Á mánudag birti Tindur Hafsteinsson á Facebook skjáskot af samskiptum sínum við Arik Shtilman, forstjóra ísraelska fjártæknifyrirtækisins Rapyd, sem er nú umsvifamikið í greiðslumiðlun á Íslandi. Nokkru fyrr hafði Shtilman látið frá sér einföld skilaboð á samfélagsmiðlinum LinkedIn: „We will win“ sagði þar og „Rapyd supports Israel“: Við munum sigra. Rapyd styður Ísrael.
Í athugasemd við þessa færslu sagðist Tindur vona að „mannkyn sigri.“ Hann sagði að það ætti forstjórinn að vona líka, og spurði að því sögðu hvort ekki væri rétt að nota halda alþjóðapólitískum áróðri frá LinkedIn og „einbeita okkur að því sem tengist viðskiptum?“ Hér er þýtt úr ensku.
Forstjórinn hugumprúði lét þessa hlutleysiskröfu frá Íslandi ekki slá sig út af laginu og svaraði skilaboðum Tinds: „Kannski misskildirðu svo ég skal segja það skýrt: Við munum drepa hvern einasta Hamas-hryðjuverkamann á Gasa og granda þeim. Skýrt?“ Tindur spurði þá hvað Shtilman þætti réttlætanlegur kostnaður fyrir það, sem Shtilman svaraði: „Any cost“ – hvað sem er. Tindur reyndi að knýja fram frekari svör frá Shtilman, sem lét hins vegar staðar numið og eyddi loks samskiptunum. Eftir stendur færslan og yfirlýsingin, óhögguð: Rapyd styður Ísrael.
Umsvif Rapyd á Íslandi
Á síðasta ári gengu í gegn kaup Rapyd á greiðslukortafyrirtækinu Valitor. Kaupferlið hófst árið 2020, en var háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Áður hafði Rapyd keypt kortafyrirtækið Kortu og hefði markaðshlutdeild þess orðið 70–75% þegar Valitor bættist við, ef ekki hefðu komið til skilyrði Samkeppniseftirlitsins. Kröfur þess um að Rapyd léti hluta viðskipta sinna af hendi til annars aðila dró markaðshlutdeild fyrirtæksins „marktækt niður fyrir 50%“ að sögn eftirlitsins.
Kvika banki keypti það „söluaðilasafn“ sem krafist var að Rapyd seldi, og stofnaði dótturfyrirtækið Straum til að annast það. Samkvæmt kynningarefni Straums nemur þetta söluaðilasafn „um 25% af íslenska færsluhirðingarmarkaðnum.“ Má því að ætla að hið minnsta um 45% af þeim markaði hafi orðið eftir í höndum Rapyd. Með öðrum orðum má gera ráð fyrir að í næstum annað hvert skipti sem greitt er rafrænt fyrir vöru eða þjónustu í verslun á Íslandi annist Rapyd milligöngu um greiðsluna, og taki þóknun fyrir.
Árið 2022 var alls yfir 150 milljón sinnum greitt fyrir vöru eða þjónustu á Íslandi með innlendu greiðslukorti. Þau gjöld sem heimili greiddu fyrir þessa notkun kortanna námu það ár 9,1 milljarði króna, samkvæmt samantekt sem Seðlabankinn birti síðastliðið vor. Þar eru aðeins talin færslugjöldin sjálf.
Ekki hefur komið fram hvort stuðningur Rapyd við hernaðaraðgerðir Ísraels felst aðeins í yfirlýsingu forstjórans eða hvort hann birtist með áþreifanlegri hætti.