Maskína birti í dag svör úr síðustu könnun fyrirtækisins um hvernig fólki líst á frambjóðendur. Þar kemur fram að flestum líst vel á Baldur Þórhallsson og Höllu Tómasdóttur og fæstum líst illa á þau tvö. Næst kemur Halla Hrund Logadóttir en þar nokkuð á eftir kemur Katrín Jakobsdóttir og síðan þar skammt undan er Jón Gnarr. Katrín og Jón skera sig líka frá hinum að því leiti að miklu fleiri líst illa á þau.
Maskína gengur frá niðurstöðum könnunarinnar svo:
Eins og sjá má segjast flest líst illa á Katrínu af þeim fimm efstu. Ef við leikum okkur af að draga þá frá sem segjast líst illa á viðkomandi frá þeim sem líst vel á hann þá fær Katrín aðeins +6%, Jón +11%, Halla Hrund +34%, Halla Tómasdóttir +41% og Baldur +43%.
Í þessari könnun kemur fram að afstaða til flokkapólitíkur ræður nokkru um afstöðu fólks til frambjóðenda, og ekki síst til Katrínar. 66% stuðningsmanna stjórnarflokkanna líst vel á Katrínu en aðeins 39% stuðningsfólks stjórnarandstöðunnar. Sama mynd þegar skoðað er hverjum líst illa á Katrínu. Það á við um 24% stuðningsfólks ríkisstjórnarflokkanna en 48% stjórnarandstöðunnar.
Það má sjá öfuga fylgni hjá Baldri og Jóni Gnarr. 70% stuðningsfólks stjórnarandstöðunnar líst vel á Baldur en 46% ríkisstjórnarflokkanna. 33% stuðningsfólks stjórnarandstöðunnar líst vel á Jón en 48% ríkisstjórnarflokkanna. Þeir tveir virðast því frekar höfða til stjórnarandstöðunnar en ríkisstjórnarinnar.
En munurinn er minni hjá Höllunum tveimur. Það er enginn munur á afstöðu fólks til Höllu Hrundar eftir stuðningi við stjórn eða stjórnarandstöðu en ívið fleiri af stuðningsfólki ríkisstjórnarflokkanna líst vel á Höllu Tómasdóttur (66%) en af stuðningsfólki andstöðunnar (57%).
Eins og þarna sést segjast jafn margir af stuðningsmönnum ríkisstjórnarflokkanna lítast vel á Höllu Tómasar og Katrínu. Það er því líklegt að aukið fylgi Höllu muni sækja inn í fylgi Katrínar, en ef aðrir frambjóðendur færu á flug.
Þetta sést líka þegar önnur spurning Maskínu eru skoðuð. Þá var spurt hvaða frambjóðanda fólk vildi síst sjá sem forseta. Listi hinna efstu var svona:
Hvern viltu síst sjá sem forseta?
Katrín Jakobsdóttir | 40,0% |
Jón Gnarr | 26,9% |
Halla Hrund Logadóttir | 15,5% |
Baldur Þórhallsson | 9,0% |
Halla Tómasdóttir | 8,6% |
Þegar skoðað er hvernig svörin dreifast kemur í ljós að 44% kjósenda Jóns Gnarr vilja Katrínu ekki, 30% kjósenda Höllu Hrundar en aðeins 14% kjósenda Höllu Tómasdóttur og 13% kjósenda Baldurs. Það fylgi sem Halla Tómasar dregur til sín er því ekki endilega þeir kjósendur sem þegar eru vissir um að vilja ekki Katrínu.
Það sama sést þegar þriðja spurning Maskínu er skoðuð, um hvern frambjóðenda fólk myndi vilja kjósa ef þeirra fyrsti kostur væri ekki í boði. Af kjósendur Katrínar myndu 31% velja Höllu Tómasar, 26% Baldur og 19% Höllu Hrund. Og af kjósendum Höllu Tómasar myndu 32% velja Katrínu sem annan kost, 24% Höllu Hrund og 20% Baldur.
Halla Tómasdóttir virðist því vera sá frambjóðandi sem helst getur dregið úr fylgi Katrínar á meðan ætla má að sókn annarra frambjóðenda væri frekar tilfærsla á kjósendum sem hvort sem er ætluðu ekki að kjósa Katrínu. Þetta er auðvitað ekki algilt, en þetta er tilhneigingar sem lesa má út úr þessum ítarspurningum Maskínu.