Auk frétta af úttekt Samkeppniseftirlitsins hefur Samstöðin staðið fyrir umræðu um samráðsmál skipafélaganna sérstaklega, um fákeppni og skort á samkeppni, skaðann af slíku, hvaða tækjum og tólum stjórnvöld gætu beitt og hvers vegna Samkeppniseftirlitið er fjársvelt. Umfjöllunin mun halda áfram á morgun, sunnudegi, í nýjum þætti sem kallast Synir Egils og hefst kl. 12:40. Þar verður rætt við Pál Gunnar Pálsson, framkvæmdastjóra Samkeppniseftirlitsins, eftir umræður gesta um samráð og skort á samkeppni.
Meðal þess sem Samstöðin hefur borðið upp á eru eftirtalin viðtöl:
Við ræddum við þá Breka Karlsson, formann Neytendasamtakanna, Stefán Sveinbjörnsson framkvæmdastjóri VR og Ásgeir Brynjar Torfason sérfræðingur í fjármálum um skort á samkeppni á Íslandi, okur og fákeppni. Og hvað væri til ráða?
Við ræddum við Hauk Loga Karlsson lektor á Bifröst og doktor í samkeppnisrétti, um hvaða úrræði almannavaldið hefði til að koma í veg fyrir verðsamráð og fákeppni.
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR, sem lengi hefur bent á spillingu í íslensku samfélagi og ekki síst þá spillingu sem lífeyrissjóðirnir styðja innan fyrirtækjanna, mætti að Rauða borðinu og fjallaði um Samskipsmálið.
Og Gylfi Magnússon prófessor ræddi við okkur um fákeppnismarkaði, skaðann af þeim og hvaða tæki stjórnvöld hafi til að koma í veg fyrir samráð og samkeppnisbresti.
Samskip og samráðið var svo megin efni Vikuskammtsins, þar sem Atli Þór Fanndal framkvæmdastjóri Transparency International á Íslandi, Axel Jón Ellenarson kynningarfulltrúi Sameykis, Guðrún Margrét Guðmundsdóttir starfsmaður Alþýðusambandsins og Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur komu og ræddu fréttir vikunnar.
Í næstu viku munum við svo halda áfram umfjöllun um þetta stærsta fréttamál ársins. Eða það sem af er árinu. Við orðum þetta svona því ætla mætti við lestur og áhorf á meginstraumsmiðlana að þetta væri svo til engin frétt. Megnið af þeim fréttum sem sagðar hafa verið af málinu hafa verið á Samstöðinni og Heimildinni og mest af umræðunum á Samstöðinni.