Sambandslaust við Jawaher og börn hennar á meðan þeim er brottvísað

Flóttafólk 2. nóv 2023

„Hér á Leifsstöð er núna einstæð móðir, Jawaher, með börnin sín 8 í varðhaldi lögreglu, mögulega fangaklefa, þar til líklega verður flogið með þau til Spánar í fyrramálið. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir næst hvorki til þeirra né fást nokkrar upplýsingar aðrar en að lögreglan sagði í símasamtali: „Ég get alveg lofað þér því að það er ekki verið að henda henni með 7 börn inn í sama klefann.“ … „Hún er bara í höndum lögreglunnar þarna inni á stöðinni, skilurðu mig!?““

Þetta stóð ritað á pappaspjald sem hékk uppi við Innritun á Flugstöð Leifs Eiríkssonar nú á aðfaranótt fimmtudags. Eins og Samstöðin greindi frá á miðvikudagskvöld voru Jawaher Badran og sjö af átta börnum hennar færð í hald lögreglu það kvöld og flutt til Keflavíkur, með svo litlum fyrirvara, að sögn heimildamanns, að föt þeirra og farangur urðu eftir í Bæjarhrauni, þar sem þau hafa dvalið undanliðna tvo mánuði. Alls hafa þau dvalið á Íslandi í tíu mánuði, eftir að sækja hér um alþjóðlega vernd.

2. nóvember 2023, 01:33 Leifsstöð.

Lögregla fjarlægði síma móðurinnar

Lögregla tók síma Jawaher af henni í aðgerðinni. Ekki er ljóst á hvaða lagaforsendum það er gert. Síðast fréttist af fjölskyldunni á Leifsstöð seint á miðvikudagskvöld. Fólk á vegum samtakanna Réttur barna á flótta hóf leit að Jawaher og börnum þar og var fréttamaður af Samstöðinni með í för. Símtal til lögreglunnar skilaði ekki árangri. Ekkerst spurðist af Jawaher og börnum hennar.

Þegar þetta er skrifað, að ganga þrjú aðfaranótt fimmtudags, hefur ekki náðst samband við fjölskylduna eftir flutninginn til Keflavíkur og ekki fengist staðfest hvert stjórnvöld áforma að senda þau. Þó þykir líklegt að það verði til Spánar, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar.

Yfirvöld hunsa Þroskahjálp

Að minnsta kosti fjögur barna Jawahers eru á barnsaldri og á eitt þeirra við langvinn veikindi að stríða. Ein dætra Jawahers, um tvítugt, stríðir við andleg veikindi.

Anna Lára Steindal, fulltrúi Landssamtakanna Þroskahjálp sagði í samtali við blaðamann Samstöðvarinnar þetta sama kvöld að samtökin hafi bæði reynt að knýja á um að tekið yrði tillit til veikinda barna í fjölskyldunni og að þeim yrði tryggð réttindagæsla við meðferð máls þeirra hjá Útlendingastofnun og Kærunefnd útlendingamála, en yfirvöld hafi skellt skollaeyrum við því, í trássi við fyrri fyrirheit um verklag. Þá kom fram í máli Önnu Láru að dómsmálaráðherra, félagsmálaráðherra og forsætisráðherra hafi öll hunsað erindi samtakanna vegna málsins.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí