Baldvin Þorsteinsson, nýr stjórnarformaður Samherja og sonur Þorsteins Más Baldvinssonar, er líklega skýrasta dæmið um hvernig kvótakerfið býr til nýja stétt nokkurs konar lénsherra á Íslandi. Í stað þess að arður af auðlind þjóðarinnar renni í sameiginlega sjóði, líkt og til að mynda í Noregi, þá rennur sá peningur beint í vasa barna kvótakónga. Þessi stétt, sem er ekki fjölmenn, fer að mestu huldu höfði á Íslandi, en Baldvin er þar undantekningin.
Ástæða þess er fyrst og fremst eftirminnilegt atvik á Alþingi árið 2019 en þá munaði hárbreidd að Baldvin gengi í skrokk á þáverandi seðlabankastjóra, Má Guðmundssyni. Þetta var stuttu eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Seðlabankinn hafði ekki haft heimild til að leggja stjórnvaldssekt á Samherja. Að loknum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hugðist Már taka í höndina á Þorsteini. Það tókst þó ekki því Baldvin varð óður og öskraði: „Hafðu smá sómakennd og drullaðu þér í burtu.“ Kolbeinn Óttarsson Proppé, þáverandi þingmaður Vinstri grænna, þurfti að grípa inn í og koma á milli þeirra tveggja.
En Baldvin hefur það gott í dag. Á dögunum greindi Heimildin frá því að hluthafar Samherja munu greiði sér út rúmlega einn milljarð króna í arð á þessu ári. Stofnendur fyrirtækisins, Þorsteinn Már og Kristján Vilhelmsson, hafa fært eignir sínar yfir á börnin sín, sem eru nú langstærstu hluthafar fyrirtækisins.
Börn Þorsteins, Baldvin og Katla, eiga þannig 49 prósent í Samherja og má því lauslega reikna með því að hvort um sig fái ríflega 200 milljónir króna í arfgreiðslur á þessu ári. Þau tvo fá því um hálfan milljarð sem í Noregi myndi renna í heilbrigðiskerfið eða önnur sameiginleg gæði.