Í borgarvita Maskínu er fólk spurt hvaða fultrúi í borgarstjórn Reykjavíkur því finnist hafa staðið sig best á yfirstandandi kjörtímabili. 19,2% nefna Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, oddvita Sósíalista, en aðeins 13,0% Dag B. Eggertsson borgarstjóra Samfylkingarinnar og 11,2% Hildi Björnsdóttur oddvita Sjálfstæðisflokksins. Einar Þorsteinsson, tilvonandi borgarstjóri Framsóknar, lendir í níunda sæti. Aðeins 6,0% nefna hann.

Sanna nýtur besta stuðningsins úr sínu baklandi. 90% Sósíalista nefna Sönnu sem þann borgarfulltrúa sem hefur staðið sig best en aðeins 47,2% Samfylkingarfólks nefnir Dag og 50,5% Sjálfstæðisflokksfólks nefnda Hildi.
Staða borgarstjórans tilvonandi, Einar Þorsteinssonar, er sérlega veik. Framsókn hefur misst 2/3 hluta af fylginu sem hann fékk vorið 2022. Fáir eru ánægðir með Einar og meirihlutinn sem hann er að fara leiða nýtur trausts aðeins 14,7% borgarbúa. Hann er maður með litlar vinsældir í flokki með lítið fylgi sem er að fara að leiða meirihluta með lítið traust.
Þetta er þriðji borgarviti Maskínu á þessu kjörtímabili og hefur Sannað verið efst á þessum lista í öll skiptin.