Fjártæknifyrirtækið Rapyd hefur sagt 17 starfsmönnum á Íslandi upp störfum, samkvæmt heimildum DV, en fyrirtækið sendi út yfirlýsingu um skipulagsbreytingar í gær, miðvikudag. Samkvæmt frétt DV telst uppsögnin ekki hópuppsögn, þar sem starfsmenn fyrirtækisins eru rétt tæplega 200 og lagalegar skilgreiningar á hópuppsögnum miðast við að minnst 10% starfsmanna sé sagt upp.
Stóri nýliðinn í kortafærslum
Rapyd hefur verið sagt verðmætasta sprotafyrirtæki Ísraels. Á síðasta ári, 2022, var það metið á 15 milljarða Bandaríkjadala eða rúma 2.000 milljarða íslenskra króna.
Sumarið 2021 greindi Viðskiptablaðið frá því að Rapyd hyggðist byggja upp höfuðstöðvar sínar fyrir allan Evrópumarkað á Íslandi, eftir að fyrirtækið festi kaup á kortafyrirtækjunum Korta og Valitor. Yfirtaka Rapyd á Valitor var stærsta yfirtaka félagsins fram að því, en kaupverðið nam yfir 12 milljörðum króna. Þessu meti í sögu félagsins var þó skákað síðastliðið sumar, þegar Rapyd tók yfir bandaríska greiðslumiðlunarfyrirtækið PayU fyrir 610 milljónir dala, sem samsvaraði þá rúmlega 80 milljörðum króna.
Fjármálaeftirlit Seðlabankans samþykkti kaup Rapyd á Valitor þegar árið 2020 en samþykki Samkeppniseftirlitsins (SKE) lá ekki fyrir fyrr en árið 2022, og þá með skilyrðum. Í tilkynningu SKE um efnið kom fram að hefðu ekki verið sett slík skilyrði fyrir kaupunum hefði markaðshlutdeild Rapyd í „færsluhirðingu hjá íslenskum söluaðilum“ orðið á bilinu 70–75%. Færsluhirðing er ferlið sem fram fer þegar greitt er fyrir verslun og þjónustu. Að þessum skilyrðum uppfylltum fór markaðshlutdeild Rapyd á sviðinu hérlendis „martækt niður fyrir 50%“ að sögn SKE.
Meðal skilyrðanna var að Rapyd seldi frá sér nokkurt safn „færsluhirðingarsamninga“ til bankans Kviku. Kvika rak þegar „greiðslutengda þjónustu“ undir merkjunum Netgíró og Aur en hefur í kjölfar þessar viðskipta að auki stofnað sitt eigið fjártæknifyrirtæki, Straum greiðslumiðlun hf.
Meiri hagnaður, færra starfsfólk
Hinum nýju rekstraraðilum virðist ganga vel. Valitor, nú dótturfyrirtæki Rapyd, hagnaðist um 1,3 milljarða króna árið 2022, sem var fjórfalt meiri hagnaður en árið 2021. Tekjur félagsins jukust um 2,5 milljarða milli áranna 2021 og 2022 og námu 16,8 milljörðum á síðasta ári.
Í frétt Viðskiptablaðsins um uppbyggingu höfuðstöðvanna á Íslandi, sumarið 2021, var haft eftir stjórnanda fyrirtækisins að það gerði ráð fyrir að tvöfalda starfsmannafjölda sinn á Íslandi innan þriggja ára. Ári síðar var haft eftir fyrirtækinu að það hefði beðið í tólf mánuði eftir samþykki Samkeppniseftirlitsins við kaupunum á Valitor, en nú þegar þau hefðu verið samþykkt, ynnu stjórnendur að áætlanagerð fyrir árið 2023 og 2024 og gerðu ráð fyrir að fækka starfsfólki. Í umfjöllun miðilsins Startups var greint frá því að Rapyd hefði um 900 starfsmenn á launaskrá á heimsvísu og sennilegt væri að uppsagnir biðu um eða yfir 10% þeirra.
Forstjóri Rapyd er Arik Shtilman en forstjóri Rapyd Europe og dótturfyrirtækisins Valitor er Garðar Stefánsson.