Lögregla segist ekki mismuna komufarþegum en svarar ekki hvernig það er tryggt

„Skoðun einstaklinga á landamærum beinist ekki að ferðamönnum með ákveðinn húðlit eða önnur einkenni ætternis,“ segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í skriflegu svari vegna nýlegrar fjölgunar á tilfellum þar sem lögregla ákveður að neita komufarþegum um landgöngu.

Spurning blaðamanns snerist um hvaða verkferlum væri fylgt og hvaða eftirlit viðhaft með störfum lögreglu til að tryggja að ómannúðleg mismunun eigi sér ekki stað í slíkum aðgerðum. Efnislega svaraði lögreglustjórinn þeirri spurningu ekki.

Ráðuneytið hefur ekki aðkomu að aðgerðunum

Tilefni spurningarinnar er ekki síst yfirstandandi fjölgun tilfella þar sem lögreglan ákveður að neita komufarþegum um landgöngu. Seint í október kom það fram í viðtali við Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóra á Suðurnesjum, í viðtali á Byljunni, að lögreglan hefði neitað 283 manns um landgöngu á Keflavíkurflugvelli það sem af er þessu ári, ýmist í krafti þess að þykja líklegt að fólkið hyggist brjóta af sér, til dæmis með þjófnaði eða svartri atvinnustarfsemi, eða að það reynist við yfirheyrslu ekki gera fullnægjandi grein fyrir ferðum sínum. Slíkum ákvörðunum hefur fjölgað mikið á síðustu árum, að sögn lögreglustjórans, sem sagði til samanburðar alls 151 manns hafa verið neitað um landgöngu á þessum forsendum allt árið 2018.

Þáttastjórnandi spurði Úlfar hvort þar hefði orðið stefnubreyting. Úlfar svaraði: „Ég kannski kalla það ekki stefnubreytingu en ég myndi tala þá um áherslubreytingu. Í átt að hertum aðgerðum.“ Eftir stendur að óhætt virðist að tala um lögreglurassíu á landamærunum.

Spurningum þáttastjórnanda um lagaheimildir fyrir þessum ákvörðunum svaraði lögreglustjórinn ekki. Blaðamaður Samstöðvarinnar freistaði þess að ná sambandi við lögreglustjórann í síma til frekari eftirgrennslana. Eftir 24 mínútna bið í símkerfi embættisins, á skrifstofutíma, án þess að vart yrði við líf á hinum enda línunnar, þótti sú leið fullreynd. Blaðamaður hafði þá samband við Dómsmálaráðuneytið, skriflega, til að grennslast fyrir um þessa þróun á landamærunum. Fulltrúi ráðuneytisins svaraði að ráðuneytið hefði „ekki haft aðkomu að umræddum aðgerðum lögreglustjóra á landamærum og engum fyrirmælum eða áherslubreytingum hefur verið beint að lögreglunni hvað þetta varðar.“ Öðrum spurningum vísaði ráðuneytið að því sögðu til lögreglustjórans sjálfs.

„Úrlausnarefni hverju sinni er vandasamt“

„Við hvað er stuðst, í fyrsta lagi þegar ákveðið er að taka manneskju til yfirheyrslu á landamærunum, í öðru lagi þegar ákveðið er að neita manneskju um landgöngu, í þriðja lagi þegar lögregla lítur á manneskju sem „afbrotamann“ ef ekki er sannað að afbrot hafi þegar verið framið?“ Þannig hljóðaði fyrsta spurningin sem blaðamaður sendi lögreglustjóra, ásamt annarri spurningu sama efnis um ríkisborgara EES-ríkja sérstaklega, og spurningum um við hvaða lagaheimildir væri stuðst.

Úlfur Lúðvíksson, lögreglustjóri, svaraði tölvupósti blaðamanns á því að byrja á að taka fram að hann gæti ekki svarað spurningunum efnislega. Hann sendi þó þær úrklippur úr lögum og reglugerðum sem ætla má að embættið leggi ákvörðunum sínum til grundvallar: greinar úr Lögum um landamæri, Lögum um útlendinga og Reglugerð um för yfir landamæri. Ofangreindum spurningum blaðamanns brást hann annars við í sameiningu, frekar en í aðgreindum svörum við hverri og einni. Lögreglustjórinn skrifaði:

„Lögregla styðst að sjálfsögðu við brotaferil einstaklinga hér á landi og erlendis liggi þær upplýsingar fyrir. Hvergi var minnst á í viðtölum að dómar í öðrum löndum væru ekki heldur í forgrunni. Það er hins vegar rétt að aukning í fjölda frávísana á landamærum grundvallast fyrst og fremst á góðri greiningarvinnu lögreglu og frumkvæðis af hálfu lögreglu og tollgæslu. Úrlausnarefni hverju sinni er vandasamt og krefst fagþekkingar og verklagsreglna sem byggjast á íslensku regluverki og Schengen Borders Code.“

„Beinist ekki að ferðamönnum með ákveðinn húðlit“

Eftir stendur þó ein spurning sem lögreglustjórinn brást við sérstaklega, fimmta og síðasta spurningin í erindinu til embættisins. Hún var svohljóðandi:

Hvaða viðmiðum eða verklagi fylgir lögreglustjóraembættið til að tryggja að í þessari framkvæmd sé ekki brotið á réttindum EES-borgara og að í framkvæmdinni felist ekki mismunun, til dæmis af þeim toga sem á ensku nefnist „racial profiling“, það er að þeim sé hlutfallslega heldur stefnt gegn fólki af ákveðnum uppruna en öðrum, með ákveðinn húðlit eða önnur einkenni ætternis, til dæmis?

Lögreglustjórinn svaraði: „Skoðun einstaklinga á landamærum beinist ekki að ferðamönnum með ákveðinn húðlit eða önnur einkenni ætternis.“ Fleiri voru orð hans þó ekki. Þetta viðbragð við spurningunni er víst, eins og hann tók fram sjálfur, ekki efnislegt svar. Því hefur enn ekkert komið fram sem gefur til kynna að nokkurt eftirlit sé viðhaft með störfum lögreglu til að tryggja að skjólstæðingum hennar við landamærin sé ekki mismunað á þessum grundvelli.

Söguleg fordæmi

Tilefni þessara eftirgrennslana um meðferð lögregluvalds við landamærin er í fyrsta lagi fyrrnefnt viðtal á Bylgjunni. Í öðru lagi að á sama tíma fréttist af því að rúmenskum ríkisborgara hefði verið neitað um landgöngu þrátt fyrir að eiga fullan rétt á að ferðast til landsins að sögn lögfræðings konunnar, enda er Rúmenía ESB-ríki. Í þriðja lagi eru söguleg fordæmi og vísbendingar um að þess háttar mismunun sem hér er spurt um hafi í gegnum tíðina átt sér stað á landamærum Íslands og þá jafnvel kerfisbundið.

Þannig kom fram í máli Páls Baldvins Baldvinssonar, rithöfundar, í viðtali við Rauða Borð Samstöðvarinnar fyrr á þessu ári, að frá miðri 20. öld hafi tollverðir við landamærin í reynd framkvæmt útlendingastefnu landsins eftir óskrifuðum reglum. Páll Baldvin sagði: „Eftir að Útlendingaeftirlitið, eins og það hét, Útlendingaeftirlitið, sem var einn maður sem var starfandi hjá lögreglunni í Reykjavík, þá var það þannig að það voru fyrst og fremst tollverðirnir sem sáu til þess að fólki væri ekki hleypt inn. Og einhvern tíma sá ég kvót frá eldri tollverði, þar sem hann var að fagna því að það væri nú verið að setja einhverjar hömlur á það að fólk gæti komið hingað til landsins. Þar sem hann var að blessa tollarana í Keflavík fyrir það að hafa þegjandi og hljóðalaust séð um það að þessi vandi hefði ekki komið upp og orðið opinber löngu löngu fyrr. Og þá erum við að tala um árin fyrir 1950 og alveg til 1980. Þannig að ég hef grun um það að þetta hafi verið innan stjórnkerfisins.“

Að sögn lögfræðings sem þekkir til á sviðinu og blaðamaður ræddi við er „vandinn auðvitað sá,“ þegar fólki er vísað frá við landamærin, „að fæstir þessara einstaklinga ná nokkurn tíma tali af lögmanni, hvað þá einhverjum sem er ekki skítsama og vill bara fá tékkann sinn.“

Ekkert hefur að svo stöddu komið fram um hvernig yfirvöld tryggja að komufarþegum sé ekki mismunað við landamærin á ómálefnalegum forsendum.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí