Um fátt hefur verið rætt meira á heimilum á höfuðborgarsvæðinu í morgun en hve vont veður er í pípunum. Skaplegt verður það fram eftir degi samkvæmt Veðurstofunni, vestlæg átt og éljagangu. Um hádegi gengur í hvassviðri eða storm sunnanlands, sjá mynd með gulri viðvörun.
Ein spurningin er hvort umferð innan höfuðborgarsvæðisins muni skerðast mjög eða lamast milli hádegis og kaffis.
„Er hreinlega verið að tala um útgöngubann,“ spurði grunnskólanemandi á leið í skólann í morgun.
Það er allavega ljóst að skyggni verður lítið sem ekkert um tíma. Vegagerðin biður fólk á suðvesturhorninu að vera sem mest heima. Á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu gæti veðrið orðið einna verst. Vindur gæti farið í 22 metra. Óveðrið mun vara í um þrjár klukkustundir. Skyggni verður innan við 100 metrar.
Brýna nauðsyn þarf því til að fólk sé á ferðinni frá kl. 12-16 í dag eftir því sem Veðurstofa og Vegagerðin halda fram. Eru vegfarendur sem sagt beðnir að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu.