Stjórnvöld keyptu hið minnsta þúsund byssur fyrir leiðtogafundinn í Hörpu

Dómsmálaráðherra upplýsti á mánudag að stjórnvöld hafi fest kaup á skammbyssum og vélbyssum fyrir 165 milljónir króna fyrir leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn var í Hörpu síðastliðið vor. Upplýsingarnar komu fram í skriflegu viðbragði ráðherrans við fyrirspurn Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þingmanns Pírata, um vopnakaupin. Miðað við markaðsverð tilgreindra vopna má ætla að þar hafi lögreglunni borist að minnsta kosti eitt þúsund skotvopn, og mögulega umtalsvert fleiri.

Í viðbragðinu vék ráðherra sér hjá því að svara fjölda liða í fyrirspurn þingmannsins. Þó kom fram að fyrrnefnd skotvopn voru aðeins hluti þeirra vopna og varnarbúnaðar sem stjórnvöld keyptu í tilefni fundarins.

Athygli vekur að ráðherra rökstuddi leyndina sem hvílir yfir vopnaeign lögreglu ekki aðeins með skírskotun til hefðbundinna löggæslustarfa og öryggis lögreglu heldur einnig til þjóðaröryggis og þess sem yfirleitt teldist til hernaðar eða varnarmála. Ef gögn um vopnaeign lögreglu lægju fyrir, skrifar ráðherra, væri auðvelt að finna út „hver geta lögreglu er til að verjast, þ.m.t. í þeim tilfellum þegar lögregla þarf að grípa til vopna með skömmum fyrirvara til að verjast fyrstu tilraunum til að taka yfir stjórn og fullveldi landsins.“

Ekkert svar í 330 orðum

Fyrsta spurning Arndísar Önnu var hver fjöldi skotvopna í eigu lögreglunnar hefði verið áður en undirbúningur hófst vegna gæslu fyrir leiðtogafundinn. Hún óskaði eftir sundurliðuðu svari „eftir gerð og tegund vopna, framleiðanda og magni.“ í stystu máli veitti dómsmálaráðherra ekkert slíkt svar. Hún veitti hins vegar viðbragð við spurningunni, í alls 330 orðum, sem útskýrir meðal annars hvers vegna spurningunni verði ekki svarað: „Það er mat dómsmálaráðuneytisins,“ segir þar, „sem er í samræmi við mat ríkislögreglustjóra, að nákvæmar upplýsingar um varnarbúnað lögreglu falli undir lykilupplýsingar varðandi viðbragðsgetu lögreglu. Ekki sé rétt að birta slíkar upplýsingar opinberlega þar sem það geti haft afdrifaríkar afleiðingar, stofnað öryggi ríkisins í hættu og haft áhrif á öryggi lögreglumanna.“

Í þessu viðbragði við spurningunni segir að matið byggi meðal annars „á breyttum forsendum hvað varðar þjóðaröryggi,“ staðan í öryggis- og varnarmálum Evrópu hafi tekið miklum breytingum frá því í febrúar 2022“, viðmið sem má ætla að vísi til innrásar Rússa í Úkraínu, og það sé mat embættis ríkislögreglustjóra að „verði slíkar upplýsingar gerðar opinberar geti það haft neikvæð áhrif á öryggi ríkisins.“

Leynd til varnar stjórn og fullveldi

Beint í kjölfarið á þeirri skírskotun til stríðsins segir ráðherra að orðið hafi umtalsverð fjölgun brota á Íslandi „þar sem hnífum er beitt“ og vopnatilkynningum til lögreglu hafi fjölgað verulega. Meðal annars hafi fjöldi útkalla þar sem sérsveit vopnast vegna eggvopna „nærri fjórfaldast frá árinu 2016.“ Sagt er að „umhverfið á Íslandi“ hafi breyst „hvað vopnaburð og skotvopn varðar,“ og mikil fjölgun hafi orðið í „innflutningi hálfsjálfvirkra og sjálfvirkra skotvopna sem flutt hafa verið inn á grundvelli safnaraleyfis.“

