Ríkisstjórnin ætlar að leggja niður Samkeppniseftirlitið í núverandi mynd

Í stjórnarsáttmálanum er sagt að gerðar verði breytingar á samkeppniseftirliti, það sameinað öðrum stofnunum og lögum um það breytt á fyrri hluta yfirstandandi kjörtímabils. Þetta er kunn aðferð stjórnmálafólks og einkum Sjálfstæðisflokksins til að lama stofnanir og skipta út forystu í þeim, en Samkeppniseftirlitið og Páll Gunnar Pálsson forstjóri sérstaklega hefur verið skotspónn þeirra lengi.

„Það er auðvitað ekki æskilegt að menn sitji þarna um aldur og ævi. Það er ekki æskilegt fyrir viðkomandi, eftirlitsstofnunina, né þá sem sæta eftirliti,“ segir Óli Björn Kárason, núverandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Innherja á Vísi þegar þar var fjallað um að Gunnar Páll hefði verið forstjóri frá 2005.

„Skoða skal hvort ávinningur sé af því að sameina Samkeppniseftirlitið og Neytendastofu,“ segir í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins frá því fyrir tæpu ári. Fyrir tveimur árum samþykkti Alþingi beiðni Óla Björns Kárasonar um stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðunar á Samkeppnisstofnun, en í greinargerð var því haldið fram að Samkeppniseftirlitið stæði í vegi fyrir samkeppni á Íslandi. Fyrir þremur árum lagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar­ráðherra, fram frumvarp um að takmarka heimildir Samkeppniseftirlitsins til að afstýra eða vinna gegn samkeppnishömlum sem ekki stafa af brotum fyrirtækja á samkeppnislögum, heldur leiða af markaðsbresti sem koma í veg fyrir að almenningur og atvinnulífið njóti ábata af virkri samkeppni á viðkomandi markaði. Þetta frumvarp náði ekki fram.

Samkeppniseftirlitið varð til 2005 þegar Samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun voru lögð niður. Þá var Páll Gunnar Pálsson ráðinn forstjóri. Með sameiningunni var embætti Georgs Ólafssonar, forstjóra Samkeppnisstofnunar, lagt til niður, en hann hafði haft forgöngu um rannsókn á verðsamráði olíufélaganna og sektað þau fáum árum fyrr. Segja má að umbreytingin 2005 hafi verið til að losna við Georg vegna rannsóknarinnar á olíufélögunum og senda öðrum embættismönnum viðvörun, um hvað gerist ef þeir þrengi um of að fákeppnisfélögum sem starfa undir skjóli og vernd Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Úttekt Samkeppnisstofnunar nú á skipafélögunum er á pari við rannsóknina á olíufélögunum, ítarleg afhjúpun á því hvernig fyrirtæki hegða sér á markaði ef þá fá að vaða uppi án eftirlits og aðhalds.

Þegar Samkeppnisstofnun var lögð niður störfuðu þar 22 starfsmenn. Hjá Samkeppniseftirlitinu starfa nú 24 starfsmenn. Samkeppnisstofnun var undirmönnuð og undirfjármögnuð og Samkeppniseftirlitið enn frekar. Frá 2005 hefur velta viðskiptahagkerfisins 3,7 faldast á föstu verðlagi. Miðað við það hefði 22 starfsmenn Samkeppnisstofnunar mátt fjölga upp í um 81. Ef samkeppniseftirlit var veikt 2005 er það hálf lamað núna.

2005 var eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins flutt frá samkeppnisyfirvöldum yfir í Neytendastofu. Tryggvi Axelsson var skipaður forstjóri Neytendastofu og gegndi því starfi í fimmtán ár. Þórunn Anna Árnadóttir tók við af honum 2020. Neytendastofa hefur ekki verið atkvæðamikil, ekki raskað ró stjórnmálamanna og hagsmunasamtaka fyrirtækjaeigenda eins og raunin hefur verið með Samkeppniseftirlitið.

Samkvæmt ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins stendur nú til að sama Neytendastofu og Samkeppniseftirlitið. Þetta er gert undir hefðbundnum fagurgala en í raun vita allir hver tilgangur Sjálfstæðisflokksins er. Sem er sá að veikja enn frekar samkeppniseftirlit og auka það með völd og frelsi eigenda fyrirtækja til að haga sér á markaði eins og þeim sýnist, svipað og úttekt Samkeppniseftirlitsins á skipafélögunum hefur sýnt okkur að eigendur fyrirtækja hegða sér í raun.

Fyrirætlanir um að veikja Samkeppniseftirlitið og losa fyrirtækjaeigendur við Páll Gunnar er svona orðuð í stjórnarsáttmála: „Markvisst verður unnið að því að auka samkeppnishæfni og sveigjanleika íslensks atvinnulífs með því draga úr hindrunum í gildandi regluverki og tryggja að ný löggjöf sé skýr og skilvirk. Skilvirkni í eftirliti með samkeppni og starfsháttum fyrirtækja er mikilvægur þáttur í tryggja að ábati samkeppninnar skili sér til neytenda. Leiðbeinandi hlutverk eftirlitsstofnana verður skýrt til að tryggja betri eftirfylgni. Á fyrri hluta kjörtímabilsins verða gerðar breytingar á fyrirkomulagi samkeppnismála og samkeppniseftirlits og það eflt með sameiningu stofnana, lagabreytingum og styrkingu samtaka neytenda.“

En styrking samtaka neytenda? Fyrr á þessu ári fögnuðu Neytendasamtökin 70 ára afmæli. Þá kom Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra í veisluna og færði Neytendasamtökunum styrk sem jafngildir um einum mánaðarlaunum ráðherra, 3 m.kr. Og sagði að styrkurinn væri til að styðja við mikilvæg verkefni sem fram undan væru hjá Neytendasamtökunum. Styrkurinn ætti m.a. að nota til þess að vinna ítarlega úttekt á tryggingamarkaðinum á Íslandi. Samtökin áttu því að gera allskonar fyrir þessar 3 m.kr., sjá hér: Afhentu styrk til Neytendasamtakanna á 70 ára afmælinu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí