„Um það verður ekki deilt að umsvif ríkisins á innlendum fjölmiðlamarkaði gera sjálfstæðum fjölmiðlum erfitt fyrir og kippa rekstrargrundvelli undan sumum miðlum og veikja möguleika annarra,“ segir í frumvarpi nokkurra þingmanna Sjálfstæðisflokksins um endurskoðun á rekstrarumhverfi fjölmiðla.
Ef frumvarpið verður samþykkt þýðir það umpólun á rekstri Rúv.
Lagt er til að opinbert hlutafélag sem stofnað var í kringum RÚV árið 2006 verði lagt niður, enda hafi stofnun þess verið mistök. RÚV verði þess í stað sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins. Frétta- og dagskrárgerðarmenn myndu öðlast stöðu opinberra starfsmanna.
Útvarpsgjald verði afnumið með öllu. Dregið verði úr forréttindum Rúv en staða sjálfstæðra fjölmiðla styrkt. Allir fjölmiðlar njóti skattalegra ívilnana í stað fjölmiðlastyrkja.
Fram kemur í frumvarpinu að rekstrarkostnaður Rúv hefur hækkað gríðarlega á síðustu árum og áratugum.
„Til samanburðar má líta til þess að launakostnaður Ríkisútvarpsins er hærri en heildarlaunakostnaður allra dómstóla á Íslandi til samans,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
„Það skýtur skökku við að kostnaður ríkisins við launagreiðslur eins fjölmiðils sé hærri en við dómskerfið í heild sinni.“
Er þá ónefnd auglýsinfaforgjöf Rúv sem forráðamenn Torgs sögðu eftir fall Fréttablaðsins að hefði murkað líftóruna úr einkareknum miðlum.
Óli Björn Kárason er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.