ASÍ telur breytingar á séreignarsparnaði knúnar áfram af þeim sem fengju þóknun fyrir

Furðu sætir að fjármála- og efnahagsráðherra hafi lagt fram frumvarp til viðamikilla breytinga á íslenska lífeyriskerfinu á sama tíma og unnið er að grænbók um kerfið. Margir umsagnaraðilar telja frumvarpið ótímabært, samráð skorti og leggjast gegn því að það verði samþykkt. Hins vegar eru fjármálastofnanir nokkuð áfram um að megin línur frumvarpsins verði að veruleika. Alþýðusamband Íslands bendir á að það þurfi ekki að koma á óvart, hugmyndir um umræddar breytingar komi einkum “þaðan sem þóknana- og umsýslukostnaður rynni”.

Í lok mars lagði fjármála- og efnahagsráðherra, sem þá var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fram frumvarp þar sem lagt er til að vörsluaðilum séreignarsparnaðar verði heimilt að verða við beiðni fólks sem eru rétthafar sparnaðarins um að iðgjöld þess til séretingar verði varið til fjárfestinga í tilteknum sjóði eða sjóðum. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til þess að vinna sé nú í gangi þar sem gera á grænbók um lífeyriskerfið. Í þeirri vinnu á að rýna kerfið heildstætt, með breiðum hópi hagsmunaaðila, og er þeirri vinnu ekki lokið.

Í því ljósi sætir furðu að ráðherra hafi lagt umrætt frumvarp fram, og slíkri furðu lýsa enda þeir umsagnaraðilar margir sem skilað hafa inn umsögnum um frumvarpið. Þó ber að geta þess að þau fjármálafyrirtæki sem skilað hafa inn umsögn lýsa sig fylgjandi inntaki frumvarpsins. Það þarf ekki að koma á óvart þar eð með því gæti umsýsla þeirra varðandi aukalífeyrissparnað aukist, með fleiri matarholum fyrir fyrirtækin til að innheimta kostnað. 

Þannig segir BSRB í umsögn að mikilvægt sé að breytingar á lífeyriskerfinu, kerfi sem sé byggt upp af aðilum vinnumarkaðarins, séu gerðar í sátt og á grundvelli samtals við þá aðila. Þá sé eðlilegt að tillögur um stærri breytingar á kerfinu komi að frumkvæði aðila vinnumarkaðarins. „Af þeim sökum sætir það furðu að ráðherra leggi fram frumvarp með þeim breytingum sem um ræðir hér á sama tíma og unnið er að grænbók um lífeyriskerfið. Frumvarpið er því ótímabært og þarfnast þær breytingar sem það felur í sér mun nánari athugunar og rýni, t.a.m. á grundvelli áður nefnds starfshóps. Með vísan til framangreinds leggst BSRB gegn því að frumvarpið verði samþykkt.“

Umsögn ASÍ er á svipaða lund, þar er settur fyrirvari við framlagningu frumvarpsins á þessum tímapunkti og varar ASÍ „almennt við þeim hugmyndum sem felast í áformum stjórnvalda“. Lýsir ASÍ andstöðu við málið, líkt og það hefur gert áður þegar það var til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda. Bendir ASÍ á í sinni umsögn að þess verði ekki vart að í samfélaginu sé uppi almenn krafa um frelsi og aðkomu að eignastýringu með viðbótarlífeyrissparnað. „Hugmyndir í þá átt koma einkum þaðan sem þóknana- og umsýslukostnaður rynni fremur en eigendum viðbótarlífeyrissparnaðar.“

Samtök atvinnulífsins eru þá á svipuðum slóðum og launþegarhreyfingarnar báðar. Í umsögn SA segir að geta beri þess að í gegnum tíðina hafi allar meiriháttar breytingar verið gerðar að frumkvæði aðila vinnumarkaðarins eða í náinni samvinnu við þá. „Hvorugt á hins vegar við um hið fyrirliggjandi frumvarp,“ segir í umsögn SA, sem benda rétt eins og aðrir á að framlagning frumvarpsins sé ekki tímabær á meðan vinnu starfshópsins að grænbókinni um lífeyriskerfið sé ekki lokið. 

Þá segja Landssamtök lífeyrissjóða í sinni umsögn að umræddar breytingar séu ekki tímabærar enda þarfnis þær nánari rýni. Sík rýni sé hins vegar mikilvæg, og mikilvægt sé að fjárfestingarheimildi lífeyrissjóða verði rýndar heildstætt „og þar verði hagsmunir sjóðfélaga hafðir í fyrirrúmi“.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí