Í Morgunblaðinu í gær mátti sjá skælbrosandi borgastjóra, Dag B. Eggertsson, tilkynna enn fleiri hótel í Reykjavík. Svo virðist sem Dagur hugsi ekkert út í afleiðingar þess af bæta við samtals 11 nýjum hótelum, flestum í nágrenni við miðbæinn, ofan á öll þau ótal hótel sem þar eru fyrir. Það gera þó íbúar í miðbænum ef marka má umræðu innan Facebook-hóps þeirra. Þar er bent á að öll þessi hótel munu þurfa starfsfólk, sem verður væntanlega aðflutt og fái greitt smánarleg laun. Það hefur reynslan sýnt öllum sem vilja sjá.
Því spyrja íbúar einfaldlega hvar á þetta starfsfólk að búa og mun þetta ekki einfaldlega búa til enn meiri þrýsting á húsnæðismarkaði, sem er við það að springa. Einn íbúi í miðbænum vekur athygli á þessu og skrifar:
„11 ný hótel í Reykjavík á næstu árum með þúsundir herbergja!! Það á greinilega enn að fjölga ferðafólki hér í borg eins og það sé ekki nóg fyrir. Hvar ætla þau að finna starfsfólk og hvar á það fólk að búa? Væntanlega verður margt af því starfsfólki aðflutt og þarf þá húsnæði á höfuðborgarsvæðinu sem skapar enn meiri þrýsting á húsnæðismarkaðinn. Þar að auki, störfin sem skapast flokkast þau ekki flest sem láglaunastörf? Er fjölgun ferðafólks og láglaunastarfa til bóta fyrir samfélagið hér á höfuðborgarsvæðinu? Hvað finnst ykkur?“
Aðrir íbúar taka undir, líkt og einn sem skrifar: „Mér finnst þetta sturlað. Hvar á starfsfólkið að búa og hvernig á það að fjármagna leiguna. Svo lika hvar á að leggja bílaleigubílunum í bænum. 300 ný herb í Skúlagötu.“