Magn hrauns í líklegum eldgosum á Reykjanesskaga næstu ár gæti orðið miklu meira en verið hefur í gosum undanfarið.
Þetta kom fram hjá Magnúsi Tuma Guðmundssyni, prófessor í jarðeðlisfræði, á íbúafundi Grindvíkinga í Laugardalshöll í gærkvöld. Hann vísar til sögu jarðelda á Reykjanesskaga máli sínu til stuðnings.
Margir Grindvíkingar vilja uppkaup eigna sinna eins og skot. Aðrir ala þá von í brjósti að geta flutt aftur heim. Fram kom á fundinum í gær að ef allt þróast eins og best gæti orðið er möguleiki að þeir sem vilja búa áfram í Grindavík komist aftur heim en varla fyrr en næsta sumar.
„En ég vísa til sögunnar. Ef þetta verður eitthvað svipað þá á eftir að gjósa þarna og koma miklu meira hraun upp, ef þetta ætlar að hegða sér eins og fyrri atburðirnir,“ sagði prófessorinn um umbrotin.

Erfitt er að spá fyrir um hvar kvika brýst næst upp en landris er aftur hafið í Svartsengi og má telja líklegt að næsta eldgos brjótist út á næstu vikum. Virkur kvikugangur er undir Grindavík. Urðu straumhvörf þegar hraun rann inn í Grindavíkurkaupstað á sunnudag.
Magnús Tumi hefur áður í viðtölum við fjölmiðla bent á hve mikilvægt það er að vísindamenn sýni varkárni í ummælum er kemur að þessum náttúruhamförum. Telja fundargestir sem Samstöðin hefur rætt við að að orð prófessorsins á fundinum í gær beri að skoða í ljósi þess. Ástandið sé mjög alvarlegt.
Ekki er gefið að aðrar byggðir sem standa á viðkvæmum stöðum nálægt umbrotasvæðinu sleppi við jarðeldaógnina í framtíðinni.