Almenningur á Íslandi ber alla byrði af loftslagsaðgerðum þó hann sé saklaus af 90 prósent af mengun

„Þrátt fyrir að íslensk heimili beri einungis ábyrgð á 10% útlosunar gróðurhúsalofttegunda og atvinnulíf 90% er almenningur látinn bera byrðarnar af loftslagsaðgerðum á meðan fyrirtækjum er hlíft. Áherslur íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum felast í ríkulegum styrkjum og fjárhagslegum ívilnunum úr opinberum sjóðum til fyrirtækja sem skila hagnaði upp á milljarða og greiða sum hver fleiri milljarða út í arð. Á meðan leggja stjórnvöld auknar álögur á almenning sem leggjast þyngst á þá sem minnst hafa, ofan á þá verðbólgu sem er til staðar í samfélaginu, sem stjórnvöld ná engum tökum á.“

Svo hefst álykun Landssambands íslenskra verzlunarmanna sem samin var á þingi sambandsins á dögunum. Landssamband íslenzkra verzlunarmanna telja að að stjórnvöld hafi brugðist launafólki og almenningi öllum í að stuðla að réttlátum umskiptum. Hinn almenni borgari á Íslandi hefur þurft að leggja margt á sig undanfarið í nafni náttúruverndar. Augljóst er að margar þær aðgerðir eru gífurlega óvinsælar. Margir hafa þó líklega sætt sig við bréfpoka og flókið nýtt flokkunarkerfi með því að horfa á það sem nokkurskonar syndaraflausn. En Landssambands íslenskra verzlunarmanna segir að almenningur hafi ekki framið neina synd og hinir sönnu sökudólgar fái verðlaun frá stjórnvöldum.

„Í stað þess að láta stórfyrirtæki og fjármagnseigendur borga sanngjarna skatta og eðlilegt gjald fyrir nýtingu á auðlindum í þjóðareign og gera þeim sem bera mesta ábyrgð á vandanum að standa straum af þeim kostnaði sem fylgir loftslagsaðgerðum, er almenningur skyldaður til að greiða reikninginn. Stjórnvöld ýta því ekki einungis undir ójöfnuð með loftslagsaðgerðum sínum heldur hefur þeim mistekist að draga úr mengun, sem heldur áfram að aukast,“ segir í ályktuninni.

Sambandið bendir enn fremur á það sé ólíðandi að almenningur njóti ekki góðs af tæknibreytingum og sjálfvirknivæðingu. „Þing Landsamband íslenskra verzlunarmanna krefst þess að launafólk og almenningur njóti góðs af aukinni framleiðni sem hefur hlotist af tæknibreytingum og sjálfvirknivæðingu en ábatinn hefur safnast á hendur fárra. Þrátt fyrir að landsframleiðsla á mann hafi margfaldast á síðustu áratugum og Íslendingar séu meðal ríkustu þjóða heims búa þúsundir enn við fátækt og sífellt fleiri heimili ná ekki endum saman. Þá er vinnuvika Íslendinga mun lengri en í nágrannalöndunum og starfsævi Íslendinga sú lengsta í Evrópu.“

Að lokum bendir sambandið á að stefna ríkisstjórnarinnar stangast á við ríkisstjórnarsáttmálann. „Núverandi stefna stjórnvalda ýtir undir ójöfnuð og grefur undan samfélagslegri sátt og framförum.  Landssamband íslenzkra verzlunarmanna krefst þess að stjórnvöld takist á við áskoranir samtímans með réttlát umskipti og hag almenning að leiðarljósi, rétt eins og ríkisstjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar kveður á um.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí