Sósíalistar í borgarstjórn sendu í gærdag bréf á oddvita allra flokka, þar sem spurt var hvort ekki væri tímabært að draga palestínska fánann að húni við Ráðhús Reykjavíkur. Í færslu sem birt var á síðu borgarstjórnarflokks sósíalista segir:
„Sem borgarfulltrúum finnst okkur ljóst að Reykjavík verður að leggja sitt af mörkum til stuðnings Palestínu. Í gærdag sendum við bréf á alla oddvita í borgarstjórn og spurðum hvort ekki væri orðið tímabært að draga palestínska fánann upp við ráðhúsið. Við getum ekki setið hjá þegar kemur að þjóðernishreinsunum. Vonandi taka fulltrúar annarra flokka undir það.“
Spurningin nú er hvernig borgarstjóri bregst við. Það var að hans frumkvæði sem úkraínski fáninn var dreginn að húni í kjölfar innrásar Rússlands.
Mannfall saklausra borgara og barna er margfalt meira á þeim mánuði sem liðinn er af árásum Ísraela, heldur en á þeim tæpu tveimur árum sem liðinn eru af Úkraínustríðinu.
Það myndi teljast í augum margra hræsni ef palestínska fánanum yrði ekki flaggað líkt og þeim úkraínska. Boltinn er hjá borgarstjóra.