Seðlabankann er augljóslega ekki að sinna verkefnum sínum vel og að óbreyttu er stórslys í uppsiglingu. Þetta skrifar Ásgeir Brynjar Torfason, sérfræðingur í fjármálum og ritstjóri Vísbendingar, í grein sem birtist á vef Sameykis í gær, miðvikudag.
Stöðugt fleiri eiga erfitt með að ná endum saman hérlendis, skrifar Ásgeir. Hugtakið lífskjarakrísa hafi verið notað mikið erlendis á síðasta ári en viðbrögð stjórnvalda þar hafi þó mildað krísuna og jafnvel látið hana hverfa fyrir stóran hluta heimila. Á Íslandi hafi stýrivaxtahækkunum verið beitt hraðar og meira. Verðbólga sé hins vegar enn langtum meiri hér en þar: í öðrum ríkjum Evrópu hafi hún lækkað, síðan í október 2022, úr 10,6% niður í 2,9%.
Í greininni leiðréttir Ásgeir algengar bábiljur um hagstjórn. Hann nefnir að lengi hafi verið sagt á Íslandi að hagsveiflan hér væri allt önnur en í nágrannalöndunum. Það hafi verið þegar meginhluti tekna landsins kom af fiskútflutningi, en sú tugga sé löngu orðin úrelt, „bæði eftir að við fengum aðild að sameiginlega evrópska markaðnum með samningnum um EES fyrir aldarfjórðungi, en ekki síður eftir að ferðaþjónusta varð stærsti hluti útflutningsteknanna.“
Dugir ekki að predika yfir hagkerfinu
Þá bendir Ásgeir á leiðréttingu sem þegar hefur komið fram: hann segir að Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, hafi leiðrétt útbreiddan misskilning um hugtakið „aðhald“ í viðtali í sumar. „Það að tala um aðhald opinberra fjármála felur í sér annaðhvort eða bæði, hækkun skatta eða lækkun útgjalda, ekki aðeins það síðarnefnda.“
Loks færir Ásgeir fram það sem kalla mætti grundvallarleiðréttingu, leiðréttingu á misskilningi um hvað þekking er og hvernig hún virkar. Þeirri leiðréttingu virðist beint til núverandi seðlabankastjóra. Ásgeir skrifar: „Það er alls ekki hlutverk hagfræðinga að predika yfir hagkerfinu hvernig það eigi að virka eða haga sér til þess að raunveruleikinn stemmi við líkönin þeirra. Fagleg skylda hagfræðinganna er að leiðrétta líkönin ef þau stemma ekki við veruleikann. Geri þeir það ekki verður starf þeirra fljótt gagnslaust.“
Ef aðeins fyrsta farrými kemst í björgunarbáta …
Ásgeir segir samræmi og samhljóm milli atvinnustefnu og efnhagsstefnu hins opinbera mikilvægan. Í því samhengi beitir hann líkingamáli úr sjóferðum:
„Segl sem ekki eru stillt í sömu átt, eða stýri sem ekki er stjórnað samhæft við seglin getur látið skútuna brotna eða stranda. Ábyrgð hagfræðinganna sem stýra vissum köðlum eða stillingum seglanna er þar mikil en ábyrgð stjórnmálamannanna sem halda um stýrið er enn meiri. Hvorugur hópurinn getur hrópað á restina af áhöfninni til þess að rétta stefnuna af. Ef fólkið á fyrsta farrými kemst eitt í björgunarbátana en ekki aðrir bátsverjar, þá er stórslys í uppsiglingu.“
Hlutir reddast ekki alltaf
Það má skilja á Ásgeiri að undirliggjandi vandi sé hugmyndafræðilegur: „Hugmyndafræði sem vinsæl virðist hérlendis á allt of mörgum sviðum er að allt muni reddast, en er nú að afhjúpast sem hræðilega léleg fyrir efnahagsstefnu. Þó að við höfum á vissa mælikvarða verið heppin sem þjóðfélag efnahagslega í eftirmálum og úrvinnslu fjármálahrunsins þá er ekki víst að sama gerist eftir heimsfaraldur og hina alþjóðlegu verðbólgu. Nú stefnir allt í þá átt, ef marka má reynslu þessa árs, að lærdómurinn hérlendis á næsta ári verði sá að hlutir reddist ekki alltaf.“
Greininni lýkur Ásgeir á að benda á að hagkerfið sé ekki „stjórnlaus skepna sem fer sínu fram af einhverri eðlishvöt“ heldur sé því stjórnað af aðgerðum mismunandi aðila og hópa. „Íhaldssöm öfl og sterk viðhorf hérlendis byggja á fyrrum meginstraumshagfræði sem viðurkennt er orðið á alþjóðavísu að stenst ekki próf hins efnahagslega raunveruleika sem einkennt hefur heiminn undanfarin ár. Einsleitni umræðunnar hér, bæði frá hinni stjórnmálalegu hlið og hinni hagfræðilegu, er hættuleg, sérstaklega á þeim umbrotatímum sem við nú lifum.“
Greinina í heild má lesa á vef Sameykis.