Auður Jónsdóttir, rithöfundur, tilkynnir uppsögn sína sem ritstjóri menningar á Heimildinni í Facebook færslu nú á mánudag. Auður segist hafa tekið þá ákvörðun í ljósi færslu Ingibjargar Sólrúnar á sama vettvangi, sama dag, þar sem koma Hillary Clinton á glæpasagnahátíðina Iceland Noir var sett í samhengi við frægðarvæðingu.
Auður hafði áður talað máli hátíðarinnar gegn þeim sem mótmæltu þátttöku Clinton og sagðist þá ekki geta rökstutt fyrir sjálfri sér að sniðganga hátíðina þess vegna. Samkvæmt tilkynningu hennar nú á laugardag hefur færsla Ingibjargar Sólrúnar orðið til þess að Auði snerist hugur í málinu, með þessum afdrifaríka hætti.
Vill ekki elítustimpil á blaðið
Auður segist í færslu sinni hugsandi yfir því „að þróunin sé sú að palestínskum höfundi, Adania Shibli, sé vísað frá Frankfurt messunni og krafa á að Hillary sé vísað frá bókmenntahátíðinni hér. Því ég veit ekki hvar sú þróun endar. Og það samtal þarf að eiga sér stað líka, um tjáningarfrelsið og til séu platform fyrir ólíkar raddir að mætast. Líka því slík platform bjóða upp á frekari umræðu og mótmæli.“
Hins vegar vilji hún „ekki stuðla að frægðarvæðingu og út af þessari umræðu síðustu daga og í ljósi þessara kjörnuðu orða Ingibjargar ætla ég að hætta að ritstýra menningunni á Heimildinni – eingöngu því mér finnst það réttast og ábyrgast og það er alfarið mín ákvörðun.“
Auður segist ekki vilja að „einhvers konar elítustimpill límist við þetta blað sem ég dýrka og er umbreytingaafl í samfélaginu.“ Þó að hún lifi sjálf við þá mótsögn að vera „í einhverjum skilningi“ elíta, lífið hafi æxlast þannig að hún „þekki ansi marga hér og þar,“ annars vegar, en um leið „sjálfstæð móðir að leigja kjallaraíbúð og vinn sjö daga vikunnar til að eiga fyrir nauðsynjum,“ hins vegar, þá sé menningarbakland hennar „það gildishlaðið að betra sé að einhver annar sjái um ritstjórnina. Líka þvi meðan elítustimpill er á manni, þá hefur maður í raun vald til að menningarþvo, án þess að ætla sér það. Um leið og hægt er að setja allt sem maður segir í það ljós.“
Auður segist telja að menningarheimurinn sem hún ólst upp í „sé að líða undir lok, og það þurfi nýjar manneskjur til að endurmóta hann. Manneskjur sem eru ekki með hlaðið bakland. Heldur nýjar raddir.“
Færsla Auðar
„Ég ætla að axla ábyrgð!
Mér finnast þetta merkileg og rétt orð hjá Ingibjörgu Sólrúnu um vaxandi frægðarvæðingu, þrátt fyrir færslu mína um bókmenntahátíðir. Um leið og ég er hugsi yfir því að þróunin sé sú að palestínskum höfundi, Adania Shibli, sé vísað frá Frankfurt messunni og krafa á að Hillary sé vísað frá bókmenntahátíðinni hér. Því ég veit ekki hvar sú þróun endar. Og það samtal þarf að eiga sér stað líka, um tjáningarfrelsið og til séu platform fyrir ólíkar raddir að mætast. Líka því slík platform bjóða upp á frekari umræðu og mótmæli.
En ég vil ekki stuðla að frægðarvæðingu og út af þessari umræðu síðustu daga og í ljósi þessara kjörnuðu orða Ingibjargar ætla ég að hætta að ritstýra menningunni á Heimildinni – eingöngu því mér finnst það réttast og ábyrgast og það er alfarið mín ákvörðun.
Ég vil ekki að einhvers konar elítustimpill límist við þetta blað sem ég dýrka og er umbreytingaafl í samfélaginu.
Ég er sammála mörgu hjá mörgum sem mótmæla mér á vegg mínum, út af bókmenntahátíðinni og komu Clinton, en aðhyllist að umræða eigi að vera lifandi og umbreyta veruleikanum um leið og hún á sér stað. Ég hef alltaf átt til að setja út ögrandi færslur og örva hugsunina við að lesa athugasemdir við þær, um leið og, eins og ég sagði einhver staðar, liggur prinsippið í því að stuðla að því að heyra allar raddir og geta síðan mótmælt þeim eða rökrætt. Í umræðu opnast veruleikinn, hún er eins og vera sem fæðir af sér eitthvað nýtt. Nýja skilning.
En í þessum umræðum fæ ég oft á mig að vera elíta. Í einhverjum skilningi er ég það félagslega, lífið æxlaðist þannig að ég þekki ansi marga hér og þar. Á sama tíma og ég er sjálfstæð móðir að leigja kjallaraíbúð og vinn sjö daga vikunnar til að eiga fyrir nauðsynjum. Ekki sem fórnarlamb heldur er það val, af því ég elska að skrifa og þrífast í umræðu, frekar en að gera eitthvað ábótasamara. En samt! Þá held ég að menningarbakland mitt, bæði frá upphafi og hvernig það hefur orðið til og þróast í gegnum árin, sé það gildishlaðið að betra sé að einhver annar sjái um ritstjórnina. Líka þvi meðan elítustimpill er á manni, þá hefur maður í raun vald til að menningarþvo, án þess að ætla sér það. Um leið og hægt er að setja allt sem maður segir í það ljós.
Ég held að menningarheimurinn sem ég er alin upp í sé að líða undir lok, og það þurfi nýjar manneskjur til að endurmóta hann. Manneskjur sem eru ekki með hlaðið bakland. Heldur nýjar raddir.
Það er út af fyrir sig ástæða þess að ég vildi sýna Iceland Noir hátíðinni stuðning út úr leið, frekar en ekki. Af því þau eru ný, og koma úr öðrum ranni en gamla bókmenntastabilítetið á Íslandi og hafa verið að byggja upp nýja senu. En vendingar síðustu daga setja þetta allt í miklu stærra samhengi. Heimurinn er í svo mikilli ólgu að allir þurfa að hugsa allt upp á nýtt.
Nýir tímar, nýtt fólk. Og þess þarf. Fyrr í ár ákvað ég að sækja ekki aftur um starfslaun rithöfunda. Nýtt fólk þarf að komast að. Nýjar raddir. Nýr heimur. En þó að ég ætli að hætta að ritstýra, þá held ég áfram að skrifa blaðaefni fyrir Heimildina og vera þar á stassjón. Og ekki taka þessu sem fórnarlambarausi. Stundum bara finnur maður í kerfinu að eitthvað er rétt.
Og þetta er kannski eitt stærsta menningarmál síðustu ára.“