Arabaríkin hafa fordæmt Bandaríkin fyrir að hafa beitt neitunarvaldi sínu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gegn ályktun um tafarlaust vopnahlé á Gaza. Ályktunin, sem Alsír lagði fram fyrir hönd Arabaríkjanna, var tekin til afgreiðslu á neyðarfundi ráðsins síðastliðinn þriðjudag, og var samþykkt af þrettán ríkjum. Bretland sat hjá en Bandaríkin beittu neitunarvaldi. Kína hefur einnig fordæmt beitingu neitunarvaldsins.
„Neitun Bandaríkjanna, sem gengur gegn vilja alþjóðasamfélagsin, gefur Ísraelum grænt ljós til að halda áfram árásum á þjóð okkar á Gaza-ströndinni og hefja blóðuga árás á Rafha,“ sagði í yfirlýsingu frá stjórnvöldum í Palestínu í gær.
Forseti Arababandalagsins, Ahmen Aboul Gheit, lýsti í gær djúpum vonbrigðum yfir gjörðum Bandaríkjanna, en þetta var í þriðja sinn frá því að árásarstríð Ísraela hófst 7. október sem Bandaríkjamenn koma í veg fyrir ályktun um vopnahlé. Afstaða Bandaríkjanna grafi undan trúverðugleika alþjóða kerfisins.
Egyptaland og Katar, sem hafa haft milligöngu um samningaviðræður milli Ísraela og Hamas síðan stríðið hófst, hafa einnig lýst sérstökum vonbrigðum sínum.
Öll Evrópusambandsríkin utan Ungverjalands kölluðu á mánudaginn eftir því að komið yrði á tafarlausu mannúðar vopnahléi, sem myndi leiða til langvarandi vopnahléi.
Á sama tíma og kallað er eftir vopnahléi á Gaza beita Bandaríkin ekki aðeins neitunarvaldi sínu heldur er stjórn Biden forseta að undirbúa nýjar hergagnasendingar til Ísraels. Wall Street Journal greindi frá því í síðustu viku, og hafði eftir ónafngreindum embættismönnum, að í heild væri um að ræða hernaðaraðstoð sem næmi tugum milljóna Bandaríkjadala.