Sex ungmenni frá Portúgal lögsækja 33 Evrópuríki fyrir að bregðast ekki við hnatthlýnun

Næsta miðvikudag, 27. september, mun hópur ungs fólks frá Portúgal, á aldrinu 11 til 24 ára, koma fyrir 17 dómara Mannréttindadómstóls Evrópu í Strassborg og bera þar fram mál sitt gegn 33 ríkjum Evrópu, sem þau hafa kært til dómstólsins fyrir að bregðast ekki nógsamlega við hnatthlýnun. Hópurinn færir rök fyrir því að með ónógum aðgerðum gerist ríkin sek um mannréttindabrot. Málsóknin er meðal annars studd með hópfjármögnun meðal almennings.

Gróðureldarnir 2017 urðu hvatning

André Oliveira, Catarina Mota, Cláudia Agostinho, Mariana Agostinho, Martim Agostinho and Sofia Oliveira heita Portúgalarnir sex sem höfða málið. Þau segja að það sem hafi hvatt þau til þessa frumkvæðis hafi verið reynsla þeirra af gróðureldum á þeirra heimaslóðum, í Leiria-héraði, árið 2017, sem urðu 66 manns að bana og eyddu 20 þúsund hekturum af skóglendi.

„Ég óttast um framtíð mína,“ sagði Catarina Mota, á rafrænum blaðamannafundi sem hópurinn hélt á fimmtudag, viku áður en þau mæta fyrir Mannréttindadómstólinn. „Ég bý við þá tilfinningu að á hverju ári verði heimaslóðir mínar fjandsamlegri staður,“ sagði hún. „Ef ég á börn, í hvers konar heimi mun ég ala þau upp? Þetta eru raunverulegar áhyggjur sem ég hef á hverjum degi. Eftir eldana árið 2017 gerðum við okkur grein fyrir að við verðum að gera breytingar og stöðva loftslagsbreytingar með hraði.“

Fordæmi eru um árangur af málshöfðun sem þessari, innan ríkja. Hin hollenska Ugenda stofnun höfðaði á síðasta áratug mál gegn hollenska ríkinu á hliðstæðum forsendum. Árið 2019 úrskurðaði æðsti dómstóll Hollands stofnuninni í vil, komst að þeirri niðurstöðu að losunarmarkmið stjórnvalda væru óleyfilega metnaðarlaus, og fyrirskipaði stjórnvöldum að draga meira úr losun. Í kjölfarið ákvað ríkisstjórn landsins að loka kolaorkuverum fyrir árið 2030 og tilkynnti um áætlanir um orkuskipti fyrir milljarða evra. Þetta kemur fram í umfjöllun AP.

Frestun aðgerða vitlaus, siðlaus og löglaus

Gert er ráð fyrir að lögfræðingar hópsins færi fram sönnunargögn fyrir því að verði núverandi stefnu ríkjanna 33 viðhaldið muni hnötturinn hitna um 3 celsíus-gráður á fyrirséðu æviskeiði sexmenninganna. Þeir munu þá færa rök fyrir því að með því að fyrirbyggja það ekki, þrátt fyrir þær hörmungar sem ljóst er að slík hitnun hefði í för með sér, brjóti ríkin á mannréttindum umbjóðenda sinna.

Í umfjöllun The Guardian um málið kemur fram að verjendur breska ríkisins muni byggja vörn sína á þeim aðgerðum sem Bretland hefur þó gripið til. Sú vörn gæti þó reynst meira veikburða en fyrirhugað var, eftir að Rishi Sunak, forsætisráðherra landsins, tilkynnti í liðinni viku um að stjórnvöld hyggðust falla frá eða fresta nokkrum lykilaðgerðum á því sviði. Samtökin Global Legal Action Network (GLAN) styðja málshöfðunina. Í umfjöllun The Guardian er haft eftir Gerry Liston, lögfræðingi á vegum samtakanna, að markmið Bretlands um að draga úr losun hafi þegar verið ónóg. Ákvörðun Sunaks um frestun aðgerða sé ekki aðeins „vitlaus og siðlaus, heldur löglaus að auki.“

Löndin sem lögsóknin beinist að eru, auk Portúgal: Austurríki, Belgía, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Króatía, Kýpur, Írland, Ítalía, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur, Pólland, Rúmenía, Rússland, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Tyrkland, Ungverjaland, Úkraína og Þýskaland.


Leiðrétting: við birtingu fréttarinnar sagði að lögsóknin sneri að 32 ríkjum, en þau eru Portúgal auk 32 ríkja, alls 33.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí