„Mér finnst einstaklega smekklaust af RÚV að senda út tónlist og auglýsingar á meðan landsmenn horfa á hraunið renna inn í Grindavík og kveikja í heimilum fólks.“
Þetta segir Björn Birgisson, íbúi í Grindavík, á Facebook en hann er líkt og flestir Grindvíkingar í áfalli eftir viðburði dagsins. Í morgun opnaðist ný gossprunga rétt við Grindavík. Nú að kvöldi er talið að þrjú hús séu brunnin eða farin undir hraun. RÚV hefur sýnt hamfarirnar í beinni útsendingu í dag. Að horfa á tortímingu heimilis síns er skiljanlega tilfinningaþrungið fyrir Grindvíkinga. Björn lýsir því svo:
„Ég lít á þessar myndir með augun fljótandi í tárum yfir örlögum okkar Grindvíkinga, sérstaklega þeirra sem nú sjá hraunið brjóta niður heimili þeirra og kveikja Í þeim. Sendi því fólki sérstakar samúðarkveðjur, sem og öðrum Grindvíkingum sem fylgjast með örlögum bæjarins í vonleysi og örvinglan. Algjör óþarfi að íþyngja öllu því fólki með smekkleysi sem jaðrar við dónaskap.