Allt bendir til þess að Ísraelar muni nota Eurovision óspart í áróðursskyni. Allar fréttir af forkeppninni þar, sem þó er ekki hafin, benda til þess að Ísrael ætli sér ekki að láta lítið fyrir sér fara í lokakeppninni. Þetta segir Hjálmtýr Heiðdal, formaður Íslands-Palestínu, en hann vitnar í Eurovoix, fréttasíðu Eurovision-aðdáenda, máli sínu til stuðnings.
„Eurovoix – fréttasíða Eurovision-aðdáenda – ætlar ekki að sýna frá forkeppninni í Ísrael. Í yfirlýsingu Eurovoix um kynningarmyndband KAN sjónvarpsins (RÚV þeirra í Ísrael) segir: „Að okkar mati telur Eurovoix að þetta myndband sýni skýran ásetning frá ísraelsku sjónvarpsstöðinni um að nota forvalið sem pólitískt tæki til að styðja hernaðaraðgerðir. Ákvörðunin um að sýna keppendur og kviðdómendur klædda sem hermenn leggur gildi Eurovision að að jöfnu við gildi ísraelskra stjórnvalda.“ Forvalskeppninni fyrir framlag Ísraels var frestað í gær vegna dauða tveggja [voru reyndar þrír] ísraelskra gísla,“ segir Hjálmtýr.
Hann bendir svo á að viðbrögð útvarpsstöðvarinnar sýni vel aðskilnaðarstefnuna í verki. „Í tilkynningu frá útvarpsstöðinni segir: „Í ljósi þeirra frétta sem nú hefur verið leyft að birta, verður HaKokhav HaBa [Næst stjarnan] ekki útvarpað í kvöld. Við vottum fjölskyldunum samúð“ Dauði tuttugu þúsund Palestínumanna hreyfir ekki við ráðamönnum ísrealska sjónvarpsins – samúðin er á öðrum stað,“ segir Hjálmtýr og bætir við:
„Það verður fróðlegt að fylgjast með svörum EBU gagnvart þessu augljósa broti gegn yfirlýstri friðar- og jafnræðishugsjón Eurovision. RÚV hefur ekki enn brugðist við þessum fréttum.“