„Aftur er því slegið upp, að matarkarfan á Íslandi sé hlutfallslega lág eða 13,3% af einkaneysluútgjöldum heimilanna árið 2022, samkvæmt tölum Eurostat. Í 13. sæti af 36 samanburðarlöndum. Morgunblaðið skellir, á frétt um efnið, fyrirsögninni: Matarkarfan hlutfallslega lág. Þegar fréttin er lesin, þá kemur ýmislegt annað í ljós,“ skrifar Marinó G. Njálsson á Facebook síðu sína.
Í fréttinni segir: „Lægst er hlutfallið á Írlandi (8,3%), í Lúxemborg (9,9%) og í Sviss (10,3%). Ef horft er til nágrannaþjóða Íslands þá er hlutfallið í Danmörku 11,8%, í Finnlandi 12,2%, 12,4% í Noregi og 12,6% í Svíþjóð.“
Þannig að í Lúxemborg, þar sem matarkarfan er þriðja (eða hvort það er fjórða) dýrust meðal þeirra landa sem Eurostat fylgist með og launin næst hæst að meðaltali, þá fer 25,4% lægra hlutfall af neysluútgjöldum í mat borið saman við Ísland,“ bendur Marinói á. „Og Sviss, sem er með dýrustu matarkörfuna af þessum löndum, meira að segja langdýrustu (Ísland með næst dýrustu), þá eru matarútgjöld meira en 22,5% lægra hlutfall af neysluútgjöldum en á Íslandi. Og séu Norðurlöndin skoðuð, þá fer hæst hlutfall neysluútgjalda í mat á Íslandi. Enn vantar fimm þjóðir, sem eru örugglega í hópi þeirra sem við viljum bera okkur saman við (líklega Þýskaland, Holland, Belgía, Austurríki og Lichtenstein).“
„Hlutfall matar og drykkja í neysluútgjöldum er hátt í löndum, þar sem tekjur eru lágar í þessum samanburði,“ segir Marinó. „Við erum ekki að bera okkur saman við þau lönd, heldur einmitt þau sem ég vitna í að ofan. Þessar 12 þjóðir þar sem hlutfall matar og drykkja í neysluútgjöldum er lægra og upp í það að vera mun lægra en á Íslandi.
En takk fyrir, Morgunblaðið, að sýna okkur sannleikann, þó blaðið hafi náð að snúa öllu á hvolf. Staðreyndin er, að miðað við hvað laun eru há hér á landi samanborið við önnur lönd, þá er kostnaður við matarkörfuna mjög hátt hlutfall neysluútgjalda. Hún kostar fólk á íslenskum launum hlutfallslega stærri hlut af launum en á öllum hinum Norðurlöndunum, í Lúxemborg, Sviss, á Írlandi og fimm löndum til viðbótar. Almenningur á Íslandi ætti auðveldara með að ná endum saman, ef hlutfallið væri svipað og á Írlandi, í Sviss eða Lúxemborg.
Að þessu sögðu, þá skulum við muna, að í mörgum löndum Evrópu, þá hefur fólk það ekki gott. Það þarf að skrimta á launum, sem Íslendingar myndu aldrei láta bjóða sér, og það kostar að eiga fyrir mat á borðum. Ekki vegna þess að matarverð sé hátt í íslenskum samanburði, heldur vegna þess að tekjur þeirra eru lágar. Þess vegna, er fólk frá þessum löndum að koma til Íslands til að vinna. Geti það bara sent 5% af launum sínum heim, þá breytir það miklu fyrir þá sem þar bíða. Að einhverjum detti í hug að bera á borð fyrir okkur að himin hátt matarverð á Íslandi sé í lagi, vegna þess að þegnar annarra landa búi við kjör, sem við myndum kalla örbyrgð, er svo klikkað að það eru ekki til orð til að lýsa því.
Já, sem betur fer höfum við það betur hér en íbúar Balkanskaga sem nota 30-42% af neysluútgjöldum sínum í mat, en við höfum það verr (og í sumum samanburði umtalsvert verr) en flestar af þeim þjóðum þar sem er sú velsæld sem við viljum hafa hér á landi.“