Klausturshneykslið snerist ekki um ölvun heldur spillingu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og stuðningsmenn hans rifja nú upp Klaustursmálið svonefnda, í tilefni þess að þingmaður Pírata varð á dögunum ölvaður á skemmtistað. Á meðal þeirra vilja einhverjir ekki aðeins leggja atvikin að jöfnu heldur halda því jafnvel fram að ölvun Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur veki alvarlegri siðferðilegar spurningar en inntak samskiptanna sem almenningi varð kunnugt um í Klaustursmálinu.

Að þingmenn hafi verið þolendur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er á meðal þeirra sem rifjar nú upp hneykslismál ársins 2018 en á Facebook skrifar hann: „Bæði málin snúast um þingmenn, sem missa stjórn á sér sakir ölvunar. Í Klausturmálinu var þó í rauninni ruðst inn á þingmennina, ölvunartal þeirra tekið upp og birt án leyfis (sem er skýrt brot á reglum um friðhelgi einkalífs). Það var miklu alvarlegra brot, myndu margir segja, en sjálft ölvunartalið, sem varla var hægt að taka alvarlega, það var eins og hvert annað raus og aldrei öðrum ætlað.“

Kjarni Klausturmálsins snerist þó aldrei um ölvun, enda fækkaði hneykslanlegum ummælum þingmannanna sem þar áttu í hlut eftir því sem þeir sátu lengur að sumbli. Það voru svo gott sem alsgáðir þingmenn sem sátu á barnum Klaustur í nóvember 2018, sögðu spillingarsögur og lögðu á ráðin um meiri spillingu.

Að kaupa þögn með því að skipa sendiherra

Þannig birtist í Kvennablaðinu frétt undir fyrirsögninni „Gunnar Bragi keypti þögn Vinstri grænna með skipun Árna Þórs“. Sú umfjöllun hefur varðveist á vef Greynis. Þar segir Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, frá þeirri ákvörðun sinni að gera Árna Þór, fyrrverandi þingmann VG, að sendiherra til að kaupa þögn VG yfir því að Geir H. Haarde skyldi skipaður sendiherra í Bandaríkjunum.

„Það yrði of þungur biti fyrir þingið og allt þetta. Þannig að ég gerði Árna Þór að sendiherra,“ sagði Gunnar Bragi meðal annars. „VG-kjarninn varð brjálaður,“ hélt fyrrverandi ráðherrann áfram. „Hún Katrín sagði ekki orð fyrr en hún, ég átti fund með henni og …“ þar varð upptakan ógreinileg, að sögn blaðamanns, þar til Gunnar sagði: „og Geir slapp í gegnum þetta svona eins og smjör á smokknum.“

Gunnar Bragi varði fleiri orðum í að lýsa þessum klókindum sínum: „Geir reyndar sagði við mig dálítið seinna: Ég var brjálaður yfir þeirri ákvörðun að gera Árna Þór að sendiherra. En svo fattaði ég það … og varð mjög glaður!““ „Af því að,“ útskýrir Gunnar Bragi, „athyglin fór öll á Árna Pál.“

Síðar áttu þeir Geir Haarde enn og aftur samskipti um málið, að sögn Gunnars: „Svo sagði Geir við mig reyndar löngu seinna, hann sagði: Þakka þér fyrir. Það er enginn sem gagnrýndi mig! Og það var þannig. Það gagnrýndi nánast enginn þegar Geir var skipaður. Ég lét Árna taka allan slaginn.“

Sagðist hafa verið að grínast

Eftir að fréttir birtust af upptöku samtalsins bar Gunnar Bragi því við að hann hefði verið að grínast, þetta væri ekki satt og hann vissi ekki hvers vegna hann hefði sagt þetta.

Í erindi forsætisnefndar til Gunnars Braga, þar sem óskað var skýringa á málinu, var meðal annars vísað til ofannefndrar umfjöllunar Kvennablaðsins. Sú hlið málsins kom þó ekki til umfjöllunar siðanefndar, þar sem siðareglur fyrir Alþingismenn komu til framkvæmda í lok árs 2016 og „ljóst er að þau atvik sem vísað er til í ummælum þínum áttu sér stað fyrir þann tíma og geta því ekki verið grundvöllur athugunar samkvæmt 11. og 12. gr. siðareglna fyrir alþingismenn,“ eins og segir í erindi nefndarinnar til Gunnars.

Úr erindi forsætisnefndar til Gunnars Braga Sveinssonar, 15. apríl 2019.

Fleiri nátengd viðfangsefni komu upp í samtalinu langa á Klaustri, ekki síst sá skilningur viðstaddra að Bjarni Benediktsson hygðist veita Gunnari Braga sendiherrastöðu að launum fyrir skipan Geirs Haarde. Um þau áform var meðal annars fjallað í Stundinni, nú Heimildinni. Úr þeirri skipan varð ekki eftir að fjölmiðlar greindu frá efni samtalsins.

Ef Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir verður uppvís að því að hafa vélað um kaup og sölu á opinberum embættum inni á baðherbergi skemmtistaðarins Kiki um liðna helgi mætti vissulega leggja þessi tvö mál að jöfnu. Engar slíkar upplýsingar hafa þó komið fram til þessa.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí