Yfirstandandi þróun og væntanleg beiting gervigreindarlausna á fjölda sviða mun útheimta svo mikla orku að á næstu árum má vænta orkukreppu, ef ekki er brugðist við. Þetta segir Arijit Sengupta, forstjóri Aible, fyrirtækis sem hannar gervigreindarlausnir fyrir önnur fyrirtæki, í viðtali við Yahoo Finance í liðinni viku. Sengupta segir að um þessar mundir megi ætla að innleiðing gervigreindarlausna sé komin um eitt prósent áleiðis í átt að þeirri útbreiðslu sem megi vænta innan tveggja eða þriggja ára. „Heimurinn er í raun á leið í virkilega slæma orkukreppu vegna gervigreindar nema við lögum nokkra hluti,“ hefur miðillinn eftir honum.
„Orkuskortur“ á Íslandi
Í byrjun ágúst varaði forstjóri Landsvirkjunar íslenskan almenning við því að ef fyrirtæki fengi ekki að ráðast í nýjar virkjanaframkvæmdir myndi almenningur sitja í súpunni, annað hvort með hækkandi raforkuverði eða beinhörðum orkuskorti, enda hafi Landsvirkjun þegar gert samninga um sölu á meiri orku en nú er framleidd. Forstjórinn gat þess sjálfur að íslenskum stjórnvöldum láðist að tryggja almenningi forgang að þeirri orku sem framleidd er í landinu þegar ný raforkulög tóku gildi, árið 2003. Fulltrúar stjórnvalda virðast nú róa af vaxandi þunga í þessa átt, og tala næstum einum rómi um nýjar virkjanaframkvæmdir sem forsendu fyrir orkuskiptum og þannig hornstein í umhverfisverndarstefnu stjórnvalda. Að Ísland framleiði tífalt meira rafmagn á hvern íbúa en lönd Evrópu gera að meðaltali virðist engin áhrif hafa á þessa hugmynd um yfirvofandi orkuskort.
Vitað er að gagnaver þau sem risið hafa víða um land eru orkufrek, og nokkuð hefur verið fjallað um beitingu þeirra til að „grafa eftir rafmyntum“, myndmál um þrautalausnir sem tölvubúnaðurinn slíkra vera er meðal annars látinn stunda í keppnisskyni. Nú virðist hins vegar nýtt annað gullæði hafið, á sviði gervigreindar. Umfjöllun um orkuþörf þess geira gæti varpað nokkru ljósi á hið sveigjanlega hugtak „orkuskort“.
ChatGPT notar orku á við 33.000 heimili
Í umfjöllun Yahoo Finance er vísað til rannsókna Benjamins C. Lee, verkfræðiprófessors við Pennsylvania-háskóla og David Brooks, prófessors við Harvard, sem segja að orkunotkun gagnavera í heiminum hafi að meðaltali vaxið um 25% á ári frá 2015 til 2021. Það hafi verið áður en gervigreindar-æðið skall á. Þrátt fyrir áherslu stjórnvalda og fleiri aðila víða um heim á orkuskipti í átt að sjálfbærum orkugjöfum hefur sú tilfærsla ekki í við þessa aukningu, en í Bandaríkjunum vaxi svið endurnýjanlegra orkugjafa einungis um 7 prósent á ári.
„Við köllum þetta tölvuský,“ hefur miðillinn eftir Lee, „og líður eins og því fylgi enginn kostnaður. En það flest gríðarlegur kostnaður í innviðum þess.“
Miðillinn vísar einnig til rannsókna Sajjad Moazeni, verkfræðidósents við Washington-háskóla. Aðspurður, í nýlegu viðtali, um orkunotkun þeirra gervigreindarlíkana sem fangað hafa athygli almennings undanliðið ár segir hann að til að „þjálfa“ eitt mállíkana á við GPT3 þurfi allt að 10 gígavattstundir af afli, sem jafnist á við rafmagnsnotkun tíu þúsund bandarískra heimila í eitt ár.
Hver einstök beiting slíks líkans eftir þjálfun er ekki jafn orkufrek, en þegar ChatGPT spjallþjónninn var hvað vinsælastur, fyrr á þessu ári, og svaraði hundruðum milljóna erinda á dag, segir Moazeni mega ætla að orkunotkunin hafi verið um ein gígavattstund á dag. Það jafnist á við orkunotkun 33 þúsund bandarískra heimila á einum degi.
Aðeins 1% af því sem vænta má eftir 2–3 ár
Til samanburðar við orkuþörf gagnavera í dag segir Moazeni að hver spurning sem er borin undir ChatGPT krefjist líklega um 10 til 100-falt meira afls en til dæmis að senda og taka á móti tölvupósti.
Moazeni bætir við: „Þessar tölur gætu virst í lagi hér og nú en þetta er þó aðeins byrjunin á víðtækri þróun og aðlögun þessara líkana. Við gerum ráð fyrir að fjöldi aðila muni nota tækni af þessum toga daglega áður en líður á löngu. Eftir því sem líkönin verða fágaðri verða þau líka stærri sem þýðir að orkuþörf gagnavera til að þjálfa og beita þessum líkönum getur orðið ósjálfbær. Öll stór tæknifyrirtæki reyna nú að þróa sín eigin líkön og þetta getur orðið mikið álaga á gagnaverin.“
Iðnaðurinn er bjartsýnn og verkfræðingar leita lausna. Aðspurður um hvernig megi komast hjá þessum vanda segir Moazeni að um þessar mundir sé leitað leiða til að gera gagnaaverin sparneytanari, meðal annars með því að nota ljósleiðara til allra merkjasendinga frekar en hefðbundna rafleiðara.
Vélarnar þó nýtnari en mannfólk
Brady Brim-Deforest, forstjóri Formula Monks, ráðgjarfyrirtækis á sviði gervigreindar, er einnig bjartsýnn og bendir á að þó svo að vélbúnaðurinn sem þarf til að þjálfa og keyra gervigreindarlíkön sé orkufrekari en sá vélbúnaður sem flest gagnaver hafa stuðst við til þessa, þá sé gervigreindin sjálf hins vegar ekki jafn orkufrek við úrlausnir ákveðinna verkefna og manneskjur væru.
Aðrir bjartsýnismenn segja að iðnaðurinn hljóti að leita sparneytnari lausna. Yahoo Finance hefur eftir Tegan Keele, sérfræðingi hjá ráðgjafarfyrirtækinu KPMG, að hvort sem er vegna losunar, vegna fjárhagslegra hvata, þrýstings frá hluthöfum eða af öðrum sökum, þá „sjáum við fyrirtæki leitast meira eftir því að verða nýtnari. Þetta er rekstrarkostnaður. Því nýtnari sem þú ert, því lægri er er rekstrarkostnaðurinn.“
Og vegna þess að fjármálamiðlar fá ekki nóg af fjármálaráðgjöfum hafði Yahoo Finance einnig samband við Angelo Zino, varaforseta stjórnar og greinanda hjá CFRA Research, alþjóðlegu þjónustufyrirtæki í fjármálaráðgjöf. Zino lét haf aþað eftir sér að þegar upp er staðið verði sigurvegarar þessarar þróunar eigendur gagnaveranna. „Hið raunverulega gagnamagn og hvernig þetta fellur allt saman verður miklu samþjappaðra í höndum örfárra fyrirtækja,“ sagði hann. „Sífellt fleiri fyrirtæki eru í reynd að leigja pláss í skýinu frekar en fjárfesta og byggja sín eigin gagnaver, og í framtíðinni geri ég ráð fyrir að það verði umtalsvert dýrara.“