Eftir enn eitt banaslysið í mánuðinum þegar einn dó í árekstri dráttavélar og jeppa í gær á Suðurlandsvegi við Sólheimajökul, hafa alls sex látist í umferðarslysum í janúar.
Ætla mætti að hrinan gefi tilefni til sérstakra viðbragða af hálfu stjórnvalda en Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu, segir að bráðabirgðarannsóknir á banaslysunum hafi ekki enn skilað niðurstöðu. Þær rannsóknir eru ekki á vegum Samgöngustofu en Gunnar útilokar ekki að sérstöku öryggisátaki í umferðinni verði hrundið af stað.
„Þetta er hrikaleg tölfræði,“ segir Gunnar.
Margt bendir til að þjóðvegir landsins hafi verið sérlega hættulegir í hálkunni síðustu vikur. Þegar ekið er í snjó og slæmu skyggni á þröngum vegum getur akstur orðið dauðans alvara.
Mörg stór og þung ökutæki eru á vegum landsins. Fjöldi ökumanna ber ekki skynbragð á hættur vetraraksturs. Ekki liggur þó fyrir í banaslysunum hvort hegðun ökumanna eða aðstæður séu orsakavaldur að sögn Gunnars.
Til marks um frávikið hafa jafnmargir dáið í banaslysum nú í einum mánuði og létust allt árið 2019.
Í fyrra létust átta í umferðinni í átta slysum. Síðustu fimm ár hefur fjöldi fórnarlamba árlega verið frá sex til níu. Sérstaka athygli vekur að janúar hefur ekki þótt varasamur umferðarmánuðumánuður, því alla jafna er tíðni banaslysa hæst á sumrin.
„Já, þetta er mjög mikið bakslag, það er alveg rétt,“ segir Gunnar en ítrekar að varast beri að draga of víðtækar ályktanir á þessar stundu.
Eftir því sem næst verður komist eru hinir látnu í umferðinni í janúar Íslendingar, auk tveggja Pólverja.
„Ég held það gæti verið mjög gott að hraða rannsóknarvinnu á þessum slysum,“ segir Gunnar.