Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels hefur fyrirskipað ísraelska hernum að undirbúa brottflutning allra almennra borgara frá borginni Rafah og undirbúa árás á landi á borgina. Yfir 1,3 milljónir Palestínumanna hafast við í borginni sem hefur verið lýst sem yfirfullum flóttamannabúðum. Af þeim eru yfir 600 þúsund börn.
Ísraelski herinn hefur myrt yfir 100 Palstínumenn síðasta sólarhringinn á Gaza. Þar af skutu leyniskyttur og myrtu að minnsta kosti 21 fyrir utan Nasser sjúkrahúsið í borginni Khan Younis. Meðal þeirra látnu voru heilbrigðisstarfsmenn. Tala látinna á Gaza nálgast nú að vera 28 þúsund manns síðan Ísraelar hófu árásarstríð sitt.
Rafah er síðasti stóri þéttbýlisstaðurinn á Gaza ströndinni sem Ísraelar ráða ekki. Síðustu sólarhringa hefur ísraelski flugherinn látið sprengjum rigna yfir borgina með hroðalegu mannfalli. Fátt ef nokkuð bendir til að tekið sé tillit til viðveru almennra borgara í þeim hernaði. Skrifstofa Netanyahu sagði í yfirlýsingu að hertaka þyrfti borgina sökum þess að ekki væri bæði hægt að útrýma Hamas-hreyfingunni en á sama tíma leyfa fjórum herdeildum Hamas að hafast við á Rafah.
Bandaríkjastjórn hefur lýst áhyggjum sínum af fyrirhuguðum brottflutningi og árás á borgina. Engin skipulagning á brottflutningum hafi átt sé stað og enginn undirbúningur að því að koma yfir milljón manns í skjól. Er áætlunum Ísraela lýst sem svo að þær muni enda í hörmungum. Antony Blinken utanríkisráðherra varaði við öllum fyrirætlunum um innrás inn í Rafah á fundum með Netanyahu og öðrum ísraelskum embættismönnum í vikunni. Eins og greint var frá á Samstöðinni í gær virðist þolinmæði flestra bandamanna Ísraela vera að þrjóta, þannig sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti í fyrradag að hernaður Ísraela á Gaza væri farinn yfir strikið.