Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sagt stefnt að því að sameina Samkeppniseftirlitið og Neytendastofu og kanna um leið möguleika á „sameiningu við aðrar stofnanir eftir atvikum sem geta aukið samlegðaráhrif og skilvirkni í opinberu eftirliti.“
Í dagskrárliðnum óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra á Alþingi á þriðjudag, spurði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, Lilju Alfreðsdóttur, ráðherra menningar og viðskipta, hvort „ekki væri réttara að styrkja Samkeppniseftirlitið verulega í sinni núverandi mynd í stað þess að leggja það niður.“
Stærsta samkeppnismál sögunnar rétt að baki
Í fyrirspurninni vísaði Þórhildur Sunna til nýlegs úrskurðar stofnunarinnar um ólögmætt samráð Eimskipa og Samskips, 4,2 milljarða króna sektar sem lögð var á síðarnefnda félagið vegna þeirra lögbrota, auk 1,5 milljarða króna sektar Eimskips eftir játningu þess, árið 2021. „Þetta er stærsta samkeppnismál sögunnar hvað umfang og áhrif málsins varðar,“ sagði Þórhildur Sunna. „Umfang skaðans vegna þessa samráðs á reyndar enn eftir að koma fyllilega í ljós. Þó er ljóst að það hafði áhrif á allt efnahagskerfi landsins, allt frá vöruverði á nauðsynjavörum til hækkandi afborgana fólks á húsnæðislánum.“
Þá hafði hún það eftir Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, „að stofnunin gæti vegna skorts á mannafla einungis varið um 10% af tíma sínum í að rannsaka misnotkun fyrirtækja á markaðsráðandi stöðu á Íslandi.“ Páll gunnar hefði sagt þessa stöðu vera óásættanlega „í því fákeppnisumhverfi sem við búum við á Íslandi og að réttara væri að stofnunin hefði bolmagn til að eyða hið minnsta 40% af tíma sínum í slíkar rannsóknir.“
Ætti ekki heldur að fjölga stöðugildum?
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, svaraði því til að fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins hafi verið að aukast, og ekki stæði til að leggja niður Samkeppniseftirlitið eða veikja það.
Þórhildur svaraði því til að eðli málsins samkvæmt væri það „nákvæmlega það sem gerist ef Samkeppniseftirlitið er sameinað við aðra stofnun, það er lagt niður í núverandi mynd.“ Hún sagði að stöðugildi í stofnuinni hafi ekki breyst frá því að hún hóf störf fyrir um 20 árum síðan, „en í millitíðinni hefur umfang þess sem Samkeppniseftirlitið á að hafa eftirlit með margfaldast.“ Þá ítrekaði Þórhildur Sunna spurninguna og spurði að auki hvers vegna ekki væri fjölgað stöðugildum við stofnunina í ljósi gríðarlegs vaxtar í viðskiptalífinu og þarfar á að fylgjast vel með.
Ráðherrann brást við með því að tilgreina að fjárheimildir til eftirlitsins hefðu hækkað um 123% frá 2014 til 2024. „Það verður ekki sagt að við séum ekki búin að standa við bakið á þessari sjálfstæðu stofnun með aukningu á fjárheimildum til hennar þannig að ég vísa því á bug,“ sagði hún ennfremur. Spurningunum sjálfum, hvort rétt væri að falla frá sameiningu stofnunarinnar við Neytendastofu og fjölga heldur stöðugildum við hana, svaraði Lilja aftur á móti ekki.
Á vef Stjórnarráðsins er sameining Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu sögð „komin vel á veg“.