Íslenska landsliðið sem hefur leik á EM í handbolta í Þýskalandi á morgun er besta karlalið sem þjóðin hefur eignast.
Þetta segir handboltaþjálfari Fram, Einar Jónsson, í viðtali í sjónvarpsþættinum Maður lifandi á Samstöðinni sem sýndur verður klukkan 16 í dag.
Væntingar hafa sennilega aldrei verið meiri til árangurs landsliðsins en nú. Markmiðið er að komast í úrslitaleik EM sem myndi tryggja beinan rétt til þátttöku á Ólympíuleikunum í sumar.
Fyrsti leikurinn er gegn Serbíu á morgun. Aðrir andstæðingar okkar í riðlakeppninni eru Svartfjallaland og Ungverjar og verður leikið með tveggja daga millibili. Sumir sérfræðingar segja Serbíu sýnda veiði en ekki gefna. Tvö efstu lið hvers riðils fara áfram í milliriðil.
Einar segir í Maður lifandi að stórbrotin stemmnig sé í samfélaginu gagnvart handboltaveislunni fram undan. Snorri Guðjónsson, nýr landsliðsþjálfari, virðist hafa góð tök á sínu starfi. Rætt er um að breidd liðsins hafi sjaldan eða aldrei verið meiri. Ef einn leikmaður meiðist má vænta þess að hægt sé að skipta öðrum jafngóðum inn á. Ekki þarf að keyra á fallvöltu gengi stórstjarna líkt og stundum áður.
Það er helst að sérfræðingar sjái fyrir sér að línumenn liðsins séu ekki alveg á pari við það besta sem þekkist í heiminum. Markvarsla eða aðrir þættir gætu unnið það upp – að ógleymdri íslensku geðveikinni – baráttuandanum sem svo oft hefur glatt hnípna eyþjóð í norðri í svartasta skammdeginu sem líkt og lýsist upp á góðum degi. Maaaaark!
Áfram Ísland!