Upp er komin deila milli stjórnvalda og dómstóla í Frakklandi vegna lögreglubanns á friðsamlegum mótmælum til styrktar Palestínu í vikunni. Undanfarna viku hafa þúsundir Frakka komið saman á Lýðveldistorginu í París, Place de la République, gamla byltingartorginu, þrátt fyrir fyrirskipun stjórnvalda um að banna mótmæli til styrktar Palestínu. Banninu var framfylgt af lögreglu á þeim forsendum að þau myndu espa upp and-gyðinglegt ofbeldi sem erfitt þykir að snúa niður.
Frakkar eru þrautþjálfaðir í að mótmæla og koma gjarnan saman á byltingartorgum Parísar og láta í sér heyra í kjarabaráttu og ef þeim þykir halla á réttlæti eða lýðræði. Og nú hafa dómstólar stutt lýðinn og ályktað að ólöglegt sé að banna mótmæli, enda sé það stjórnarskrárvarinn réttur borgaranna að mótmæla. En TF1Info fylgist með og segir nú síðast að stjórnvöld hafi náð því í gegn að takmarka mótmælin við eina klukkustund í senn. Þótt tilefni mótmælanna og bannanna sé hræðilegt er þó spennandi að fylgjast með þessari deilu því segja má að grundvöllur franska lýðveldisins sé frelsi til mótmæla og síðasta vígi lýðræðisins að falla ef má ekki lengur koma saman og mótmæla friðsamlega.