hækka eða halda uppi verði gagnvart viðskiptavinum fyrirtækjanna“. Það var til dæmis gert „með hækkun við endurnýjun samninga, hækkun á gjaldskrám og þjónustugjöldum, upptöku nýrra gjalda, lækkun afslátta o.s.frv.“

Þá segir að „sameiginleg yfirburðastaða Eimskips og Samskipa á markaðnum, samskipti stjórnenda fyrirtækjanna og aðrir þættir í samráði fyrirtækjanna“ hafi skapað „kjöraðstæður fyrir fyrirtækin til að ná árangri í samráðinu og hagnast á kostnað viðskiptavina og samfélagsins alls.“

Rannsóknin á brotum Samskipa var gríðarlega umfangsmikil. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í málinu var birt í fimmtán bindum. Í þessari umfjöllun Samstöðvarinnar er einkum stuðst við fyrsta bindið, 100 blaðsíðna samantekt á því sem á eftir fer.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí