Vill að ADHD-sjúklingar fái að keyra óáreittir undir áhrifum lyfja sinna

„Eflaust þykir hverjum sinn fíll fagur. En þennan bleika fíl verður ráðherra innviða tafarlaust að beisla. ADHD samtökin hafa á liðnum árum leitað leiða til að bregðast við ástandinu, enda eins og áður segir hafa fjölmörg mál ratað á borð samtakanna þessu tengt,“ segir Vilhjálmur Hjálmarsson formaður ADHD samtakanna og leggur til að umferðarlögum verði breytt til að vernda fólk á ADHD-lyfjum frá að vera tekin fyrir akstur undir áhrifum vímuefna. Og losi það undan því að um það setið af lögreglunni, sem vill sanna upp á fólkið neyslu undir stýri.

„Umfangsmikil rannsóknarvinna á íslenskum lögum, dómum og lagaumhverfinu í nágrannalöndum okkar, hefur leitt okkur að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt er að breyta núgildandi umferðarlögum, setja reglugerð á grundvelli núverandi laga og breyta verklagi lögreglunnar með formlegum hætti hvað varðar fólk sem notar lyf vegna ADHD samkvæmt læknisráði. Í næstu viku munu ADHD samtökin birta ítarlegt lögfræðiálit þar að lútandi með tillögum um lagabreytingar og innihald reglugerðar ásamt fjölda dómafordæma,“ heldur Vilhjálmur áfram í grein á Vísi.

Tilefni skrifanna er annars vegar handtaka hjóna sem bæði voru á ADHD-lyfjum sem mældust eins og hvert annað amfetamín hjá lögreglu. Og kannski líka umræða í samfélaginu sem spratt af grein Óttars Guðmundssonar geðlæknis í Læknablaðinu og viðtali í Kastljósi þar sem hann hélt því fram að of mikið væri gefið út af lyfseðlum fyrir ADHD-lyfjum sem innihalda amfetamín og að fólk sæktist eftir þessum lyfjum einmitt af þeim sökum, að þau væru vímuefni.

Vilhjálmur vitnar til ummæla Óttars en líka lögregluþjóna, meðal annars Fjölni Sæmundsson, formann Félags lögreglumanna, sem hafnaði því að lögreglan væri í einhverri herferð gegn ADHD-sjúklingum, sæti um að stoppa þá og mæla fyrir vímuefnanotkun.

Vilhjálmur segir vandann vera að í hálft fjórða ár hafi innviðaráðherra trassað að setja reglugerð fyrir umferðarlög nr. 77/2019. Án reglugerðar gilda ekki ýmsar bráðnauðsynlegar undanþágur. Og hann lýsir stöðunni eins og hún blasir við honum:

„Á einfölduðu máli snýst þetta m.a. um að amfetamín er almennt talað flokkað sem ólöglegt fíkniefni. Lyf sem innihalda amfetamín (eða afleiður þess) og neytt er samkvæmt læknisráði ættu að vera með tilgreinda undanþágu vegna aksturs, þar sem við á. Án reglugerðar er undanþágan ekki til staðar. Í fyrirmælum ríkissaksóknara númer „RS: 5/2020“ um verklag segir enda: „Þar til reglugerð um vanhæfismörk hefur tekið gildi, sbr. 6. mgr. 48. gr. umferðarlaga, telur ríkissaksóknari að breyttu breytanda sömu sjónarmið geta átt við þegar um er að ræða ákvörðun sviptingar ökuréttar við samspil ölvunar-, fíkniefna- og/eða lyfjaaksturs.“

Samkvæmt lögreglumönnum þýðir þetta einfaldlega að komi amfetamín fram í strokusýni á atvikastað, þá sé þeim uppálagt að handtaka viðkomandi og færa til skýrslutöku. Ekki er tekið tillit til framvísunar lyfseðils (s.s. skjáskot frá Heilsuveru) eða lyfjaskírteinis (s.s. skjáskort frá „mínum síðum“ á sjukra.is). Eina sem mögulega hjálpar er að hafa á sér vottorð frá lækni, eins og kveðið er á um í lögunum. Mér er ekki kunnugt um að reynt hafi á þetta, enda langt umfram kröfu meðalhófs að almenningur átti sig á slíku lagalegu atriði, jafnvel þó ákvæðið sé í raun áratuga gamalt.

Það sem ítrekað virðist svo gerast er að lítill hópur lögreglumanna framkvæmir þetta ferli með fremur einstrengingslegum hætti og jafnvel án þess að upplýsa viðkomandi t.d. um fyrrnefnt vottorð. Þess í stað virðist fara í gang n.k. leikrit, stöðvun annað hvort sögð reglubundið eftirlit eða vegna undarlegs aksturslags, viðkomandi er sakaður um fíkniefnaakstur, sagður líta vímaður út (þvoglumæltur, glaseygður og þar fram eftir götunum). Jafnframt neitað um að halda áfram ferð sinni eftir blóðsýnatöku – bara sagt að koma sér til síns heima á eigin vegum. Í einu tilfelli, seint að kvöldi, frá Selfossi upp á Akranes. Ég segi og skrifa leikrit: Það er óhugnanlegt hversu samhljóma frásagnir fjölda aðila eru.

Meðan mál er enn í rannsókn hefur jafnframt borið við að einstaklingur sé aftur tekin fyrir við „reglulegt umferðareftirlit“ og þá önnur kæra lögð fram. Í a.m.k. einu tilfelli var ökumaður kominn með þrjú mál í kæruferli áður en dómari samþykktir tilheyrandi gögn og feldi þá fyrsta málið niður,“ skrifar Vilhjálmur.

Lesa má grein Vilhjálms hér: Bleikur ráð­herrafíll í um­ferðinni

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí