„Þetta er bara fyrirsláttur og mjög ógeðfellt og ósanngjarnt að nota stöðuna í Grindavík til þess að, hvað á ég að segja, vinna gegn þessum nauðsynlegu og stóru markmiðum sem við höfum sett okkur í þessum kjarasamningum.“
Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um orð sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, lét falla í Silfrinu í gær. Bjarni gaf sterklega í skyn að ríkisstjórnin hyggðist ekki koma til móts við breiðfylkingu verkalýðsfélaga, vegna aðstæðna í Grindavík.
Ragnar segir í viðtali við RÚV að Bjarni sé beinlýnis að misnota hamfarirnar í Grindavík. Þó kostnaður vegna þeirra gæti orðið talsverður þá mun það aldrei verða jafnmikið og stuðningur ríkisins við fyrirtæki á síðustu árum.
„Ef við setjum þetta í samhengi við stuðning ríkisstjórnarinnar við fyrirtæki í heimsfaraldrinum, þær stuðningsaðgerðir kostuðu ríkið 450 – 460 milljarða. Ef við setjum þetta í samhengi við þær aðgerðir sem farið var í eftir hrun, ástarbréfin sem voru keypt af Seðlabankanum 370 milljarðar, 600 milljarða aðgerðapakkar, þar voru heimilin skilin algjörlega eftir. Ef við setjum þessar tölur í samhengi við það sem er til inni í Náttúruhamfaratryggingasjóði og hvað þarf að bæta við til þess að bæta Grindvíkingum tapið þá eru þetta auðvitað bara smáaurar í því samhengi,“ segir Ragnar Þór.