Ef upplýsingar um skotvopnaeign lögreglu væru gerðar opinberar, segir svo, „þá væri unnt að finna út með auðveldum hætti hver geta lögreglu er til að verjast, þ.m.t. í þeim tilfellum þegar lögregla þarf að grípa til vopna með skömmum fyrirvara til að verjast fyrstu tilraunum til að taka yfir stjórn og fullveldi landsins.“ Slík tilraun var gerð á einveldistímanum, árið 1809, og ef til vill má kalla hernám Breta við upphaf síðari heimsstyrjaldar aðra slíka tilraun. Ekki er þó vitað til að slíkar tilraunir hafi verið gerðar frá stofnun lýðveldisins.

Vélbyssur og önnur vopn fyrir 165 milljónir

Því næst spurði Arndís Anna hvaða skotvopn íslensk stjórnvöld hafi keypt í aðdraganda leiðtogafundarins 16. og 17. maí á þessu ári, 2023. Þar var einnig óskað eftir sundurliðun eftir „gerð og tegund vopna, framleiðanda, magni og verði“.

Í viðbragði við þeirri spurningu fer ráðherra nær því að veita svar. Fram kemur að keypt hafi verið vopn fyrir „um 165 milljónir króna“ fyrir fundinn. Það hafi einkum verið 9mm Glock skammbyssur og 9mm vopn af gerðinni Heckler & Koch MP5, sem í svari ráðherrans eru nefndar „einskotsbyssur“ og flokkaðar eftir númerum undirtegunda: MP5A5 og MP5KSF. Ekki er að sjá, í fljótu bragði, að orðið einskotsbyssa sé til í neinu gagnasafni yfir íslenskt mál, né þekkir leitarvélin Google nein dæmi þess fyrr en í þessu og fyrra svari ráðherra um sama mál. Vopnin sem um ræðir eru hálfsjálfvirk skotvopn, á ensku „submachine gun“, smærri gerð þess sem í daglegu tali nefnast vélbyssur.

Að því er næst verður komist eru þetta útlínur þeirra skotvopna sem ráðherrann tilgreindi í svörum sínum: Glock skammbyssur og tvær gerðir af MP5 hálfsjálfvirkum vopnum, eða vélbyssum, sem ráðherrann nefndi nýyrðinu „einskotsbyssur“ í viðbragði sínu við fyrirspurninni.

Á annað þúsund skotvopn

Gera verður ráð fyrir að skotfæri, þ.e. byssukúlur, séu ekki talin með í þessari fjárhæð, þar sem þingmaðurinn spyr um þau sérstaklega í næsta lið fyrirspurnarinnar. Virðist því mega ætla að hið minnsta 165 milljónum króna hafi verið varið í vopnin sjálf. Fljótt á litið virðist algengt smásöluverð vélbyssanna vera um 1.100 Bandaríkjadalir eða rúmar 150.000 krónur. Skammbyssurnar eru ódýrari. Eins þó að aðeins sé reiknað með því að dýrari vopnin hefðu verið keypt og lögreglan hefði greitt fullt markaðsverð fyrir þau, þá fengjust yfir eitt þúsund slíkar byssur fyrir 165 milljónir króna. Í ljósi þess að við magninnkaup má gera ráð fyrir betra verði og að ótilgreindur fjöldi vopnanna voru hinar ódýrari skammbyssur er ekki ólíklegt að vopnin sem lögreglan keypti hafi verið umtalsvert fleiri.

Ráðherra bætir því við í svarinu að einnig hafi verið keyptar „tvær aðrar tegundir vopna“ til að styrkja sérsveit ríkislögreglustjóra, en ekki verði gefnar upp frekari upplýsingar „um tegund, fjölda eða eiginleika þeirra vopna“ af framangreindum ástæðum.

Táragas fyrir 5,5 milljónir

Þriðja spurning Arndísar Önnu snerist um önnur vopn og varnarbúnað sem keypt hefðu verið fyrir fundinn, og tilgreindi hún sérstaklega að þar með væru talin „handvopn (t.d. kylfur), rafvarnarvopn, skotfæri, gúmmíkúlur, brynjur og búnaður til að aftra óeirðum. Aftur óskaði hún eftir sundurliðun eftir gerð, tegund, framleiðanda, magni og verði.

Í svari ráðherra kemur fram að lögregla hafi keypt „ýmsan annan búnað vegna öryggisráðstafana sem tengdust fundinum“. Af þeim búnaði reyndist ráðherrann tilbúin að nefna hjálma fyrir 47 milljónir króna, lögregluvesti fyrir 56 milljónir og gas fyrir 5,5 milljónir króna. Ætla verður að þar sé átt við táragas frekar en piparúða, þó að það sé ekki tilgreint nánar í svari ráðherrans, sem segist enn og aftur ekki munu gefa „frekari upplýsingar um magn, tegund“ og svo framvegis, af sömu ástæðum og fyrr.

Eingöngu nauðsynlegur búnaður

Fjórða spurningin snerist um ábyrgð á kaupunum, hvaða aðili hefði tekið ákvörðun um hvað skyldi keypt og á hvaða forsendum.

Ráðherra svarar því til að embætti ríkislögreglustjóra beri ábyrgð á kaupunum. Ákvörðun um fjölda og tegundir vopna hafi verið tekin „á grundvelli þarfagreiningar“ þess embættis, sem hafi verið unnin af sérfræðingum þess í samvinnu og samtali við norræn lögregluyfirvöld. Þá segir ráðherra að eingöngu hafi verið „keyptur búnaður sem talinn var nauðsynlegur til þess að tryggja öryggi almennings og gesta.“

Ráðherrann segir einnig að athugað hafi verið hvort eitthvert Norðurlandanna gæti lánað vopn vegna fundarins en svo hafi ekki reynst vera, nema þegar mannskapur erlendra lögregluliða kom með sinn eigin búnað.

Dreggjar hinna rýru svara

Fimmta spurning Arndísar Önnu var hvaða lögregluembætti færi með yfirráð vopnanna og búnaðarins. Aftur veitti ráðherra viðbragð við spurningunni án þess að svara henni efnislega, aðeins að búnaðinum hafi verið komið fyrir „hjá embættum lögreglu … í samræmi við þjálfunarstig, viðbúnaðargetu embættanna og landfræðilega þætti.“

Sjöttu spurningunni, hvaða vopnin voru keypt, það er frá hvaða söluaðila og hvaða landi, svarar ráðherra aðeins með því að búnaðurinn hafi meðal annars verið keyptur frá Þýskalandi, Finnlandi og Bandaríkjunum.

Sjöundi og áttundi liður fyrirspurnarinnar snýr að kostnaðarmati, hvenær það hafi farið fram, hver hafi gert það, á hvaða grundvelli og hvort það stóðst þegar upp er staðið. Sérfræðingar ríkislögreglustjóra unnu kostnaðarmatið, svarar ráðherra, sem var lagt fyrir ríkisstjórn þann 20. mars 2023. Þegar leið nær fundartíma hafi þó bæst við nokkur fjöldi þátttakenda, sem hafi kallað á aukna öryggisgæslu, auk þess sem einhverjir dvöldu lengur en ætlað var í upphafi. Þannig hafi fjöldi erlendra lögreglumanna og sérfræðinga aukist nokkuð frá fyrstu áætlunum. Enn sé unnið að lokauppgjöri á kostnaðinum en „ekki sé gert ráð fyrir miklum frávikum“ frá upphaflegu kostnaðarmati.

Tengt efni

Á vef Alþingis má finna allan texta viðbragðs ráðherra við fyrirspurn Arndísar Önnu.

Það er þó ekki eina fyrirspurn Pírata sem ráðherra koma sér undan því að svara til fulls um þessar mundir. Nýverið greindi Samstöðin frá því hvernig ráðherrar víkja sér ítrekað hjá því að svara fyrirspurnum Andrésar Inga um lyfjaþvinganir við brottvísanir:

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí