Skandall að spilltur forstjóri Ríkiskaupa saki aðra um spillingu

„Ég sé að Félag atvinnurekenda er aftur komið af stað í dreifingu falsfrétta um opinbera starfsmenn. Nú er það meint spilling vegna vildarpunkta Icelandair. Verra er að settur forstjóri Ríkiskaupa reið á vaðið með dylgjum um meinta spillingu, án þess að hafa gögn máli sínu til stuðnings.“

Þetta skrifar Friðrik Jónsson, fyrrverandi formaður Bandalags háskólamanna og nú trúnaðarmaður starfsfólks Utanríkisráðuneytisins, á Facebook en forstjóri Ríkiskaupa sem hann vísar í er Sara Lind Guðbergsdóttir. Ekki er hægt að orða það öðru vísi en að Sara Lind sitji sem forstjóri í krafti spillingar. Hún er innmúrðu Sjálfstæðiskona og algjörlega reynslulaus á þessu sviði. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra réð hana án auglýsingar.

Friðrik segir að þessi vildarpunkta umræða sé eins og smjörklípa. „Nú er það svo að vildarpunktarnir hafa reglulega poppað sem smjörklípa í umræðu um meint ferðafríðindi opinberra starfsmanna. Icelandair skipuleggur punktasöfnun þannig að hún er bundinn við þann einstakling sem flýgur,“ skrifar Friðrik og heldur áfram:

„Hér er kannski ágætt að setja glæpinn í eitthvað samhengi sem hægt er að skilja. Hver Evrópuferð – fram og til baka – með Icelandair á Economy Standard (líklega algengasta fargjald) gefur af sér samtals 3400 vildarpunkta. Þeir vildarpunktar sýnast mér reiknast í u.þ.b. 2040 krónur í farseðlakaupum. 10 ferðir til Brussel á ári skila þá „gróða“ upp á u.þ.b. 20 þúsund kall.“

Hann segir að ferð til Brussel sé engin skemmtiferð. „En hvað með kostnaðinn sem ríki greiðir ekki í þeim ferðum? Flug til Brussel er 7:40 að morgni með Icelandair, og líklega klukkutíma fyrr með Play – ef félagið flýgur þangað. Klassísk Brusselsferð er út að morgni dags, gist eina nótt og til baka að kvöldi næsta dags gegnum Köben, Osló eða Stokkhólm. Lent á Íslandi rétt fyrir miðnætti og kominn heim í rúmið kannski klukkan eitt um nótt ef þú ert heppinn með rútuferð. Ríkið borgar ekki leigubíl og dagpeningarnir duga ekki fyrir honum,“ segir Friðrik.

Hann segir að opinber starfsmaður fái nú ekki mikið af vildarpunktum fyrir þetta. „Ekki eru borgaðir yfirvinnutímar á ferðadögum – en það er reyndar fyrir dómstólum. En jafngildi 2000 króna í vildarpunktum, það er stóri skandallinn? Kannski ágætt að nefna að t.d. á mínum vinnustað sér starfsmaðurinn ekki sjálfur um bókun – það er bókað það sem er hagkvæmast. Fyrir vinnustaðinn, ekki starfsmanninn,“ segir Friðrik.

Hann ítrekar að vinnuferðir séu oftast farnar af illri nauðsyn. „Ég þori að fullyrða að langflest okkar pælum ekkert í vildarpunktunum og væri alveg sama þó að þeir fylgdu ekki með. Þeir skipta nákvæmlega engu máli í ferðajöfnunni vegna vinnunnar.Vinnuferðir erlendis eru af nauðsyn. Þetta eru ekki frí. Þær eru ekkert sérstaklega skemmtilegar. Þetta er vinna, vinna, vinna í langflestum tilfellum. Vinna sem er ekki greitt fyrir fullu verði,“ segir Friðrik.

Hann segir að viðbrögð Söru Lindar sé skandall í sjálfu sér. „Þannig að þið fyrirgefið, enn og aftur, þetta vildarpunktaröfl er hallærisleg smjörklípa og ætti að vera fyrir neðan virðingu FA að vaða fram með svona dylgjum. Að settur forstjóri ríkiskaupa geri það með þeim hætti sem hún gerði er einfaldlega skandall,“ segir Friðrik.

Hann bendir á að nú sé hann í vinnuferð og það sé nú engin sérstakur lúxus. „Ég er í vinnuferð erlendis núna þegar ég skrifa þennan status. Frá fjölskyldu, voffum og vinum í 6 daga samtals. Ég fæ ekki greidda yfirvinnu fyrir fjarvinnu og fjarveru yfir helgi. Einn leggur af ferðinni er með Icelandair sem skilar mér víst 1700 punktum, eða u.þ.b. þúsund kalli umreiknað í íslenskar krónur. Augljóslega er ég að leggja þetta allt á mig fyrir þann þúsund kall…! ,“ skrifar Friðik.

Að lokum bendir hann á að Play ætti kannski að auka þjónustustigið og þá myndu kannski opinberir starfsmenn fljúga oftar með þeim. „Og bæðevei, kannski er það þjónustustigið hjá Play frekar en vildarpunktarnir hjá Icelandair sem eru vandamálið. Play bíður ekki upp á sömu tengingar, sambærilega samninga við önnur flugfélög o.þ.h. sem skipti máli þegar verið er að skipuleggja vinnuferð þar sem tíminn eru peningar. Vinnuferðir eru í engu sambæilegar við það þegar fólk fer í frí. Status þennan leyfi ég mér að skrifa í ljósi þess að ég er jú trúnaðarmaður starfsfólks Utanríkisráðuneytið – utanríkisþjónusta Íslands sem eru í Félagi háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins. Við ferðumst mörg töluvert vegna vinnunnar. Ber ég hér hönd fyrir höfuð okkar allra þar sem við öll sitjum nú undir þessum spillingardylgjum FA og setts forstjóra Ríkiskaupa.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí